Guðni Albert Jóhannesson fæddist í Reykjavík 27. nóvember 1951. Hann lést á Landakotsspítala 30. janúar 2023.

Guðni var sonur hjónanna Jóhannesar Guðnasonar eldavélasmiðs, f. 1921, d. 1990, og Aldísar Jónu Ásmundsdóttur húsmóður, f. 1922, d. 2008, en þau bjuggu á Hverfisgötu 58. Systkini hans eru Sigríður Svanhildur, f. 1943, Ásmundur, f. 1945, Auður, f. 1947, og Arnbjörn, f. 1958.

Guðni kvæntist hinn 17. ágúst 1974 Huldu Bryndísi Sverrisdóttur, f. 6.2. 1953. Foreldrar hennar voru Sverrir Hermannsson alþingismaður, ráðherra og bankastjóri, f. 1930, d. 2018, og Greta Lind Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 1931, d. 2009. Börn Guðna og Bryndísar eru: 1) Gunnhildur Margrét læknir, f. 1973, börn hennar og Arnars Hartmannssonar eru Kristín, f. 1998, og Ívar, f. 2002. 2) Sverrir Páll leikari, f. 1978, dætur hans eru Salka, f. 2004, og Sísí, f. 2006, með Emelie Uggla, og Blanka, f. 2012, með Josefin Ljungman.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1971 og lagði stund á grunnnám í verkfræði við Háskóla Íslands næstu tvö árin. Haustið 1973 hóf hann nám við Lunds Tekniska Högskola í Svíþjóð, lauk grunnnáminu þar, vann við skólann með námi og útskrifaðist síðan með doktorsnafnbót í byggingareðlisfræði vorið 1981.

Fjölskyldan fluttist til Íslands þá um sumarið og Guðni hóf störf við Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og vann síðar sem sjálfstætt starfandi verkfræðingur. Hann var um tíma formaður Alþýðubandalagsfélagsins í Reykjavík og var einnig meðal þeirra sem stofnuðu byggingafélagið Búseta.

Haustið 1990 tók Guðni við prófessorsstöðu við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi. Þar bjó fjölskyldan til ársins 2008, er Guðni tók við stöðu orkumálastjóra á Íslandi. Hann lét af störfum sjötugur, árið 2021.

Útför Guðna A. Jóhannessonar fer fram í Dómkirkjunni í dag, 16. febrúar 2023, klukkan 13.

Mig langar með þessum línum að minnast míns kærasta vinar, sem nú er allur. Við Guðni kynntumst í landsprófsdeild Gaggó Aust haustið 1966. Það var dulítið sérstakt, að móðir mín spurði mig, þegar ég kom heim úr skólanum eftir fyrsta daginn, hvort einhver Guðni væri með mér í bekk. Ekki kannaðist ég við það. Hann væri þar nú samt, hún vissi það frá vinkonu sinni á Hverfisgötunni. Hann hlyti þá að vera í hinum bekknum. Ég skyldi halda mig að honum, það væri svo gott hans fólk allt, hvort sem væri frá Vestfjörðum eða austan Fjalls. Við vissum þannig hvor af öðrum. En það var ekki fyrr en eftir smá misstig og valhopp að við lentum saman í 4. bekk í MR tveim árum síðar. Og urðum strax miklir mátar, ekki síst vegna þess að ég sótti samneytis þeirra sem mér voru skarpari. Þar var Guðni fremstur í flokki. En það var bara líka svo gaman að umgangast hann. Það sópaði að honum. Alltaf eitthvað spennandi að gerast í kringum hann og aldrei lognmolla. En svo sundraðist bekkurinn að ári. Munaði einum í stafrófinu og við vorum hvor í sínum bekk stærðfræðideildar. En vonbrigðin stóðu ekki lengi. Við vorum víst einir um það að vera í báðum hópum í frístundum. Þannig smíðuðum við tveir saman á verkstæði uppfindingamannsins, föður hans, framúrstefnuskúlptúrinn Píparalæti júðska kramarungans. Úr málmafgöngum Sóló, þeirra einu eldavéla sem virkuðu í veltingi til sjós. Það var framlag bekkja okkar til listahátíðar skólans.


