Oddur Magnússon fæddist 8. júní 1920 á Akranesi. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 15. janúar 2022. Foreldrar Odds voru Magnús Sveinsson vélamaður, f. 9. júlí 1892, d. 22. desember 1951 og Hólmfríður Oddsdóttir húsmóðir, f. 19. september 1899, d. 3. maí 1984. Systkini Odds eru Aldís Fríða, f. 5. júlí 1923, látin, Sigurbjörg Ásta, f. 13. ágúst 1926, látin, Sigurður Magnús, f. 7. febrúar 1928, látinn, Guðmundur Vilmar, f. 3. júlí 1929, látinn, Bragi, f. 19. október 1930, látinn, Halldór, f. 14. janúar 1936, Óttar Sævar, f. 25. júní 1937, látinn, Sigurlín, f. 26. ágúst 1942. Eiginkona Odds var Kirsten Aase Magnússon, f. 7. apríl 1922 í Rönne á Borgundarhólmi, d. 22. mars 1990. Börn Odds og Kirstenar eru: a) Ingrid Ísafold, hennar maður var Magnús Helgason, f. 24 febrúar 1944, d. 5 febrúar 2008 og eiga þau 5 börn og 10 barnabörn og 13 barnabarnabörn. b) Erna Freyja, f. 13. mars 1947, gift Einari Ólafssyni, f. 25. nóvember 1945 og eiga þau 3 börn, 5 barnabörn og eitt barnabarnabarn. c) Magnús, f. 30. apríl 1953, kona 1: Sigurveig Friðgeirsdóttir, f. 23. desember 1953 og þeirra börn 4 og barnabörn 7. Kona 2: Sigurlína Hreiðarsdóttir, f. 23. maí 1951 og eiga þau 1 barn og eitt barnabarn. Fyrir átti Sigurlína 2 börn. Eru afkomendur Odds orðnir 55 og eru 53 á lífi.
Útför Odds verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 1. febrúar 2022, kl. 13 og verða eingöngu nánustu aðstandendur viðstaddir.
tandendur viðstaddir.

Láttu hann vera, þetta er afi minn, sagði ég víst u.þ.b. fjögurra ára við Óla bróður minn sem er tveimur árum eldri og vogaði sér eitthvað of nálægt afa í einni heimsókninni. Þetta rifjaði afi oft upp við mig í gegnum tíðina og hló og kímdi. Held honum hafi þótt ansi vænt um þetta dálæti mitt á honum og meint eignarhald. Dálæti mitt var sannarlega raunverulegt og alla tíð fann ég að það var gagnkvæmt.

Ég naut þess að vera í miklum samskiptum við afa og ömmu á Laugaveginum sem barn. Þar var ég oft í pössun yfir daginn og einnig stundum í gistingu og fékk þá besta staðinn í hjónarúminu, mitt á milli afa og ömmu í hlýjum faðmi, ást og umhyggju. Á virkum dögum horfði ég á gömlu stofuklukkuna sem hékk uppi á vegg, pendúllinn gekk fram og til baka. Hvað er langt í afa núna? spurði ég ömmu oft á dag. Ég hlakkaði nefnilega alltaf svo til að fá hann heim úr vinnunni því þá fékk ég að leggja með honum kapal við stofuborðið, hlusta á sögur hans og jafnvel reykja pípu.

Afi var minnugur með eindæmum og sagði mér sögur af lífi sínu sem barn og unglingur á Akranesi. Hann mundi 100 ára hvað hann fékk í laun sem 10 ára sendill hjá póstinum á Skaganum. Hann sagði mér frá því þegar hann flutti 16 ára til Akureyrar og þegar hann fór með skipi til Danmerkur í nám í mjólkurfræði. Þegar hann hitti ömmu fjörkálf á Bornholm þar sem hún ólst upp og þegar þau fóru að búa í Slagelse. Þau fluttu svo til Íslands en nutu þess að fara til Danmerkur í fríum og komu sér svo upp sælureit á Sjálandi í göngufæri frá ströndinni.

Eftir andlát ömmu 1990 hélt afi áfram að fara til Danmerkur hvert sumar og þar leið honum best. Þar ræktaði hann garðinn sinn vel og naut þess að sitja í sólinni á veröndinni. Við Fanndís dóttir mín fórum iðulega til hans á sumrin og þar áttum við yndislega tíma. Það voru alltaf opnar dyr hjá afa og stundum komu vinir með í ferðir okkar út. Oft settumst við afi út á verönd á kvöldin, horfðum á sólina setjast og dreyptum á rauðvíni. Þarna áttum við mörg ómetanleg samtöl og fórum jafnvel á trúnó. Í einu spjallinu spurði ég afa hvort hann hefði ekki getað hugsað sér að kynnast annarri konu eftir að amma lést. Nei, amma var konan mín, svaraði hann og ég felldi tár í laumi. Loksins eru þau amma aftur sameinuð rúmum 30 árum seinna.

Afi var fjölskyldumaður, traustur og trúr og leið best í faðmi fjölskyldunnar. Það var yndislegt að fara með barnabarnið mitt og barnabarnabarnabarn hans, Víking, til hans. Á þeim var 100 ára aldursmunur. Afi lifnaði við þegar ég kom með Víking, snerti smáa fingur og tær og ljómaði. Síðasta sumar vorum við öll, fimm ættliðir, með afa í sumarhúsinu í Danmörku. Víkingur hljóp nakinn í grasinu og afi hló og naut þess að hafa okkur öll hjá sér í sól og sumaryl.

Afi var alla tíð ótrúlega vel á sig kominn líkamlega enda synti hann daglega fram til 101 árs aldurs. Hann var eldklár og fylgdist vel með heimsmálunum, las mikið, tefldi, lærði spænsku þegar hann hætti að vinna, óf teppi, kynnti sér tölvutækni og vann við ættfræði á tölvunni sinni. Hann sagði mér einu sinni að honum fyndist tölvur svo frábær tækni og að ef hann hefði fæðst seinna hefði hann farið í tölvunarfræði.

Eftir andlát ömmu skellti hann sér á matreiðslunámskeið og fékk mikinn áhuga á eldamennsku og bakstri. Það var gott að koma til hans í Geitlandið og fá vöfflur, jólaköku og smákökur sem hann bakaði. Eftir að sjónin versnaði hlustaði hann á hverja hljóðbókina á fætur annarri og sagði mér frá sögunum sem hann hlustaði á og hvatti mig til að lesa þær bækur sem höfðu haft áhrif á hann í gegnum tíðina eins og t.d. Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson.

Í huga mér er endalaust þakklæti fyrir að hafa notið samvista við afa í 52 ár. Hann átti langt og gæfuríkt líf og var skýr fram að hinsta degi. Hann bjó í eigin húsnæði fram yfir 101 árs afmælið, kvartaði aldrei, var stoltur og virðulegur. Fyrir nokkrum vikum sagði hann við mig, þá kominn í þjónustuíbúð: Þetta er nú meira lífið, Kristín mín. Þá vissi ég að nú væri best að hann fengi að fara og nú er sú stund runnin upp. Hafðu mikla þökk fyrir yndislega samfylgd í gegnum öll þessi dýrmætu ár.

Kristín Ása Einarsdóttir