Jón Víðir Einarsson fæddist á Hvanná þann 8. nóvember 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 15. apríl 2023.

Foreldrar Jóns voru Einar Jónsson, f. 16.10. 1901, d. 13.11. 1971, og Kristjana Guðmundsdóttir, f. 20.6. 1901, d. 23.6. 1985. Systkini Jóns voru Gunnþórunn Hvönn, f. 1.4. 1934, Skúli Reynir, f. 11.4. 1937, og Guðríður Björk, f. 30.5. 1942. Á Hvanná bjó einnig bróðir Einars, Benedikt Jónsson, f. 26.1. 1903, d. 18.6. 1951, ásamt konu sinni, Guðmundu Lilju Magnúsdóttur, f. 16.3. 1916, d. 7.6. 1995, og fimm börnum, uppeldissystkinum Jóns. Þau voru Bragi, f. 11.8. 1936, d. 24.3. 2009, Elín Sigríður, f. 20.10. 1938, d. 18.2.1972, Arnór, f. 26.7. 1944, Ármann, f. 8.1. 1947, og Gunnþórunn, f. 23.4.1950.

Eftirlifandi eiginkona Jóns er Guðbjörg Guðmundsdóttir Kolka, f. 18.8. 1940. Foreldrar hennar voru Guðmundur Pálsson Kolka, f. 21.10. 1917, d. 23.3. 1957, og Ingibjörg Jónsdóttir Kolka, f. 3.6. 1916, d. 14.11. 2005. Jón og Guðbjörg bjuggu á Hvanná alla tíð, utan síðustu árin sem þau eyddu að hluta til á Egilsstöðum. Börn þeirra eru: 1) Ingibjörg, f. 29.10. 1974. Börn hennar eru Sara Alexdóttir Nielsen, f. 6.9. 1999, og Jonatan Lasseson Krog, f. 11.2. 2011. 2) Jón, f. 9.9. 1976. Kona hans er Eva Dís Pálmadóttir, f. 30.11. 1978. Börn þeirra eru Ásdís Hvönn, f. 23.9. 2002, Katrín Edda, f. 7.7. 2005, og Jón Pálmi, f. 23.5. 2009. 3) Ragnhildur Ingunn, f. 23.4. 1982. Eiginmaður hennar er Þorvaldur Már Guðmundsson, f. 16.11. 1977. Börn þeirra eru Aníta Fönn, f. 4.7. 2001, Guðbjörg Júlíana, f. 27.4. 2012, og Guðmundur Víðir, f. 27.4. 2012.

Jón ólst upp á Hvanná og gekk í Alþýðuskólann á Eiðum þar sem hann tók landspróf árið 1953. Hann lauk búfræðiprófi frá Mo Jordbruksskule í Førde í Noregi árið 1957 og hóf í kjölfarið búskap á Hvanná þar sem hann rak sauðfjárbú til ársins 2020. Jón starfaði við ýmislegt meðfram búskapnum, þ.á m. lengi við vegagerð með útgerð vörubíls. Hann sinnti ýmsum félags- og trúnaðarstörfum og var um tíma í hreppsnefnd Jökuldalshrepps og sýslunefnd Norður-Múlasýslu. Hann var hreppstjóri Jökuldalshrepps um árabil og markavörður Norður-Múlasýslu í um 40 ár.

Útför Jóns fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 24. apríl 2023, klukkan 14.

Streymi:

mbl.is/go/psh2h

Á stundu sem þessari streyma fram minningar um mann sem hefur verið hluti af lífi okkar systkinanna alla tíð. Nonni frændi var bóndi og þrátt fyrir að hann hafi látið af búskap áttatíu og fimm ára var hugur hans ávallt á Hvanná. Við kölluðum Jón Víði aldrei annað en Nonna og var hann vinur okkar allra. Þó svo að við vitum að Nonni hafi verið feginn að fá hvíld þá breytir það því ekki að við söknum hans. Þegar við þekkjum ekki lífið án einhvers þá kemur alltaf tóm en það er líka gaman að koma saman, rifja upp skemmtilegar minningar og finna fyrir hlýju og kærleika. Það var ekki hátt skrifað hjá honum fólk sem ekki gat bullað og það var gaman að bulla með Nonna. Skrafa um menn og málefni og hlæja endalaust. Einhverju sinni kom hausthret og Bensi í Merki var spurður að því hvort Hvannármenn hefðu ekki farið út að leita að fénu en hann svaraði nei þeir sátu bara inni í eldhúsi og bulluðu sem var ekkert verra því þeir hefðu hvort sem er ekki fundið neinar kindur í hretinu.

