GARÐYRKJUSKÓLI ríkisins er rekinn að Reykjum í Ölfusi. Ríkissjóður keypti Reyki árið 1930 og stuttu seinna var reist þar vinnu- og hressingarhæli fyrir berklaveikt fólk sem rekið var fram til ársins 1938. Garðyrkjuskólinn var stofnaður ári seinna eða árið 1939. Reykir eru oft nefndir í Íslandssögunni og að Reykjum eyddi Ingólfur Arnarson síðustu æviárum sínum.

Garðyrkjuskóli ríkisins

að Reykjum í Ölfusi

­ að veita fræðslu í náttúru- og umhverfisvernd.GARÐYRKJUSKÓLI ríkisins er rekinn að Reykjum í Ölfusi. Ríkissjóður keypti Reyki árið 1930 og stuttu seinna var reist þar vinnu- og hressingarhæli fyrir berklaveikt fólk sem rekið var fram til ársins 1938. Garðyrkjuskólinn var stofnaður ári seinna eða árið 1939. Reykir eru oft nefndir í Íslandssögunni og að Reykjum eyddi Ingólfur Arnarson síðustu æviárum sínum. Hann er síðan talinn heygður í Inghóli á Ingólfsfjalli. Næst koma Reykir fram á sögusviðið á Sturlungaöld en þá setur þar staðfestu sína Gissur jarl Þorvaldsson. Einnig virðist Ögmundur Pálsson hafa haft bækistöð að Reykjum. Gissur Einarsson biskup veitti Oddi Gottskálkssyni Reyki er hann hafði þýtt Nýja testamentið fyrstur manna á íslensku. Oddur býr að Reykjum 1540-1546 og vinnur þar eljuverk við að þýða bækur fyrir Guðs kristni. Hálfdán Jónsson lögréttumaður býr á staðnum um 1700 og skrifaði hann lýsingu Ölfushrepps. Kirkja var á staðnum frá 1200 til 1909. Að Reykjum er nátturufar og lífríki mjög fjölbreytt og eru Reykir kjörinn staður til nátturuskoðunar. Þar er jarðhiti mikill og hverir sem laðað hafa að ferðamenn og náttúrufræðinga allt frá því á 18. öld.

Nemendur skólans skólaárin 1994-1996 eru fjörutíu og sex talsins á fjórum brautum. Meðalaldur nemenda er 28 ár sem er mikil breyting frá því sem áður var þegar margir nemendur komu í skólann beint úr grunnskóla. Þetta má að stórum hluta rekja til hugarfarsbreytingar í þjóðfélaginu varðandi umhverfis- og garðyrkjumál auk þess sem inntökuskilyrðum hefur verið breytt. Nú er krafist undirbúningsnáms í fjölbrauta- eða menntaskólum og stór hluti nemenda hefur lokið stúdentsprófi.

Á umhverfisbraut eru ellefu nemendur í umhverfis- og náttúruverndarnámi. Umhverfisbraut tók til starfa 1988 og markmið námsins er að veita fræðslu í umhverfis- og náttúruvernd og nýtingu mannsins á umhverfinu í leik og starfi. Í bóklega náminu sem er tveir vetur og verknáminu sem er sautján mánuðir öðlast nemendur fagþekkingu er eflir skilning þeirra á samþættingu náttúruumönnunar, verkstjórnunar og fræðslu. Nemendur af umhverfisbraut fara flestir til starfa við eftirlit, fræðslu og umönnun á útivistarsvæðum, fólkvöngum og þjóðgörðum.

Á Garðplöntubraut eru nú 14 nemendur. Garðplöntubraut tók til starfa 1978 og markmið námsins er að veita fræðslu um uppeldi á garðplöntum, skjólbeltaplöntum og skógarplöntum. Mikil áhersla er lögð á plöntuþekkingu hvað varðar tré, runna, fjölær blóm og sumarblóm.

Skrúðgarðyrkjubraut tók til starfa árið 1976 og er markmið námsins að veita fræðslu um undirstöðuatriði við byggingu garða, viðhald þeirra og umhirðu ásamt klippingu trjáa og runna. Þar sem skrúðgarðyrkja er lögbundin iðngrein stunda nemendur verknám hjá viðurkenndum skrúðgarðyrkjumeisturum. Að námi loknu taka nemendur sveinspróf og vilji þeir fá meistararéttindi þurfa þeir að bæta við sig einu ári í meistaraskóla. Á Skrúðgarðyrkjubraut eru nú 13 nemendur.

Blómaskreytinga- og markaðsbraut er yngsta brautin við skólann og tók til starfa árið 1990. Á brautinni eru nú átta nemendur að mennta sig í blómaskreytingum, sölu, geymslu, og notkun garðyrkjuafurða auk þess sem farið er í markaðsfræði og ræktun plantna í heimahúsum.

Við skólann er einnig Ylræktar- og útimatjurtabraut en hún er ekki starfrækt á þessu misseri. Ylræktar- og útimatjurtabraut býður upp á nám í ræktun matjurta, pottablóma og afskorinna blóma í gróðurhúsum ásamt útiræktun matjurta, geymslufræði og gróðurhúsabyggingafræði.

Sumardagurinn fyrsti

Sú hefð hefur skapast að nemendur hafa opið hús í Garðyrkjuskólanum á sumardaginn fyrsta annað hvert ár. Þetta er afar skemmtileg hefð og hefur mælst mjög vel fyrir og hafa gestir verið á bilinu 4- 6.000. Margt er að skoða að Reykjum auk þess sem nemendur verða með kynningu á brautum skólans og ýmis fyrirtæki tengd garðyrkju verða á staðnum að kynna vörur sínar. Gestir geta svo keypt sér kaffi og með því á milli þess sem gengið er um svæðið og kíkt inn í gróðurhúsin sem hafa ýmislegt að geyma. Sem dæmi má nefna að í einu húsinu eru ræktaðar bananaplöntur auk ýmissa annarra suðrænna og skemmtilegra plantna. Þá eru í einu húsi pottaplöntur af öllum mögulegum og ómögulegum tegundum. Í stærsta gróðurhúsi landsins geta gestir litið á verk skrúðgarðyrkjunema og kannski kvikna þar einhverjar hugmyndir um útfærslu á einkagarðinum. Auk alls þess sem að framan er nefnt verður á boðstólum íslenskt grænmeti og geta þeir sem áhuga hafa litið ínn í ræktunarhúsin og kynnt sér hvernig ferlið er frá því að plöntunni er komið fyrir í gróðurhúsi og til þess er hún er komin á disk neytenda. Gestir geta einnig leitað ráða varðandi þau vandamál sem við er að etja í garðyrkjunni og munu nemendur reyna af fremsta megni að svara þeim spurningum sem upp kunna að koma. Þá stendur öllum gestum sýningarinnar til boða að fara endurgjaldslaust í sund í sundlauginni í Laugaskarði sem er ein skemmtilegasta sundlaug landsins með náttúrulegu gufubaði og heitum pottum.

ELÍN Óladóttir nemandi í Garðyrkjuskóla ríkisins.