Minnisverður er afdrifaríkur leiðangur okkar á vordögum 1970 með tveim bekkjarbræðrum mínum. Afar langt verkfall var í gangi, bílaumferð horfin af götunum og komið gos í Heklu. Slæmt að komast ekki í tæri við það. Faðir eins átti forláta Gaz-rússajeppa, hinn var ættaður af bæ í Hekluhlíðum. Þekkti svæðið sem smaladrengur. Á bænum Hlíð, þar sem dr. Helgi Pjeturss hafði áður jafnan viðdvöl, væri áfangi. Heima hjá mér efst í Hlíðahverfi var nýkomin hitaveita og hálffullur olíutankurinn dagaður uppi, neðanjarðar. Þá var það eðlisfræðingurinn, Guðni, sem sá ráðið, beitti þrýstilögmálum og töfraði eldsneytið upp á yfirborð með því að sjúga loft úr garðslöngubút. Við trúðum vart okkar eigin augum, er hann fyllti þannig bæði jeppann og varatanka. Rússinn gekk, sem von var, eins og saumamaskína á þessu. Við ókum sem leið lá og skoðuðum fossa líkast tröllkonum á harðahlaupum svo og nýrisin orkumannvirki við Þjórsá. Skyldi vatnsþrýstingur í uppistöðulóni geta komið eldgosi af stað? Þar tendraðist brennandi áhugi okkar beggja á framhaldsnámi og ævistörfum, sem stefndu þó í sitt hvora áttina.

Þrátt fyrir að ég héldi utan til náms í Sviss strax að afloknu stúdentsprófi áttum við Guðni sameiginleg ánægjuleg sumarstörf sem Pólverjar, í neðsta þrepi mælingaflokka hjá Orkustofnun. Eftir að Guðni var kominn til Lundar í framhaldsnám heimsóttum við hvor annan á nýjum slóðum. Samt gátu liðið ár að við hittumst. En hjá okkur Guðna stemmdi, eins og maður segir hér, die Chemie, eða efnafræðin: Það gilti einu hve langt hafði liðið á milli. Hvort það var sund, gufubað, gönguferð, matur eða kaffi, það var alltaf eins og við hefðum verið á sama róli seinast í gær. Þegar ég loks kom heim eftir fjölmörg ár voru flestir vinirnir mér horfnir og ekki tókst að knýta aftur að ráði forn fjölskyldubönd. Einmanaleikinn að vinnu lokinni varð yfirþyrmandi. Hjá Guðna og Bryndísi átti ég þá alltaf inni. Ég varð að passa mig að koma ekki nema annað hvert kvöld í kaffi svo ég yfirkeyrði ekki gestrisnina með þaulsetu, sem ég reyndar gerði. Ég vil þakka fyrir, að aldrei fann ég samt fyrir því. Það var fróun að fá að taka þátt í menningarlegu heimili og fylgjast með báðum bráðefnilegum börnunum vaxa úr grasi. Sverrir hændist að mér og Gunnhildur varð síðar okkar fyrsta barnapía. Það var ekki fyrr en nú í sumar - er ég barði að dyrum á Nesbala og ég heyrði út undan mér, að heimiliskötturinn væri mættur - sem mér varð ljóst, að hefði ég heyrt þetta réttnefni fyrr, þá hefði kannski margt farið á annan veg.

Það er ýmislegt í lífshlaupi Guðna, sem ég finn samsvörun í. Þannig numum við að vísu hvor sín fræðin, en bæði voru eilítið á undan samtíðinni og virtust ekki ætla að nýtast á Íslandi í bráð. Aðeins ári eftir að ég flæmdist endanlega úr landi var Guðni fluttur með sinni fjölskyldu alfarinn til Svíþjóðar. Það var snilldarbragð að veita honum embætti orkumálastjóra eftir nær tveggja áratuga farsælt starf sem prófessor við Konunglega háskólann í Stokkhólmi, með sérsvið umhverfisvæna og orkusparandi byggingatækni. Heimkominn, í áhrifamikilli stjórnunarstöðu, var Guðni í essinu sínu. Það bar eðlilega minna á viðleitni hans til eflingar orkusparnaðar en til stóð, enda ekki fréttaefni. Og svo átti uppbygging orkuöflunar og takmörkun gróðurhúsaáhrifa hug hans allan. Ég held að flestum sem til þekkja beri saman um að Guðni hafi gegnt starfi orkumálastjóra afar farsællega. Það var ánægjulegt að fá að kynnast honum einnig í starfi. Fljótlega eftir að hann var fluttur heim fékk hann mig til að starfa með sér í dómaranefnd sænska vísindasjóðsins, Formas, og taka síðan við. Hlutverk nefndarinnar var að meta og forgangsraða vel á annað hundrað rannsóknarumsóknum og útdeila styrkfénu til þeirra bestu. Sjóðsfé nægði að jafnaði aðeins til að styrkja 1/5 hluta umsækjenda við hverja úthlutun. Vanalega voru niðurstöður ótvíræðar í efstu sætin. En Guðna tók sárt að sjá framúrskarandi rannsóknarverkefni lenda rétt handan marka og var jafnan reiðubúinn til að berjast fyrir uppstokkun ef svo bar undir. Á honum var greinilega mikið mark tekið.