Bojar eins og Nonni kallaði bræðurna fóru snemma í sveit á Hvanná og þeim leið vel þar. Þeir geta endalaust rifjað upp og sagt sögur af lífinu þar. Ekki er allt prenthæft sem rifjað var upp enda óþarft að segja frá öllu.

Seiglan var Nonna í blóð borin. Hann gat verið mjög harður við sig og unnið endalaust án þess að fá sér matarbita. Bræður sögðu að þeir hefðu oft verið orðnir glorhungraðir þegar hann loks kom sér heim í mat. Ef þeir voru einir með honum uppi á Hvanná var maturinn oft einhæfur og þurftu þeir að sögn að vera ansi gírugir ef þeir ætluðu að ná af honum nokkrum eggjum sem hann linsauð í stórum potti og var fljótur að gleypa í sig. Þröstur sagði að hann hefði verið einn með Nonna upp frá ein jólin og þá hefði hann soðið saltkjöt í stórum potti og fannst Þresti ekkert sérstaklega mikið til jólamáltíðar frænda síns koma. Matseldin var aðeins önnur hjá frænda okkar en Guðbjörgu konu hans þar sem allt verður að veislu í hennar höndum. Stundum þegar strákarnir voru búnir að vera lengi einir með Nonna upp frá og matseldin búin að vera einhæf þá nauðuðu þeir í honum að skreppa á bæi, annaðhvort inn eftir eða út í Hauksstaði. Nonni vissi hvað klukkan sló og skrapp á smá flandur til að gleðja strákana.

Við minnumst þess hvað við höfðum gaman af því þegar von var á Nonna til Egilsstaða og fylgdumst með ljósunum í Heiðarendanum. Bræðurnir þóttust geta reiknað út hvort þeir sæju Landroverljós eða rússajeppaljós. Svo tóku þeir tímann hvað það tók langan tíma að keyra frá Heiðarendanum til Egilsstaða. Þröstur hlakkaði alltaf mest til þess í gamla daga þegar það voru skólafrí því þá vissi hann að Nonni kæmi að sækja hann. Mamma var reyndar misánægð með það því skólinn var ekki alltaf búinn. Ef Nonni var seint á ferð þá fór hann alltaf inn til boja, vakti þá til að heilsa aðeins upp á þá áður en hann hélt upp eftir. Við hlökkuðum alltaf til heimsókna Nonna og stundum fengu strákarnir að fara með honum á vörubílnum að sækja áburð á Reyðarfjörð ef ekki var farið upp í Hvanná. Í áburðarferðum var alltaf keypt súkkulaði en stundum var lítið eftir af því þegar á leiðarenda var komið. Í heimsóknum í Hvanná gripum við yfirleitt alltaf með okkur súkkulaði handa Nonna, alla vega gerði stelpan það. Hann átti það líka til að ná fýlu úr vinnumönnum sínum með súkkulaði en var ekki glaður ef þeir rifu það allt í sig og ekkert var eftir handa honum.

Frjálsræðið var algjört í sveitinni og endalaust traust og trú á að krakkarnir gætu sinnt því sem þeim var falið. Þetta hefur fylgt þeim í gegnum lífið. Hann var snjall við að láta vinna fyrir sig og líka að finna út hvað þeim fannst skemmtilegt að gera og þá gengu verkin líka betur. Hann treysti strákunum alltaf og var nokkuð lunkinn við krakka. Þröstur þekkti aldrei rollur í sundur og fannst þær bara vera svartar eða hvítar og honum fannst leiðinlegt að smala. Nonni fáraðist ekkert yfir því heldur fékk honum annað verkefni í staðinn sem hentaði unglingnum betur; að moka skít undan fjárhúsgrindunum og til verksins fékk hann traktor og grænan Bens-vörubíl þar sem alsæll unglingurinn baksaði allan daginn. Nokkrum árum síðar sýndi Nonni unglingnum enn frekar það traust þegar þeir keyptu saman jarðýtu sem unglingurinn vann á og rak.

