Erla Eyjólfsdóttir fæddist í Keflavík 25. apríl 1930. Hún lest á líknardeild Landakots 23. desember 2021.
Foreldrar Erlu voru hjónin Sigurbjörg Davíðsdóttir, fædd 3. mars 1907, frá Akranesi, dáin 30. júní 1997, og Eyjólfur Eyjólfsson, fæddur í Keflavík 8. september 1904, dáinn 29. júní 1977. Systkini Erlu eru Hafsteinn Eyjólfsson, fæddur 5. mars 1934, og Bragi Eyjólfsson, fæddur 12. mars 1945.
Erla giftist 1. júlí 1950 Magnúsi Hvanndal Hannessyni, f. 2. febrúar 1929, látinn 28. september 2000. Börn þeirra: Sigrún Hvanndal, börn Erla Sylvía og Borgar Þór. Sambýlismaður Sigrúnar er Stefán Hallgrímsson. Ester Hvanndal. Finnbjörn Hvanndal, dóttir Anna Ósk Hvanndal. Maki Finnbjörns er Olga Þórhallsdóttir, sonur þeirra er Finnbjörn Hvanndal. Sigurbjörg Hvanndal, maki Björn Eyjólfur Auðunsson, látinn, dóttir þeirra er Helga Hvanndal. Magnús Hvanndal, börn Sara Hvanndal, Dagný Hvanndal og Davíð Alexander Hvanndal. Maki Magnúsar er Theodóra Bragadóttir. Anna Lilja, börn Jóhann Þór Hvanndal, Ester Ósk Hvanndal, Ari Trausti Hvanndal og Ísak Örn Hvanndal. Sambýlismaður Önnu Lilju er Vilhálmur Þór Vilhjálmsson.
Erla ólst upp í Keflavík á Aðalgötu 14 til 18 ára aldurs. Þar ásamt skólagöngu æfði hún sund og var í skátunum. Stundaði hún ýmis störf, m.a. við ritsímann í Keflavík. Erla og Magnús byrjuðu að búa i Sandgerði og bjuggu þau þar á meðan þau byggðu húsið sitt á Sóltúni í Keflavík þar sem þau bjuggu i 10 ár. Erla var heimavinnandi á þessum tíma enda heimilið stórt. Eftir það fluttu þau til Reykjavíkur þar sem hún hélt áfram að sinna börnum sínum og heimili ásamt því að sinna ýmsum verslunar- og veitingastörfum.
1970 fluttu þau aftur til Sandgerðis þar sem Erla vann ýmis störf þar til hún byrjaði í samkomuhúsinu þar sem íþróttakennsla fór fram þar til íþróttahúsið var byggt og stóð hún vaktina þar frá upphafi allt til starfsloka. Stuttu seinna flutti hún til Reykjavíkur og síðustu fjögur árin bjó hún í þjónustuíbúð í Lönguhlíð 3.
Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 6. janúar 2022, klukkan 13.
Hlekkur á streymi:
https://www.mbl.is/andlat.

Við systkinin kveðjum nú móður okkar sem lést á 92. aldursári. Hún fæddist í Keflavík og var elst þriggja systkina. Hún var eina dóttirin og augasteinn föður sins. Afi og amma höfðu það ágætt og mamma sagði að hún hefði verið dekruð dálítið, til dæmis hefði afi laumað að henni snuddunni eftir að amma hafði bannað. Amma var með hænur og kött og ræktaði kartöflur, rófur og kál í stóra garðinum á Aðalgötunni. Þegar bruninn mikli var á jólaskemmtun í Keflavík þegar mamma var fimm ára fékk hún ekki að fara því hún lá veik heima, en mundi eftir eldtungunum sem sáust vel frá heimilinu. Mörg börn dóu og mörg hlutu skelfileg brunasár. Mamma kynntist pabba á balli í Sandgerði, þá 17 ára gömul og hann 18 ára. Þá var hún hætt í skóla og vann á ritsímanum í Keflavík, sem þótti soldið flott. Hafði farið í nám til að fullnuma sig í þeirri tækni. Fljótlega hófu þau búskap að Staðarfelli í Sandgerði, heimabæ pabba, þar sem hann ók vörubíl. Fyrr en varði voru komin tvö börn. Elsta barnið fæddist þegar hún var 19 ára og annað ári síðar. Mamma var alltaf mjög lasin á meðgöngu, kastaði upp frá fyrsta degi og missti allt að 15 kíló. En öll vorum við hraust og mamma braggaðist vel eins og börnin að sögn. Við erum 6 systkinin og sú yngsta fæddist 20 árum eftir þá fyrstu. Strákarnir auðvitað í uppáhaldi hjá mömmu sem var eðlilegur hlutur hjá okkur stelpunum.