Í þeim erfiðu veikindum sem Guðni átti við að stríða síðustu ár var ég ekki einn um að undrast hvernig hann tókst á við það hlutskipti. Að slíkum hetjuskap hafði ég ekki orðið vitni áður. Mig langar að segja sögu til að sýna einstakan húmor Guðna og hvernig hann tókst á við sitt mein. Ef það mætti verða til uppörvunar þegar á móti blæs.

Þegar ég átti þátt, árið 2011, í stofnun félagsins Nordur, sem hafði að markmiði að hjálpa Íslendingum að komast út úr fjárhagskreppu með því að fullnýta íslenska umframorku til framleiðslu á grænu gasi og gera þannig Svisslendinga óháðari Rússum og fyrrverandi Sovétlýðveldum!; þá var Guðni strax reiðubúinn að greiða götu okkar. Upp úr því voru margir fundir haldnir og stundum þótti mér keyra um þverbak, þegar landar mínir hér voru farnir að sækja Guðna sárlasinn heim að mér fjarstöddum. Upp úr þessum þreifingum Nordur var m.a. sendinefnd íslenskra orkufyrirtækja, með Guðna í fararbroddi, boðið í kynningarferð til að skoða svissnesk vatnsorkuver og tilraunaframleiðslu á vetni og metani, í mars 2019. Guðni hafði fyrir fimm árum greinst fyrir tilviljun með krabbamein í nýra og það verið fjarlægt. Hann var strax ákveðinn að láta ekki slá sig út af laginu. Nú væri að virkja mótvarnarkerfi sálar og líkama og berjast hetjulega við óvininn. Þetta væri öðruvísi en áður fyrr. Hægt væri að örva öflugan herskara gagnvirkra frumna til baráttu og sigurs, með meðulum, sem nýlega hefðu leitt til Nóbelsverðlauna í læknavísindum. Þetta gekk bærilega í fyrstu og lengi vel svo undrum sætti. En nú hafði meinið dreift sér og hann átti að baki lungnauppskurð (2017). Var á sterkum meðulum. Það var þannig kúr, ef ég man rétt, að hann gat tekið meðulin í nokkra daga, en verkir komu í fætur á öðrum degi og stigmögnuðust þar til þeir urðu óþolandi. Líkastir göngu á brennandi kolum. Þá þurfti að hætta lyfjatökunni um stund. Þá minnkuðu verkirnir þannig að hann var orðinn sæmilegur þegar vika var liðin. En þá byrjaði kúrinn aftur. Síðan koll af kolli. Þetta var hreinn tortúr. Ég hafði ekki séð Guðna frá því sumarið áður. Hann var að vanda glaðbeittur, bar sig vel en var greinilega ekki samur. Ferðin hófst á ráðstefnu í Bern og síðan skoðun tveggja gasverksmiðja. Ég var með Guðna í allri ferðinni, og var reyndar skilyrði. Sat meðal annars í byrjun einkafund með orkumálastjóra Sviss og sérfræðingum um jarðhita í ráðuneytinu. Þeir þekktu Guðna og mátu hann greinilega mikils. Daginn eftir voru vatnsaflsvirkjanir í Ölpum Berner Oberland skoðaðar. Við vorum hálfan daginn neðanjarðar í hvelfingum og jarðgöngum. Þessu fylgdu talsverðar göngur, en greinilegt var að Guðni var sárþjáður, átti erfitt með að standa kyrr og hlusta á langar útlistingar. Var þá tekið til þess bragðs, að fenginn var maður til að bera stól fyrir Guðna á eftir okkur allan daginn. Eftir að hann var sestur í stólinn sagði hann eitthvað á þessa leið: In my life I have been chairman of many committees and even called chair of whole university institute in Sweeden. Never knowing what heck of a chair that was. But now I understand. I am the chairman! Nokkrum sinnum síðar um daginn tók hann þannig til máls, hvort chairman mætti koma með spurningu eða athugasemd, hvort ekki væri rétt að chairman fengi að velja og prófa vínið með matnum? Og vakti með því óskipta kátínu allra viðstaddra.

