Míkhaíl Gorbatsjov vill hraða framkvæmd perestrojku: Sjálfstæði einstaklingsins forsenda efnahagsumbóta Dregið úr samvinnubúskap og stjórnkerfisbreytingar tímasettar eftir HREFNU INGÓLFSDÓTTUR MÍKHAÍL Gorbatsjov, Sovétleiðtogi, hefur vakið alþjóðaathygli...

Míkhaíl Gorbatsjov vill hraða framkvæmd perestrojku: Sjálfstæði einstaklingsins forsenda efnahagsumbóta Dregið úr samvinnubúskap og stjórnkerfisbreytingar tímasettar eftir HREFNU INGÓLFSDÓTTUR

MÍKHAÍL Gorbatsjov, Sovétleiðtogi, hefur vakið alþjóðaathygli fyrir tillögur sínar til úrbóta í efnahags- og stjórnmálalífilands síns. Fyrr í sumar voru samþykktar á flokksráðstefnu kommúnistaflokksins mjög víðtækar ráðagerðir um að auka lýðræði og bæta efnahag landsins. En frá þeim tíma sem Gorbatsjov tók við sem leiðtogi Sovétmanna í mars 1985, hafa margar áætlanir hans verið þynntar út eða þær hafa strandað í svifaseinu sovésku skrifræði. Því lagði hann fram áætlun, á fundi sovésku miðstjórnarinnar nýlega, þar sem hann tímasetti þær helstu breytingar sem samþykktar voru á flokksráðstefnunni. Hann lagði áherslu á það á miðstjórnarfundinum að brýnt væri að hrinda þessum breytingum í framkvæmd.

ð áliti Gorbatsjovs er nú runninn upp tími athafna og framkvæmda sem löngu eru orðnar tímabærar. Áætlanir hans eru margþættar og stefnt er að umbótum á sem flestum sviðum. Hann áformar að afhenda bændum jarðir sem þeir myndu rækta sjálfir, í þeirri von að slíkt verði til þess að auka framleiðni og bæta úr fæðuskorti í Sovétríkjunum. Hann segir að lausn á fæðuog húsnæðisskorti þoli enga bið og að bæta verði læknisþjónustu. Einnig lagði Sovétleiðtoginn fram drög að því hvernig draga mætti úr spennu á milli ólíkra þjóðarbrota.

Miklar breytingar í landbúnaði

Gorbatsjov telur að með því að fá bændum og fjölskyldum þeirra jarðir sem þau geta ræktað sem sínar eigin og að umbuna þeim í samræmi við árangur, megi fá meiri uppskeru og bæta þannig úr fæðuskorti og þar með lífskjör fólks. Með þessari nýju stefnu er að hluta til horfið frá samyrkjubúskapnum sem Jósef Stalín þröngvaði upp á Sovétmenn fyrir 60 árum. Ástæða þessarar stefnubreytingar er að gamla kerfið hefur ekki reynst vel. Uppskeran er léleg og fjárfestingar hafa ekki borið arð.

Tillögur Sovétleiðtogans njóta stuðnings miðstjórnar kommúnistaflokksins. Þegar hann kynnti þær fyrir miðstjórnarmeðlimum lagði hann áherslu á að brýnt væri að koma þessum breytingum í framkvæmd. Hann dró upp mynd af framtíðarskipulagi í Sovétríkjunum þar sem væri gnægð matarog neysluvara, þar sem frumkvæði einstaklinganna fengi að njóta sín, skrifræðið væri horfið og flokksmaskínan væri ekki eins þung í vöfum.

Umbætur í landbúnaði eru lykilþáttur í umfangsmiklum tillögum Míkhaíls Gorbatsjovs sem snerta bæði stjórnmála- og efnahagslífið. Landbúnaður í Sovétríkjunum gengur yfirleitt ekki eftir áætlun en tilraunir með að leigja bændum land hafa gefið góða raun. Þar sem það var gert breyttist afstaða fólks til vinnu sinnar og það afkastaði meiru. Nú vill Gorbatsjov leigja bændum ríkisjarðir til langs tíma, t.d. í 20, 30 eða 50 ár. Hann virðist gera sér ljóst að bændur leggja ekki á sig að vinna við að bæta landið nema þeir fái að njóta afrakstursins. Hann segir að á þennan hátt ráði bóndinn raunverulega yfir landinu sínu. Hann öðlist sjálfstæði sem framleiðandi. Á leigujörð "geta menn nýtt skipulagshæfileika sína til fulls og ræktað landið á þann hátt sem þeim þykir best henta," sagði Gorbatsjov á fundi miðstjórnarinnar.