Börkur man eftir því að hafa aðstoðað við mælingar á skurðum til að ræsa fram og vinna tún. Hann var á bláa Bedford-vörubílnum sem hann mátti nota til að skottast á milli bæjar og túns. Eitt sinn sá hann vegalögguna framundan, stoppaði, faldi sig í skurði og slapp. Nonni fáraðist heldur ekki yfir þessu því honum líkaði hvað bræður voru duglegir og efst á blaði dyggða hjá honum var dugnaður og næsta dyggð var sennilega að geta bullað. Hann hótaði oft að rífa strákana upp á nóttunni á sauðburði til að fara í fjárhúsin en gerði það aldrei, strákunum til mikils léttis.

Strákarnir fóru oft með Nonna í póstferðir og höfðu gaman af. Oft var komið við á bæjum og skrafað. Þröstur man eftir einni ferð þegar hann var strákur að stoppað var á bæ einum og Nonni spurður að því hvað þeir hefðu verið að gera á traktor uppi í fjalli. Þröstur seig niður í sætinu því hann og Hauksstaðastrákar höfðu verið að stelast á traktornum. Nonni minntist aldrei á þetta eða spurði hvort hann vissi eitthvað um þetta. Eftir þessa ferð harðneitaði Þröstur að fara með honum í póstferðir ef hann kæmi aftur við á þessum bæ. Nonni virti ósk frænda síns

Nonni var oft í vegagerð hér í eina tíð og þegar hann kom heim á kvöldin var bílnum ekið upp að skrúfuhúsi, skilinn þar eftir með pallinn upp og bojar ruku út og smurðu pallinn. Ef það þurfti hins vegar að skipta um olíu á mótornum var bílnum ekið fram á bakka ofan við Jöklu. Þegar Nonni fór að morgni í vegagerðina þá lét hann strákunum eftir verkefnalista yfir daginn. Listinn var yfirleitt það langur að hann hefði dugað fyrir vikuna en svo saxaðist bara á hann smátt og smátt.

Nonni var góður félagi og missti sig aldrei í skömmum. Það var líka erfitt að rífast við hann því hann hafði yfirleitt betur enda þurfti sjaldan að standa í þrefi við hann því hann var geðgóður. Einstaka sinnum kom þó upp smá geðvonska og þá bannaði hann þeim að reka úr túnunum á traktor, þeir áttu að ganga, en þetta varði mjög stutt og þeir voru jafnharðan komnir upp í traktorana.

Það var alltaf létt yfir Nonna þegar hann kom í kaupstað. Hann fór yfirleitt aldrei úr úlpunni þegar hann tyllti sér við eldhúsborðið á Lagarásnum og fékk kaffi með rjóma í þunnum bolla. Gjarnan úr japneska stellinu. Hann tók stundum af sér húfuna eða það höfuðfat sem hann bar í það skiptið, það gat verið hattur, húfa eða sixpensari. Hann átti það til að stríða eldri systur sinni og líta í pottana að athuga hvað væri í matinn og spurði jafnvel hvort þar væri að finna húsmæðraskólagraut. Þau gátu verið spaugileg saman systkinin. Væntumþykjan var greinileg en Nonni gat espað hana upp með stríðni og mamma skammaði hann. Ömmu Jönu líkaði ekki þegar mamma fór í skömmustugírinn og sagði æ, æ, láttu nú ekki svona við hann Nonna.

Þó stelpan hafi varla nokkuð verið í sveit á Hvanná fannst henni líka gaman að fara þangað og taugar okkar allra sterkar til sveitarinnar. Þegar hún heimsótti ömmu Jönu í sveitina vildi Nonni líka siga henni í verk en hún sagðist vera í heimsókn hjá ömmu en ekki í sveit hjá honum. Honum þótti stelpan fullhortug en náði að lempa hana til að reka úr túnum. Okkur leið alltaf vel upp frá og þegar við skruppum þangað var alltaf eins og tíminn stæði í stað. Eiginlega var ekki hægt að skreppa þangað í stuttar ferðir því allir gleymdu sér við spjall og alltaf komin nótt þegar heim var haldið. Sömu elsku og gestrisni í garð okkar höfum við systkinin alla tíð fundið frá Nonna og Guðbjörgu, jafnt á Hvanná og í bæ þeirra á Egilsstöðum. Tíminn stendur í stað og það er setið, drukkið kaffi með rjóma og skrafað. Við kveðjum frænda okkar með virðingu og hlýju.

Þröstur, Börkur og Sif.