Einhvern tíma í ferðinni spurði ég hann hvort ekki væri nóg komið, trúði hann mér fyrir því að hann yrði að hafa eitthvað nógu hrífandi fyrir stafni, annars gæfist hann upp.

Þetta þróunarverkefni hefur samt tekið óratíma. Nú eftir innrás Rússa í Úkraínu og orkukreppu í kjölfarið eru fleiri komnir með svipaðar hugmyndir. Ef af verður eiga þeir Svisslendingar Guðna, sem þeir kölluðu aldrei annað en Energieminister, mikið að þakka.

Seinustu fimm árin voru einn óslitinn hildarleikur og ójöfn glíma. Það var á einhverjum tímapunkti sem baráttan við meinið sjálft var ekki lengur ein í brennidepli, heldur átökin við hinar miskunnarlausu kvalir lyfjameðferðarinnar. En þar hafði Guðni eigin ráð, sem mætti kalla Einbeiting með dreifingu hugans. Virkar mótsagnakennt, en er það ekki. Guðni gekk hreint til verks. Starfslok komu ekki til greina. Að setjast í helgan stein gekk þvert á aðferðina. Að sitja auðum höndum og horfa sorgmæddur í gaupnir sér væri dauðadómur við hans aðstæður. Nú orkaði hann meir en nokkru sinni fyrr. Jafnt í starfi sem frístundum. Margir undruðust seigluna og mig tók langan tíma að átta mig. Lífið var orðið eins og hver önnur verkfræðivinna að úrlausn verkefnis. Það var ófært án dyggs stuðnings elskulegrar eiginkonu og félaga. Bryndís byrjaði að leyfa, hikandi í fyrstu, það sem virtist neikvætt eða jafnvel fjarstæða. En Guðni fékk brátt að leika lausum hala, uns hún var jafnvel farin að ýta undir alls konar uppátektir.

Ég þurfti að sækja í mig mikinn kjark til að bjóða hrumum chairman í 50 ára afmælisferð MB G-klúbbsins á Þingvöll og um Uxahryggi hinn 10. ágúst 2019. Hafði þó ekki hugmynd um, hvernig hann hafði trakterað eigendur þess háttar dísilvirkjana á hálendinu, sem ekki væru háðar umhverfismati í blaðaviðtölum og áramótapistlum skömmu áður. En Guðni var snöggur að ákveða sig og mætti óhræddur með sitt úkúlele. Við kúpluðum okkur í hálfleik út úr G-convójinu, böðuðum í Krosslaug og fórum í bústaðinn við Skorradalsvatn. Þar æfðum við Geothermy everywhere, söngtexta sem hann hafði samið við lag Tommy Steel Water, water everywhere (platan fæst í Vesturver), og hann flutti svo við opinbera athöfn í Peking síðar á árinu. Svo kom Covid. Munaði víst minnstu að sendinefndin kæmi með það heim í farteskinu. En svo var sem betur fer ekki. Um leið og veiran hafði borist til Ítalíu sendi ég Guðna hlekk á varnarorð svissnesks sérfræðings um þessa vá. Guðni áttaði sig strax, tókst allur á loft, enda búinn að kynna sér vel ónæmiskerfi líkamans. Nú áttum við í stöðugu sambandi og ræddum fram og til baka það sem fæstir myndu núna nenna að hlusta á. Stundum læddist að mér sá grunur, að honum væri léttir í að vera ekki lengur einn um að vera með lífið í lúkunum. En auðvitað var hann ávallt í hæsta áhættuflokki.

