Innanlandsflug Flugleiða: Ákvörðun um kaup á nýjum vélum næsta vor Þrjár tegundir koma til greina NÆSTA vetur munu Flugleiðir gera nákvæma könnun á kaupum á nýjum flugvélum fyrir innanlandsflugið.

Innanlandsflug Flugleiða: Ákvörðun um kaup á nýjum vélum næsta vor Þrjár tegundir koma til greina

NÆSTA vetur munu Flugleiðir gera nákvæma könnun á kaupum á nýjum flugvélum fyrir innanlandsflugið. Er vonast til að stefnumarkandi ákvörðun liggi fyrir um kaupin næsta vor. Þrjár tegundir af vélum koma tilgreina en kostnaður við endurnýjun innanlandsflotans er talinn nema um 2,5 milljörðum króna eða um 10 milljónir á hvert sæti.

Leifur Magnússon framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Flugleiða segir að endurnýjun á fimm Fokker-vélum félagsins í innanlandsfluginu hafi verið á dagskrá lengi. Hinsvegar varð félagið að láta endurnýjun á millilandavélum sínum ganga fyrir vegna nýrra reglna um hávaða í flugvélum sem taka gildi í þeim löndum sem Flugleiðir fljúga til 1992.

Þær þrjár tegundir af vélum sem til greina koma eru ATR-42 sem er frönsk/ítölsk vél, DHC-8-300 sem smíðuð er í Kanada og Fokker 50 sem er ný og endurbætt gerð af Fokker F-27, núverandi vélum í innanlandsfluginu. Allar þessar vélar eru 44-54 sæta og kosta um 500 milljónir króna hver, sætið í þeim kostar því um 10 milljónir eins og fyrr greinir.