Það er blessun og hamingja að eiga mörg systkini, þó stundum langaði þá elstu að vera einkabarn. Mamma stóð alltaf með okkur 100% út á við ef eitthvað bjátaði á, en við fengum það óþvegið þegar heim var komið. Við börnin og pabbi vorum alltaf aðalviðfangsefni mömmu. Hún var alltaf til staðar, ástrík og blíð, þó hún hefði svo sem ekki mikinn tíma til að spjalla um heima og geima. Hún var ákveðin og enginn afsláttur gefinn á uppeldi til góðra siða og framkomu. Ef henni mislíkaði þá horfði hún bara á mann og maður passaði sig. Ég var líka hissa og soldið öfundsjúk út í krakkana sem þorðu að brúka kjaft. En unglingsárin hjá sumum okkar voru tími uppreisnar og við byrjuðum eigin búskap nokkuð snemma.
Pabbi byggði okkur fjölskyldunni hús í Keflavík og við fluttum inn í fína húsið meðan við elstu vorum 4 og 5 ára. Það voru svo flott teppi út í horn og nýja ísskápinn var alveg hægt að horfa á lengi. Þau leigðu Ameríkönum loftið og ég man vel eftir öðruvísi matarlykt sem lagði niður. Litli bróðir lærði byssuleiki á ensku og kunni að segja stick them up þriggja ára gamall. Það var gaman að dansa við pabba eftir lögum úr kanaútvarpinu á stífbónuðu eldhúsgólfinu og mamma horfði á og sagði með aðdáun: Þið eruð sömu dansfíflin, þú og pabbi ykkar. Sjö ára spurði ég mömmu hvort hún hefði fallegar axlir, hún svaraði strax: spurðu pabba ykkar, og ég spyr: pabbi, er mamma með fallegar axlir? Hann horfir á mömmu og segir: hún er með fallegustu axlir í heimi. Foreldrar okkar sögðu alltaf pabbi ykkar og mamma ykkar þegar þau töluðu hvort um annað. Nokkrum dögum áður en mamma dó spurði hún mig sem sat ein hjá henni: Hvenær kemur pabbi ykkar eiginlega?
Það var gaman eiga unga, ástfangna foreldra, þau voru svo skemmtileg og hamingjusöm í nýja húsinu sínu. Þegar við systkinin urðum eldri töluðu þau bæði um hvað við værum klár og falleg og þau hafa alltaf staðið með okkur. Foreldrar okkar skildu eftir 35 ára búskap en héldu góðum vinskap og sambandi. Mamma hélt veislur á jólum, páskum og öðrum tyllidögum sem pabbi mætti alltaf í og dvaldi þá í Sandgerði hjá mömmu oft í nokkra daga. Bæði bjuggu ein til dauðadags. Móðir okkar starfaði í íþróttahúsinu í Sandgerði til starfsloka. Átti hún þar afar farsælan starfsferil í 25 ár. Má segja að hún hafi á vissan hátt komið að uppeldi og glætt íþróttaáhuga flestra barna í Sandgerði þessi 25 ár. Margir minnast hennar með hlýhug. Mamma lifði rúm 20 ár eftir fráfall pabba. Hún flutti stuttu eftir andlát hans í bæinn og bjó í Grafarvogi nálægt yngri bróður þar til hún flutti í þjónustuíbúð í Lönguhlíð 3 í Reykjavík. Þar undi hún sér afar vel og vingaðist við flesta þar. Starfsfólki þar er þakkað fyrir vingjarnlegt og hlýlegt viðmót. Mamma var hamingjusöm þar innan um allt fólkið.
Blessuð sé minning mömmu, hún var alltaf svo elskuð og yndisleg. Við systkinin þökkum henni fyrir ástina og umhyggjuna sem hún bar til okkar og barna okkar og barna þeirra og barnabarna.

Sigrún Hvanndal Magnúsdóttir.