Svandís Hannesdóttir fæddist 3. desember 1928 í Reykjavík. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 22. apríl 2023.

Svandís var dóttir Halldóru Magnúsdóttur, f. 9.10. 1898, d. 20.7. 1976, og Hannesar Jónssonar, f. 24.2. 1900, d. 6.7. 1966. Þau voru bændur á Staðarhóli í Aðaldal og voru með afgreiðslu Pósts og síma ásamt bensínafgreiðslu.

Svandís ólst upp á Staðarhóli ásamt þremur systrum sínum og fósturbróður. Þau eru Hólmfríður Jóna, f. 17.11. 1930, Sigríður Ingibjörg, f. 1.9. 1934, d. 22.4. 1991, María Gerður, f. 12.9. 1937, og Ólafur Karlsson, f. 29.10. 1942.

Svandís vann á unglingsárum á Hótel Reynihlíð á sumrin, við skógrækt á Hallormsstað, Vöglum í Fnjóskadal, Tumastöðum í Fljótshlíð og tvö sumur í nágrenni Bergen í Noregi. Veturinn þar á milli var hún hjá fjölskyldu í Þrándheimi og skiptust hún og bóndinn á jólabréfum meðan báðum entist aldur.

Einn vetur vann Svandís á saumastofunni Fífu á Húsavík hjá Höskuldi mági sínum og um skeið vann hún við afgreiðslu í skóbúð Líndals í Hafnarstræti á Akureyri. Í eldhúsinu á Kristneshæli starfaði hún í níu ár og eftir það gerðist hún matráðskona við Hrafnagilsskóla í tíu ár. Flutti hún þá til Akureyrar og gerðist saumakona á mokkadeild Sambandsverksmiðjanna. Starfsævinni lauk hún sem ráðskona hjá Rafveitu Akureyrar.

Svandís var mjög virk í Ferðafélagi Akureyrar og fór óteljandi ferðir með félaginu um hálendi Íslands. Einnig var hún dugleg að ferðast erlendis.

Svandís bjó síðustu fimm ár ævi sinnar á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og eru starfsmönnum færðar þakkir fyrir umönnun og umhyggju sína.

Útför hennar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 5. maí 2023, og hefst klukkan 13.

