Stúdentar mótmæla í Suður-Kóreu: Stjórnvöld banna fund með stúdentum frá N-Kóreu Seoul, Reuter. STÚDENTAR í Suður-Kóreu héldu uppi mótmælum í fimm borgum landsins í gær.

Stúdentar mótmæla í Suður-Kóreu: Stjórnvöld banna fund með stúdentum frá N-Kóreu Seoul, Reuter.

STÚDENTAR í Suður-Kóreu héldu uppi mótmælum í fimm borgum landsins í gær. Var þetta annar dagurinn sem stúdentar mótmæltu banni við því að suður-kóreskir stúdentar hitti stúdentafrá Norður-Kóreu í landamærabænum Panmunjom um miðjan ágúst.

Yfir eitt þúsund lögreglumenn héldu aftur af sex hundruð stúdentum við háskólann í Seoul. Reyndu stúdentarnir ítrekað að yfirgefa háskólalóðina. Hrópuðu þeir slagorð gegn Bandaríkjamönnum sem þeir kenndu um skiptingu Kóreu-skagans. Einnig sögðu stúdentarnir að Roh Taewoo forseti hefði gripið til ólöglegra aðgerða til að koma í veg fyrir að suður-kóreskir stúdentar gætu hitt félaga sína frá NorðurKóreu í landamærabænum Panmunjom 15. ágúst næstkomandi.

Stúdentarnir köstuðu grjóti og bensínsprengjum að lögreglu sem svaraði með táragassprengjum. Á annan tug mótmælenda var handtekinn. Enginn slasaðist í átökunum.

Þrjú hundruð stúdentar söfnuðust saman í miðborg Seoul á sama tíma og félagar þeirra reyndu að yfirgefa háskólalóðina. Lögregla hélt þeim í skefjum með táragassprengjum. Einnig kom til mótmæla í Kwangju og þremur öðrum borgum landsins; Chonju, Suwon og Inchon. Stúdentar í Kwangju kröfðust þess að 40.000 manna herlið Bandaríkjamanna yrði á brott frá Suður-Kóreu þegar í stað.

Á sunnudag særðust 22 lögreglumenn í átökum við stúdenta. Yfir tvö hundruð stúdentar voru handteknir í átökunum á sunnudag. Mótmælin um helgina voru einnig vegna banns stjórnvalda viðað stúdentar ættu fund með norður-kóreskum stúdentum. Stjórnvöld hafa bannað þennan fund í Panmunjom á þeim forsendum að fundir fulltrúa þessara þjóða skuli vera að undirlagi stjórnvalda en ekki einstakra hagsmunahópa.

Sameining ríkjanna tveggja á Kóreu-skaga hefur verið eitt aðalbaráttumál róttækra stúdenta í mótmælum þeirra gegn stjórnvöldum að undanförnu. Stúdentar í Seoul hafa hótað að ef þeir fái ekki að fara til fundarins í Panmunjom 15. ágúst næstkomandi muni þeir grípa til hefndaraðgerða á Ólympíuleikunum sem hefjast í Seoul 17. september.

Reuter

Óeirðalögregla í Seoul átti fótum fjör að launa undanbensínsprengjum stúdenta, sem mótmæltu banni stjórnvalda gegn því að þeir ættu fund með norður-kóreskum stúdentum 15. ágúst næstkomandi.