Málfríður Sigurðardóttir ­ Minning Fædd 12. mars 1935 Dáin 2. ágúst 1988 Í dag, þriðjudaginn 9. ágúst, verður kvödd frá Borgarneskirkju Málfríður Sigurðardóttir, eða Fía eins og hún var ætíð kölluð meðal vina og ættingja. Hún andaðist á Landspítalanum 2. ágúst eftir stutta sjúkdómslegu og kom fregnin um veikindi hennar og síðar andlát sem reiðarslag. Aðeins fyrir ör fáum vikum komu þau hjónin við hjá mér á leið í ferðalag, hress og kát að vanda. En það sannaðist máltækið að enginn ræður sínum næturstað.

Fía var fædd í Borgarnesi 12. mars 1935, dóttir hjónanna Valgerðar Kristjánsdóttur og Sigurðar Kristjánssonar og þar ólst hún upp ásamt systkinum sínum í skjóli góðra foreldra. Hér í Borgarnesi varð starfsvettvangur hennar alla tíð. Ung giftist hún mætum manni, Gísla Bjarnasyni, og eignuðust þau fjögur börn, Gunnþórunni, Jón, El ías og Magnús en áður hafði Fía eignast soninn Sigurð Val Sveinsson.

Frá því að ég var lítil stelpa og allar götur síðan var Fía mér afar kær, enda auðvelt að láta sér þykja vænt um hana. Hún var stórbrotin kona er tók hlutunum með jafnaðargeði og var kletturinn í fjölskyldunni. Mikil vinátta var milli þeirra hjóna og móður minnar heitinnar og lýsir það Fíu vel er hún sendi börnum mínum afmælisgjafir eftirlát ömmu þeirra er á stóð "frá ömmu Fíu". Þannig var hjartalag hennar. Mikill kærleikur var innan fjölskyldunnar og er nú söknuðurinn sár.

Ég bið algóðan guð að styrkja þig, Gísli minn, og börnin ykkar, litlu barnabörnin, tengdabörn, aldraðan föður og aðra vandamenn. Fíu mína kveð ég með söknuði og bið henni guðs blessunar í nýjum heimkynnum.

Far þú í friði,

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með guði,

guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Lilla