Þrír menn fórust í flugslysi við Reykjavíkurflugvöll: Flugvélin steyptist til jarðar 50 metrum sunnan Hringbrautar ÞRÍR Kanadamenn létust er tveggja hreyfla Casa-212-flugvél fórst í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli klukkan 17.42 í gær.

Þrír menn fórust í flugslysi við Reykjavíkurflugvöll: Flugvélin steyptist til jarðar 50 metrum sunnan Hringbrautar

ÞRÍR Kanadamenn létust er tveggja hreyfla Casa-212-flugvél fórst í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli klukkan 17.42 í gær. Vélin stakkst niður milli Hringbrautar og norður-suður-flug brautar, rúmum 50 metrum sunnan Hringbrautar, en þá var þung umferð um Hringbraut til austurs og vesturs. Casa-vélin var sérútbúin til rannsókna og segulmælinga. Hún var hingað komin frá Nassarsuaq á Grænlandi en Kanadamennirnir voru á leið til Frakklands þar sem þeirra beið rannsóknarverkefni. Vélin, sem var skráð í Kanada og bar einkennisstafina C-GILU, var í eigu fyrirtækisins Geo terrex í Ottawa og hafði margsinnis áður haft viðdvöl hérlendis.

Fjöldi sjónarvotta var að því er vélin fórst. Hún var þá í blindflugs aðflugi í um 1 kílómetra skyggni að norðurenda norður-suður-flug brautarinnar og var áhöfnin í sambandi við flugturninn á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var ekkert í fjarskiptum vélarinnar við flugturninn sem bent gat til bilunar eða erfiðleika við stjórn hennar. Flugmaðurinn hafði nýverið fengið upplýsingar úr flugturni um veður og skyggni. Sjónarvottum í flugturni virtist vélin hallast á hægri væng er hún kom niður úr skýjum í, að því er þeim virtist, eðlilegri aðflugshæð en ekki í nákvæmri stefnu á flugbrautina. Þeim virtist vélarhljóðið óeðlilegt. Þegar flugmaðurinn jók eldsneytis gjöf snerist vélin yfir til hægri og snerist í um það bil 270 gráður miðað við rétta aðflugsstefnu áðuren hún skall til jarðar um 100 metra vestan við flugbrautina. Strax og vélin snerti jörðu kvað við sprenging í flakinu og eldtungur stigu til lofts. Varð vélin að rjúkandi rústum á örskammri stundu. Talið er víst að mennirnir hafi allir beðið bana samstundis.

Slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli var komið á vettvang og tekið til við slökkvistarf innan tveggja mínútna að sögn sjónarvotta. Skömmu síðar dreif fjölmennt lögreglulið að, einnig slökkviliðið íReykjavík og sjúkrabifreiðar. Mikill fjöldi fólks fylgdist með slökkvi- og björgunarstarfi enda síðdegisum ferð um Hringbraut í hámarki.

Um hálfri annarri klukkustundu eftir að björgunarstarf hófst náðu björgunarmenn líki fyrsta mannsins úr vélinni en um klukkan 21 var björgunarstarfi lokið. Þá var dúkur breiddur yfir flak vélarinnar og verður það varðveitt á slysstað þartil fulltrúar eigenda og framleiðenda koma til landsins til að kanna verksummerki í dag eða á morgun, fimmtudag. Þá eru einnig væntanlegir til landsins fulltrúar frá kanadískum flugmálayfirvöldum sem annast munu rannsókn slyssins í samvinnu við íslensk yfirvöld. Lögregluvörður verður um flakið þar til vettvangsrannsókn telst lokið.

Um klukkan 23 í gærkvöldi varðist Loftferðaeftirlitið allra frétta af rannsókna málsins en þá stóðu yfir umfangsmiklar skýrslutökur af þeim fjölda sjónarvotta sem gefið hafði sig fram. Grétar Óskarsson framkvæmdastjóri Loftferðaeftirlitsins sagði nokkra daga mundu líða áður en orsakir slyssins skýrðust.

Morgunblaðið/Pétur P. Johnson

Flugvélin sem fórst í gær, Casa 212, einkennisstafir C-GILU, sést hér í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli s.l. haust.

Morgunblaðið/RAX

Slökkviliðið á Reykjavíkurflugvelli ásamt slökkviliði Reykjavíkur brást skjótt við. Tekist hafði að slökkva eldana með kvoðu áður en fimm mínútur voru liðnar frá slysinu.

w