Evrópusambandið Reynsla Finna Þótt hagsmunir Íslendinga í samskiptum við Evrópusambandið séu um margt ólíkir hagsmunum Finna, segir Þorsteinn M.

Evrópusambandið Reynsla Finna Þótt hagsmunir Íslendinga í samskiptum við Evrópusambandið séu um margt ólíkir hagsmunum Finna, segir Þorsteinn M. Jónsson, vegna þess hversu mjög við reiðum okkur á auðlindir sjávar, má draga margvíslegan lærdóm af reynslu þeirra.

Annað Iðnþing hinna nýju Samtaka iðnaðarins var haldið nú á dögunum. Meðal gesta var Dr. Kari Jalas, fastafulltrúi Finna hjá Evrópusamtökum atvinnu- og iðnrekenda í Brussel. Dr. Jalas hélt erindi um reynslu Finna af veru þeirra í Evrópusambandinu, nú í ríflega 4 mánuði, og kom þar margt fram athyglivert.

Fjárfestingar

Fyrst lét Dr. Jalas þess getið, að þegar ljóst varð að Finnland yrði fullgildur þátttakandi í samfélagi Evrópuþjóða, efldist traust á finnskum efnahag. Það hafði í för með sér að fjárfestingaráformum í finnskum iðnaði og viðskiptalífi var hrundið í framkvæmd fyrr og af meiri krafti en ella hefði orðið. Í sumum tilfellum var ljóst að Finnland hefði ekki orðið fyrir valinu sem fjárfestingarland ef það hefði hafnað aðild. Aukning í fjárfestingum hefur skilað sér í meiri efnahagsbata í Finnlandi en áður var búist við. Nú er reiknað með að hagvöxtur verði um 6 prósent á þessu ári.

Þessi niðurstaða varpar skýru ljósi á mikilvægan þátt í ákvarðanatöku um fjárfestingar. Óvissa um framtíðina getur ráðið úrslitum um hvort ráðist er í fjárfestingu. Mikil óvissa gerir kröfu um meiri ávöxtun og þannig fækkar þeim fjárfestingarkostum sem til greina koma að öðru óbreyttu. Það er augljóslega meiri óvissa sem fylgir því fyrir Evrópuþjóð að standa utan ESB en innan. Enginn veit til að mynda með vissu hvernig rætist úr EES-samningnum og uppi eru rökstuddar efasemdir um áhuga ESB á að sinna honum sem skyldi.

Evrópusambandsaðild mun þannig án efa reynast lyftistöng fyrir erlenda fjárfestingu. Erlendir fjárfestar gera að jafnaði miklar kröfur um öryggi og góðar framtíðarhorfur. Land sem er fullgildur þátttakandi í samfélagi Evrópuþjóða og hefur greiðan og óhindraðan aðgang að innri markaðinum er þannig álitlegri kostur í augum fjárfesta en land sem stendur utan við eða er í óljósum tengslum við það samstarf.

Matvælaverð

Í öðru lagi kom fram í máli dr. Jalas að matvælaverð hefur lækkað verulega eftir að Finnar gerðust aðilar að ESB, eins og ráð var fyrir gert. Samkvæmt nýlegri könnun neytendayfirvalda hafði matvælaverð lækkað um 7 prósent að meðaltali um miðjan febrúar. Þegar öll kurl eru komin til grafar er gert ráð fyrir að lækkunin verði um 10 prósent. Verðlækkunin er mjög mismunandi eftir vöruflokkum. Til að mynda hefur verð á eggjum lækkað um 48 prósent, verð á kjöti og kjötvöru um 13 prósent en verð á mjólkurafurðum hefur lækkað um 3 prósent.

Reynsla Finna er í samræmi við niðurstöður þeirra kannana sem gerðar hafa verið hér á landi um þetta mál. Fyrir finnsku þjóðina, sem hefur þurft að þola miklar þrengingar á undanförnum árum vegna efnahagskreppu, er lækkun matvælaverðs mikilvæg kjarabót. Gera má ráð fyrir að sá aukni kaupmáttur sem henni fylgir styrki mjög efnahagslífið og dragi úr hinu mikla atvinnuleysi sem þar hefur búið um sig.

Áhrif á ákvarðanatöku

Í þriðja lagi lét dr. Jalas þess getið að aðildin að ESB hafi gerbreytt aðstöðu Finna til að hafa áhrif á stefnu og ákvarðanir innan ESB í málaflokkum sem varða þá miklu. Staða Finna er í grundvallaratriðum frábrugðin því sem fyrri fríverslunarsamningar fólu í sér. Nú eru þeir beinir þátttakendur þegar ákvarðanir eru teknar í ráðherraráði og hafa möguleika á að beita sér í framkvæmdastjórninni og á Evrópuþinginu. Þegar er byrjað að ráða Finna til þjónustu í stofnunum Evrópusambandsins og einnig er ljóst að þeir munu fá nokkrar lykilstöður í framkvæmdastjórninni.

Markviss hagstjórn

Dr. Jalas gat þess einnig í máli sínu að þau áhrif aðildarinnar sem vörðuðu mestu væru ekki skammtímaáhrif, sem fljótlega væru sýnileg, heldur grundvallarbreytingar á viðhorfi og möguleikum sem kæmu fram á lengri tíma. Til dæmis eru strangar kröfur efnahagssamstarfs Evrópusambandsþjóða líklegar til að koma fram í markvissari hagstjórn og meiri stöðugleika í aðildarlöndunum. Þegar frá líður skilar það sér í auknum hagvexti og betri lífskjörum. Finnska þjóðin var klofin í afstöðu sinni til Evrópusambandsaðildar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, en nú sér þess ekki merki. Þeir sem harðast deildu hafa slíðrað sverðin og efasemdaraddir hafa þagnað. Til marks um víðtæka sátt um Evrópusambandsaðild er það, að í kosningum til finnska þingsins nú í mars var málið varla á dagskrá.

Niðurlag

Þótt hagsmunir Íslendinga séu um margt ólíkir hagsmunum Finna, vegna þess hversu mjög við reiðum okkur á auðlindir sjávar, má draga margvíslegan lærdóm af reynslu þeirra. Lækkun matvælaverðs, auknar fjárfestingar, áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku og meira aðhald í hagstjórn skila sér til finnsku þjóðarinnar í aukinni hagsæld. Ef Íslendingar næðu fram kröfu sinni um full yfirráð yfir fiskveiðilögsögunni umhverfis landið, eru margir kostir sem fylgja fullri þátttöku í samfélagi Evrópuþjóða umfram það sem EES-samningurinn veitir.

Ef Íslendingar gerast aðilar að Evrópusambandinu, er þess að vænta, eins og svo oft þegar hart hefur verið deilt um framkvæmdir eða ákvarðanir sem til heilla horfa, að eftir á vildu margir þá Lilju kveðið hafa.

Höfundur er hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Þorsteinn M. Jónsson.