Í anda sósíalismans

Gorbatsjov tók skýrt fram að þessi stefna væri í samræmi við sósíalíska kenningu. "Við þurfum ekki að vera feimnir við að láta framleiðsluöflin í hendur bændanna sjálfra. Það er ekkert andsó síalískt við það," sagði hann. "Þetta er raunverulegur sósíalismi því þarna er manneskjan höfð í fyrirrúmi."

Sovétleiðtoginn leggur einnig til atlögu við skrifræðið, stofnanir og biðraðir sem eru nöturlegt merki um bágborið efnahagsástand. Gorbatsjov segir að það sé til skammar að ekki hafi verið gert neitt til að koma í veg fyrir þær. Kona nokkur sem vinnur í verksmiðju sagði við hann að hún þreyttist meira á því að bíða í tvo til þrjá tíma í biðröðum á hverjum degi, heldur en hún gerði í vinnunni.

Gorbatsjov leggur einnig til gaumgæfilega athugun á iðnaði, stjórnun, fjármögnun og endurskoðun. Þau fyrirtæki sem haldið er uppi með ríkisstyrkjum vill hann endurskipuleggja eða leigja samvinnuhópum starfsmanna eða jafnvel leggja þau niður.

Yfir hundrað þjóðarbrot eru í Sovétríkjunum og spenna þeirra á milli brýst út í ýmsum myndum. Míkhaíl Gorbatsjov kennir skeytingarleysi embættismanna um ýmis þau vandamál sem hafa sprottið upp í því sambandi. Á miðstjórnarfundinum í síðustu viku lagði hann fram tillögur um hvernig draga mætti úr ýfingum á milli þjóðarbrotanna. Í þeim má sjá stuðning við þá hugmynd að lýðveldin fimmtán fái meiri efnahagslega sjálfstjórn. Þeirri hugmynd hefur verið haldið á lofti af þjóðernissinnum í Eystrasaltslýðveldunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Gorbatsjov hvatti tilað innan sovétlýðveldanna yrðu viðkomandi tungumálum gert jafnhátt undir höfði og rússneskunni sem hingað til hefur verið aðalmálið. En hann sagði að of sterk þjóðerniskennd væri vatn á myllu andstæðinga umbótastefnunnar sem kennd er við perestrojku og sagði að "hópum spilltra manna" hefði á nokkrum stöðum tekist að "breyta eðlilegu þjóðarstolti í eyðileggjandi þjóðarrembing."

Framkvæmd tillagnanna hraðað

Miðstjórnin samþykkti þrjár ályktanir á fyrrnefndum fundi sínum. Ein þeirra fjallaði um endurskipulagningu á flokknum, önnur um kosningar og sú þriðja varðaði framkvæmd þeirrar stefnu sem var mörkuð á flokksráðstefn unni fyrr í sumar.

Tillögur Gorbatsjovs eru allar í formi pólitískra og efnahagslegra endurbóta sem hann hyggst framkvæma með ótrúlegum hraða. Minnugur fyrri tillagna sem ekki hafa verið framkvæmdar lagði hann fram áætlun fyrir mið stjórnarmeðlimina, þar sem helstu breytingar voru tímasettar. Opinberar umræður um umbótatillögur Gorbatsjovs, eiga að fara framí október. Í seinni hluta nóvember kemur Æðsta ráðið saman til að samþykkja breytingar á stjórnarskránni og nýja kosningalöggjöf. Nýtt þing, sem kemur í stað Æðsta ráðsins, verður kosið í mars en það á að koma saman í apríl. Á fyrsta fundi þess verður svo kosinn nýr og valdameiri forseti, Míkhaíl Gorbatsjov.

Heimildir: Daily Telegraph, International Herald Tribune, New York Times og Reuter.

Reuter

Míkhaíl Gorbatsjov á tali við bændur á samyrkjubúi í nágrenni Moskvu.

Reuter

Sovétleiðtoginn flytur setningarræðu sína á flokksráðstefnu kommúnistaflokksins nú í sumar.