Næstu þrjú sumur fórum við Guðni saman í eftirminnilega veiðitúra í Affallið og Eystri-Rangá. Hann var hrjáðastur í fyrsta túrnum, en svo var eins og hann næði sér aftur á strik. Þannig áræddi ég að bjóða honum slagtog á Vestfirði og í Folafót í september 2021. Guðni tók dræmt í það í fyrstu. Hafði reynt að komast þangað í tvígang, en ekki komist á leiðarenda vegna ófærðar og vegleysu. En þegar hann heyrði, að ég hafði gert ráðstafanir til að fara sjóleiðina, var hann áfjáður. Úr því varð eitt allra skemmtilegasta ferðalag sem ég hef farið í. Þegar við höfðum komið farangrinum fyrir í jeppanum setti Guðni allan sársauka beint í skottið og þar hlaut hann að dúsa alla ferðina. Við ókum um söguslóðir Borgarfjarðar, í Dali vestur, tókum krókinn fyrir Klofning, skoðuðum byggingarframkvæmdir í Ólafsdal við Gilsfjörð, upp Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði og síðan sem leið lá út Djúp til Ísafjarðar. Guðni lét dæluna ganga alla leiðina með fróðleik og skemmtisögum. Einhverju gat ég bætt við, en ef varð lengra hlé þurfti ei meir en eitt stikkorð, sem gat þá allt eins verið svarað með stöku eða heilum ljóðabálki. Stálminnið var hreint ótrúlegt. Við gistum í smekklegu sumarhúsi móðurafa og -ömmu Bryndísar á Grund í botni Skutulsfjarðar. Vegna hvassviðris og með hliðsjón af veðurspám ákváðum að nota besta daginn til að fara út í Fót og skoðuðum því fyrst æskuslóðir föður Guðna í Botni í Súgandafirði og sóttum vini og vandamenn heim.

Svo var kominn þessi fíni haustmorgunn og við lögðum í hann á vélbáti byggingameistarans frá Súðavík. Skoðuðum silungskvíaeldi í Álftafirði og sigldum síðan fyrir Kambsnes út í Fót. Tjaldurinn var að vísu farinn, en það stóð heima, sendlingurinn var í fjörunni. Rétt fyrir neðan túnfótinn þar sem, ef svo má segja, Sverrir sonur Guðna hóf sinn leiklistarferil, barnungur Ljósvíkingurinn. Guðni var léttur á fæti með tvo göngustafi, svo við máttum hafa okkur alla við að halda í við hann í djúpu þýfinu og síðan upp hundrað metra háa brekkuna að bæjarstæði Vébjarnarstaða. Hér snæddum við nesti og gengum í rólegheitum hærra á Fótinn alveg upp að væntanlegu vatnsbóli og nutum útsýnisins yfir Djúpið, Snæfjallaströndina með Möggufoss, Vigur og Jökulinn, þar sem fegurð himinsins býr. Úti fyrir Tjaldartanga í átt að Vigur sáum við hvernig alda braut á annars ósýnilegu rifi á auðum sjó. Var sem ækju þar um langar eimreiðar hver á eftir annarri. En mikilsverðast var að upplifa með Guðna Kraftbirtingarhljóminn sjálfan. Þegar við vorum svo komnir niður að vörinni var báturinn, sem við höfðum rígbundið á milli tveggja stórra steina, kominn alveg á þurrt. Nú þurfti að fleyta honum, en sem verra var, undiraldan frá storminum dagana áður var orðin sýnileg rétt utan fjöru. Kominn á flot gekk illa að koma bátnum út. Brimið barði stefnið og aldan skók bátnum til beggja hliða svo hætt var við að hann lemdist við stórgrýti. Okkar verk var að koma í veg fyrir það, ég með árinni á stjórnborða en Guðni með göngustaf sinn á bakborða. Sjórinn gekk yfir bátinn hvað eftir annað og í stórum polli á botni hans hrærðust bakpokinn og anórakkurinn, sem ég hafði farið úr í hita leiksins. Við vorum báðir holdvotir og mér varð hugsað til þeirra Fótunga, sem höfðu drukknað einmitt í sömu lendingunni fyrir um 100 árum. Heimilisfaðirinn og fyrirvinnan með allri áhöfn að fólkinu sínu ásjáandi. Kom til hugar að hætta við, taka símann, sem ég hafði sett í nærbuxurnar, og kalla á aðstoð. En skipstjórinn, bátseigandinn, var öllu vanur. Aftan við skut á strigaskónum með sjóinn í brjóst, ýtti hann af öllum kröftum. Og loks kom lag. Utanborðsmótorinn niður og stjórinn hentist um borð. Við heyrðum skrúfuna nokkrum sinnum hvína í lausu lofti - það var annars konar kraftbirtingarhljómur - en svo vorum við komnir út. Rennblautir tókum við stefnuna á Vigur. Þar var góð lending og flotbryggja. Mér var fyrirætlað að stökkva með landfestar frá stefni yfir á bryggjuna. Ekki tókst betur til en að stór alda kom á bátinn í þann mund sem fótum sleppti svo krafturinn var meiri en ætlað. Ég kútveltist á bryggjunni og var nærri dottinn í sjóinn hinum megin. En ríghélt í kaðalinn. Í Vigur var enginn heima svo við stóðum stutt við. Við börðum bátinn Breið augum og skoðuðum elstu vindmyllu landsins. Síðan var silgt til Súðavíkur. Við vorum orðnir heldur kaldir. Ég hafði áhyggjur af Guðna og bar mig til við að biðjast forláts að hafa tælt hann í sjóferð þá. En það var síður en svo. Aldrei í öllum veikindunum hefði hann gleymt sér eins rækilega og í dag! Eftir að hafa boðið skipstjórahjónum í kvöldmat að Grund ókum við kaldir og gegndrepa í skyndi þangað. Fórum í heita sturtu með brennivínsstaup til að ná úr okkur hrollinum. Síðan smurðum við snittur að dönskum hætti, en með reyktum rauðmaga, sem okkur hafði áskotnast í Bolungarvík daginn áður. Með þessu reiddum við fram brennivín, blávatn og vestfirskan Skarfabjór frá brugghúsinu Dokkunni. Þá var glatt á hjalla er við tókum lagið með gítarspili og úkúlele og engum varð meint af volkinu. Við hvíldumst einn dag og ókum í bæinn með viðkomu í Dölum vestur, hvar við þáðum veitingar hjá þeim hjónakornum Ása bróður Guðna í Miklagarði í Saurbæ og Guðni sýndi mér æskuslóðirnar þar í grennd frá því hann var barn og unglingur í sveit.