Þó svo að það hafi verið ljóst nokkuð lengi hvert stefndi með hana Svandísi okkar, móðursystur Hönnu Dóru, þá var það áfall fyrir okkur fjölskylduna í Goðabyggð 5 þegar stundin rann upp og hún lagði leið sína inn í sumarlandið.
Allar götur frá því að við komum til Akureyrar 1987 var Svandís stór þátttakandi í okkar fjölskyldulífi. Hún reddaði okkur íbúð á mettíma og hjálpaði okkur mikið við að koma undir okkur fótunum á Akureyri. Ef okkur vanhagaði um eitthvað eða erfiðleikar steðjuðu að var Svandís samstundis mætt til að bjóða fram aðstoð.
Eftir að börnin komu, eitt af öðru, naut hún þess að fá að passa og dunda með þeim. Það var ótrúlega gaman hjá Svandísi frænku og heimsóttum við systkinin úr Goðabyggð 5 hana mjög oft. Svandís kenndi okkur svo margt, allt frá því að setja lak á rúm, brjóta saman þvott, spila Olsen olsen, mála á steina og handklæði, sauma, perla og prjóna. Bjartsýni og jákvæðni einkenndi hana Svandísi alla tíð og svo hafði hún líka ómælda þolinmæði gagnvart okkur. Það var sama upp á hverju við stungum, hún gaf sér alltaf tíma til að hlusta og dró síðan eitthvað skemmtilegt upp úr hattinum fyrir okkur að dunda við. Svandís tók okkur með sér í alls konar ævintýri sem stundum fólust í því að heimsækja vinkonur hennar, fara í matvörubúðina og þá var oft smakkað eitt, tvö vínber, kaupa bensín á bílinn eða bara lottómiða.
Ef hún mögulega gat mætti hún á alla viðburði sem við systkinin tókum þátt í eins og árshátíðarleikrit í grunnskólanum og ótal dans- og leiksýningar.
Hjá Svandísi frænku var alltaf eitthvað gott að borða. Hún töfraði ýmist fram stórsteikur eða himneskt heimabakkelsi á mettíma, stundum var líka bara stokkið út í búð og keypt eitthvað sem okkur börnin langaði mikið í. Nei var ekki til í orðaforðanum þá.
Einn af góðum eiginleikum Svandísar var hversu bóngóð hún var, alltaf tilbúin að skutla og sækja þegar á þurfti að halda og ekki bara okkur heldur öllum vinkonunum sínum líka. Hún var fyrsta konan í Aðaldal til að taka bílpróf og naut þess alla tíð að sitja undir stýri.
Svandís var mjög sjálfstæð og úrræðagóð. Það rifjast upp fyrir okkur ýmsar uppákomur þar sem hún var að dytta að heimili sínu. Eitt skiptið þegar við fjölskyldan komum við hjá henni var hún búin að jarðvegsskipta lóðinni og ýtti þjöppunni á undan sér. Þá var bara eftir að helluleggja og klippa runnana sem var nú ekki mikið mál.
Það var ekki einungis um stórhátíðir eða afmæli að okkur var boðið í mat til Svandísar því oft þegar við komum heim úr löngum ferðalögum beið hún með góðan mat handa okkur sem var yndisleg tilfinning. Þær eru óteljandi góðu minningar sem við eigum frá þessum stundum því hún tók alltaf svo vel á móti okkur.
Svandís kom ósjaldan við hjá okkur seinni part dags í kaffispjall þegar flestir voru komnir heim úr vinnu og skóla. Ef spjallið dróst á langinn varð Svandís þó heldur óróleg því á slaginu 17.00 byrjaði þátturinn Leiðarljós á RÚV en eftir þáttinn hringdust hún og Mæja systir á og fóru yfir það helsta úr þættinum og oft var hægt að hneykslast á vitleysunni.
Svandís var vel útbúin saumavélum sem nýttar voru óspart bæði til hefðbundins saumaskapar og að sauma úr skinni eins og hún vann við á verksmiðjunum. Hún var handlagin og hafði góðan smekk sem sýndi sig vel í öllum þeim dressum sem hún saumaði. Ógleymanlegir eru upphlutirnir sem hún saumaði á allar stelpurnar en þetta voru búningar sem vöktu mikla athygli hvert sem farið var fyrir fínleika og smekklegheit. Ófáar lúffur og skinnskó færði hún okkur sem yljuðu tásum og fingrum á köldum vetrardögum. Svandísi var margt til lista lagt, það sást vel þegar hún útbjó dúkkuhús á tveimur hæðum úr pappa, klæddi og hannaði innréttingar úr hinum ýmsu efnum. Hugmyndaflugið vantaði alls ekki.
Árið 2012 fórum við fjölskyldan til Mallorca og komu þær systurnar Svandís og Mæja með okkur í ferðina. Þessi ferð var mjög eftirminnileg og við skemmtum okkur alveg konunglega. Svandís var orðin léleg til gangs og því keyrðum við hana í hjólastól í lengri göngutúrum en henni fannst mun sjálfsagðara að keyra sjálf yngra fólkið um á stólnum heldur en að sitja í honum. Þær systur kunnu vel að meta þessa Mallorcaferð og mikið var hlegið þegar krakkarnir voru að rugla í þeim. Þetta var nýtt fyrir þær systur og þær nutu þess í botn að þurfa ekki að huga að eldamennsku eða uppvaski þar sem við fórum nánast öll kvöld út að borða.
Þegar við fjölskyldan fórum yfir minningar okkar um Svandísi stóð upp úr hversu glaðlynd og jákvæð hún var alla tíð. Það er nokkuð sem við getum svo sannarlega tekið okkur til fyrirmyndar. Eftir að hún fluttist á Hlíð tók starfsfólkið þar strax eftir þessum eiginleikum og hafði orð á því við okkur hversu gaman og auðvelt væri að annast hana og þau færu alltaf ánægð út úr herberginu hennar. Hún léti öllum líða svo vel í kringum sig.
Hvíl í friði, elsku Svandís okkar.

Hanna Dóra Hermannsdóttir og fjölskylda.