Forsætisráðherra: Ráðgjafarnefnd skipuð sem geri tillögur um aðstoð við fyrirtæki Á ríkisstjórnarfundi í gær tilkynnti Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra, að hann hefði ákveðið að skipa ráðgefandi nefnd skipaða fulltrúum atvinnulífsins og...

Forsætisráðherra: Ráðgjafarnefnd skipuð sem geri tillögur um aðstoð við fyrirtæki Á ríkisstjórnarfundi í gær tilkynnti Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra, að hann hefði ákveðið að skipa ráðgefandi nefnd skipaða fulltrúum atvinnulífsins og stjórnarflokkanna. Nefndinni er ætlað að gefa ríkisstjórninni álit annarsvegar um ráðstafanir til að bæta rekstrarskilyrði útflutnings og samkeppnisgreina, og hins vegar ráðstafanir til að treysta eiginfjárstöðu íslenskra atvinnufyrirtækja. Ætlast er tilað tillögur nefndarinnar taki mið af stefnu ríkisstjórnarinnar um jafnvægi í verðlagsmálum og á fjármagnsmarkaði.

Að sögn Þorsteins Pálssonar var ákvörðun um skipan þessarar nefndar tekin í framhaldi af því undirbúningsstarfi sem unnið hefur verið að undanförnu í þeim tilgangi að undirbúa þjóðhagsáætlun og ráðstafanir til að bæta stöðu útflutningsfyrirtækja, og jafnframt í framhaldi af heimsóknum forsætisráðherra í atvinnufyrirtæki út um land ásamt viðræðum hans við forystumenn atvinnulífsins.

"Ákveðið var að setja á fót ráðgjafanefnd fulltrúa atvinnulífsins og stjórnarflokkanna, sem hefur þetta tvíþætta höfuðverkefni aðkoma með álit til ríkisstjórnarinnar um bætt rekstrarskilyrði, og jafnframt álit um ráðstafanir til að auka eigið fé í atvinnufyrirtækjum. Allt þetta þarf að tengjast þeim höfuðmarkmiðum að vinna að hjöðnun verðbólgu og betra jafnvægi á fjármagnsmarkaði. Bæði stjórnvöldum og forystumönnum er ljóst að mjög þarf að hraða allri vinnu á þessu sviði, og treysta þarf samráð og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins, því hér er mikill vandi á höndum, og þessi nefndarskipun er liður í því, en þó hefur ekki verið ákveðin nein dagsetning varðandi það hvenær nefndin á að ljúka störfum," sagði Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra.

Nefndina skipa þeir Ágúst Einarsson frá Sambandi fiskvinnslustöðva, Guðjón B. Ólafsson frá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, Víglundur Þorsteinsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Jón Sigurðarson frá Framsóknarflokki, Einar Oddur Kristjánsson frá Sjálfstæðisflokki, en hann er formaður nefndarinnar, og frá Alþýðuflokki er að vænta tilnefningar fulltrúa í nefndina í dag.