Kjarasamningar flugmanna: Tvö atriði brjóta í bága við bráðabirgðalögin ­ segir Indriði H.

Kjarasamningar flugmanna: Tvö atriði brjóta í bága við bráðabirgðalögin ­ segir Indriði H. Þorláksson formaður samninganefndar ríkisins

FULLTRÚAR launadeildar fjármálaráðuneytisins, flugmanna Landhelgisgæslunnar og Félags íslenskra atvinnuflugmanna funda í dag um ágreining, sem kominn er upp vegna kjarasamnings FÍA við Flugleiðir, en flugmenn Landhelgisgæslunnar hafa fengið laun greidd samkvæmt þeim samningi. Launadeildin telur tvö atriði í samningnum brjóta í bága við bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnarum efnahagsráðstafanir frá því í vor.

Indriði H. Þorláksson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði að þau atriði sem samræmdust ekki ákvæðum bráðabirgðalaganna væru annars vegar 25 þúsund króna eingreiðsla til flugmanna og hinsvegar veruleg hækkun á svonefndu "Jeppesens-gjaldi". Að hans mati væri um launauppbót að ræða. Hún hefði verið 5-7 þúsund, en samkvæmt samningnum hækkaði hún í 11-14 þúsund krónur. Deilt hefði verið á það að öryggismálum væri stefnt í hættu vegna þessarar launadeilu. Hin hliðin væri sú að öryggismál væru notuð til framdráttar mjög sérstæðum launakröfum.

Indriði benti á að samkvæmt greinargerð ríkislögmanns hefðu samningarnir í álverinu í Straumsvík gengið lengra en bráða bráðabirgðalögin heimiluðu. Engin viðurlög væru í lögunum og því væri erfitt að taka á brotum, en ríkið sem slíkt gæti ekki litið framhjá þeim lögum sem í gildi væru.

Bogi Agnarsson, flugmaður hjá Landhelgisgæslunni, sagði að deilan snerist um túlkun á kjarasamningi FÍA og Flugleiða. Þessi samningur hefði verið borinn undir Vinnuveitendasambandið og ekki talinn brjóta í bága við bráðabirgðalögin. Auk þess væru dagpeningar flugmanna gæslunnar skattlagðir en ekki flugmanna Flugleiða. Þessi deila hefði valdið því að yfirflugstjóri gæslunnar væri kominn í ársfrí og því aðeins tveir flugstjórar eftir. Það tæki tíma að þjálfa upp fleiri menn. Flugmenn Landhelgisgæslunnar mættu ekki fara í verkfall, en það væri deilt á þá fyrir að vinna samkvæmt kjarasamningum og taka lögboðin frí sín.