Innlend fjármögnun ríkissjóðs: Samband viðskiptabanka undirbýr tillögur í dag STJÓRN Sambands íslenskra viðskiptabanka heldur í dag fund um viðræður þær sem bankar og sparisjóðir hafa átt við fjármálaráðuneytið um fjármögnun ríkissjóðs.

Innlend fjármögnun ríkissjóðs: Samband viðskiptabanka undirbýr tillögur í dag

STJÓRN Sambands íslenskra viðskiptabanka heldur í dag fund um viðræður þær sem bankar og sparisjóðir hafa átt við fjármálaráðuneytið um fjármögnun ríkissjóðs. Stefán Pálsson formaður sambandsins býst við að á fundinum verði reynt að sammælast um ákveðna leið í samningum við ríkissjóð um sölu ríkisskuldabréfa. Bankar hafa boðist til að ábyrgjast sölu ríkisskuldabréfa fyrir allt að 3,6 milljarða króna en á móti komi m.a. að bindiskylda bankanna hjá Seðlabanka verði lækkuð en fjármálaráðuneytið hefur ekki viljað fallast á það.

Í lánsfjáráætlun var gert ráðfyrir að bankar keyptu ríkisskuldabréf fyrir 1,3 milljarða og auk þess var gert ráð fyrir sölu spariskírteina og ríkisvíxla á almennum markaði, alls fyrir um 2,4 milljarða króna. Um mitt árið höfðu bankar ekki keypt nein ríkisskuldabréf og í kjölfar þessað Seðlabankinn fékk heimild fyrir hækkun bindiskyldu banka úr 13% í 15% fóru af stað óformlegar viðræður milli lánastofnana og fjármálaráðuneytis um fjármögnun ríkissjóðs.

Stefán Pálsson sagði við Morgunblaðið að í viðræðunum hefðu komið fram ýmsar tillögur, m.a. buðust bankarnir til að ábyrgjast sölu ríkisskuldabréfa fyrir allt að 3,6 milljarða króna sem myndi þá uppfylla innlenda lánsfjárþörf ríkissjóðs samkvæmt lánsfjáráætlun og einnig brúa fyrirsjánlegan halla ríkissjóðs, um 700 milljónir, og lánveitingu vegna útflutningsbóta, um 500 milljónir. Á móti því kæmi að bindiskylda banka hjá Seðlabanka yrði lækkuð og spariskírteini, sem bankar hefðu ábyrgst en ekki tekist að selja innan ákveðins tíma, yrðu talin með eignum innan lausafjárhlutfalls.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins telur fjármálaráðuneytið þetta tilboð bankanna ekki aðgengilegt, aðallega vegna hugmynda um lækkun bindiskyldu. Verið er að skoða leiðir til að ná samkomulagi og er talið hugsanlegt að fjármálaráðuneytið komi með ákveðið tilboð til bankanna.