Hafnarfjörður: Brotist inn í pósthúsið Bögglar og bréf opnuð og rifin BROTIST var inn í pósthúsið í Hafnarfirði um helgina, pakkar og bréf rifin upp og dreift um húsið.

Hafnarfjörður: Brotist inn í pósthúsið Bögglar og bréf opnuð og rifin

BROTIST var inn í pósthúsið í Hafnarfirði um helgina, pakkar og bréf rifin upp og dreift um húsið. Að sögn Gunnars Einarssonar stöðvarstjóra Pósts og síma í Hafnarfirði er ekki ljóst hverju var stolið.

Innbrotið uppgötvaðist er starfsmenn pósthússins mættu til vinnu á mánudagsmorgun. Ekkert viðvörunarkerfi er í pósthúsinu og gæti innbrotið hafa átt sér stað frá því seinnipartinn á laugardag. Að sögn Gunnars Einarssonar stöðvarstjóra var aðkoman ljót. "Það hefur sennilega verið farið í gegnum glugga og þeir hafa farið í bögglana hjá okkur og rifið upp óskaplega mikið af bögglum og dreift þeim um öll gólf en við getum ekki fundið út hvað er horfið enda vitum við ekki hvað er í hverjum pakka," sagði hann. Gunnar sagði að þjófarnir virtist aðallega hafa leitað í pakka frá útlöndum. Engar skemmdir voru unnar á innanstokksmunum eða innréttingum en nokkrir gamlir, tómir peningakassar voru spenntir upp.

Rannsóknarlögregla ríkisins vinnur nú að málinu.