Það var eins og vinátta okkar Guðna hefði styrkst með hverju árinu sem leið. Ekki síst eftir að hann veiktist. Nú síðast hafði ég fylgst með hrakföllunum úr fjarlægð og öllum var augljóst að hverju stefndi. Guðni hringdi til að kveðja mig rúmum tveim vikum áður en hann andaðist. Á því lék enginn vafi. Viku síðar sendi hann mér mynd, kominn á Landakot. Það var nokkurs konar uppstilling, Stilleben, með ótvírætt listrænt gildi. Guðni með bundið um höfuðið og kræsilegan þorramatinn á bakka í sjúkrarúminu og skálar kankvíslega til ljósmyndarans með Álaborgar-ákavíti. Það þætti víst vart viðeigandi að láta myndina fylgja með hérna, þótt Guðni hefði vafalaust haft gaman af. Þegar ég sagði Guðna, að hún minnti mig á málverk Carls Spitzweg af fátæka skáldinu (Der arme Poet, 1839), samsinnti hann. Það var jafn bágt fyrir báðum komið. En í raun stóðst samanburðurinn alls ekki. Eftir þetta síðasta samtal var ég þó sannfærður um að Guðni næði sér aftur á strik. Ég var farinn að bollaleggja hvernig hann gæti byggt upp styrk, komist á Reykjalund eða í Hveragerði, og hvað við gætum næst tekið okkur fyrir hendur. Úr því verður ekki, en víst er að Guðni kvaddi sáttur þennan heim. Hann átti að baki góð uppvaxtarár með samstilltum foreldrum og systkinum, árangursríkt nám og glæstan feril með stórum hópi ágætasta samstarfsfólks og vina. En umfram allt átti hann farsælt hjónaband með Bryndísi, ástkærri eiginkonu og félaga, sem skóp með honum afbragðsheimili og fjölskyldu, væn börn og barnabörn. Um leið og ég minnist ánægjulegra samvista votta ég ykkur öllum innilega samúð mína og fjölskyldu minnar og þakka fyrir að hafa fengið að vera svona lengi samferða Guðna.

Dr. Björn Oddsson, Rapperswil-Jona, í febrúar 2023.