Björg Einarsdóttir rithöfundur Það að verða sjötugur er nánast að koma að leiðarsteini, þar sem talin eru gengin ár, og því eins konar viðmiðun á lífsleiðinni. Björg Einarsdóttir, rithöfundur og bókaútgefandi, er sjötug í dag, 25. ágúst 1995. Hún er fjórða í röðinni okkar systkinanna, barna Einars Þorkelssonar, skrifstofustjóra Alþingis og konu hans Ólafíu Guðmundsdóttir. Björg ber nafn konu, sem var í barnæskudögum samvista móður okkar í Hörgsholti. Milli þessarar konu, Bjargar Jónsdóttur og móður okkar voru miklir kærleikar. Til marks um það fór Ólafía móðir okkar með dóttur sína austur í Hreppa, til að Björg fóstra hennar gæti sjálf gefið stúlkunni nafn sitt og veitt henni blessun sína.

Svo atvikaðist, að Ólafía móðir okkar kynntist Maríu Jónsdóttur við störf í ungmennafélaginu í Reykjavík. Þær stöllur voru saman í kvennafélaginu Iðunni, sem var innan ungmennafélagsskaparins. Til þessa tímabils lágu djúpar rætur, sem síðar áttu eftir að koma í ljós. Þær vinkonur voru samhuga um margt á meðan þær áttu þess kost að vera samvistum. Í einni heimsókn Maríu til Ólafíu, skömmu eftir fæðingu Bjargar, vildi svo til að móðir okkar varpaði hinni ungu dóttur sinni í fang vinkonu sinnar. Síðan varð unga stúlkan Maríu hugstæð. Engan grunaði á þeirri stundu, að hér væru að spinnast örlagaþræðir í lífi þeirra beggja. Eftir fráfall móður okkar á haustdögum 1929, varð María fyrst allra til að bjóða föður okkar aðstoð. Það varð úr að þau hjónin, María Jónsdóttir og Sigurjón Oddsson, verktaki, tóku Björgu til fósturs. Þau hjón höfðu verið barnlaus, en höfðu áður tekið dreng í fóstur. Fósturmóðirin og fósturdóttirin urðu mjög samhentar, sem kom einkum í ljós eftir að Sigurjón féll frá. Þetta er rakið hér til að vekja til vitundar um rætur til þeirra örlagaþráða sem hafa ofið lífsvef Bjargar öðru fremur.

Það er því engin tilviljun að sígild kvennahyggja, um jafnræði um stöðu kvenna, um að standa jafnfætis í þjóðfélaginu, ætti hug hinnar ungu konu. Ekki fer á milli mála, að móðir hennar og fósturmóðir voru framarlega í kvennabaráttu á sínum tíma. Af kynnum mínum frá Sigríði Guðnadóttur, fósturmóður minni, en hún var dóttir Bjargar Jónsdóttur, mun Björg eldri hafa verið baráttukona um kvennahyggju þeirra tíma. Með réttu er því sagt um Björgu systur mína, að sjaldan falli eplið langt frá eikinni.

Kynni okkar Bjargar hófust ekki verulega fyrr en á fullorðinsárum. Við systkinin ólumst upp dreift og áttum lítil samskipti á bernskuárum okkar. Það var ekki fyrr en ég flutti til Húsavíkur, að ég í Reykjavíkurferðum mínum heimsótti iðulega heimili þeirra Bjargar og Haralds á Bárugötunni. Í því húsi ríkti mikil samhygð, eins og Björg sjálf lýsir best í viðtali við Guðrúnu Egilson, blaðamann, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 25. október 1980. Á heimili þeirra var ætíð gott að koma. Þessar heimsóknir tendu mig betur við uppruna minn og við þær rætur, sem ég og mér skyldir eru vaxnir af. Björg hefur af mikilli alúð haldið til haga ýmissi vitneskju og gögnum um ættmenn okkar, þó sérstaklega er varðar foreldra okkar og sérstaklega það sem snertir starfssögu þeirra í Alþingishúsinu. Hún hefur ritað eina eða fleiri greinar um þessar minningar í starfsmannablað Alþingis.

Oftar en margur hyggur skera örlagaþræðirnir beinu brautirnar, sem farnar hafa verið áður í farsælu lífshlaupi. Allt í einu gerðist Björg fremst baráttukvenna í nýhyggju feminismans og stendur að byltingarkenndum frídegi kvenna, svo að fátt eitt sé nefnt þegar hún stóð fremst í nýstárlegri kvennabaráttu á Íslandi.

Samhliða snýr hún sér að ritun svonefndra kvennabókmennta, sem nánast er nýlunda í sagnaritum hér á landi og verður meðal fremstu og afkastamestu höfunda á þessu sviði. Skerfur hennar er mikill að allri gerð, enda eitt mikilvægasta framlag höfundar á þessu sviði á íslenska vísu.

Við þetta bætist mikil útgáfustarfsemi á kvennabókmenntum kunnra erlendra kvenhöfunda. Það vekur athygli okkar sem stöndum utangarðs, að ekki ber á viðurkenningu þeirrar æðri menntastofnunar, sem telur kvennabókmenntir í hópi viðfangsefna sinna.

Ég hefi ekki gert mér ljóst, hvers vegna Björg systir mín ákvað að ryðja sér til rúms á vettvangi stjórnmálanna. Mig grunar að grundvallarskoðanir hennar í þjóðmálum byggist á víðsýnni mannúðar- og réttlætishyggju. Með jafnræði allra til að nýta hæfileika sína. Svo og með samlyndi í þjóðfélaginu, jafnt þeirra sem þurfa stuðning til sjálfsbjargar, og hinna sem þegar hafa sannað sig, en eru reiðubúnir til liðveislu við aðra. Þessi sameinandi kraftur, þar sem þeir betur megandi og hinir verr settu snúa saman bökum, til að ná fram sameiginlegu markmiði mannúðarþjóðfélags, er sá rauði þráður er lýsir stjórnmálaviðhorfi Bjargar systur minnar. Markmiðið er mannúðarsamfélag til sjálfsbjargar, þar sem enginn sé skilinn eftir á köldum klaka.

Það er fjarri að Björg eigi samleið með þeim feminisma, sem gerir kvennabaráttuna að stjórnmálahreyfingu í trúarbragðastíl, sérgreinda eftir kynjum, þar sem málafylgjan mótast af hvítu eða svörtu. Nú eins og á fyrri dögum kvennanna, sem höfðu hugsjónaeld ungmennafélaganna að leiðarljósi, er réttindabarátta kvenna mannréttindabaráttan um rétt kvenna, hvar sem er í þjóðfélaginu og hver sem á í hlut. Sígild kvennabarátta byggist í raun á jafnræði hverrar konu til að sanna sig og verða jafnoki jafnt karla sem kvenna, miðað við hlutskipti sitt í lífinu. Þetta hafa konur eins og Björg systir mín sýnt og sannað á sinni lífsbraut. Sama hafa margar konur gert á undan Björgu og enn fleiri munu á sinn hátt verða sporgöngukonur þeirra.

Blákalt raunsæi og ódrepandi seigla hefur einkennt öðru fremur baráttuaðferðir Bjargar. Hún sýndi það mikla afrek að hverfa í einu vetfangi úr húsmóðurhlutverki sínu í vesturbænum og komast í fremstu röð kvennabaráttu samtímans. Björg átti einnig drjúgan þátt í því að innan stærsta stjórnmálaflokks landsins myndaðist virk kvennahreyfing, sem nú virðist halla undan hjá, eftir að gamla baráttugengi Bjargar og samtíðarkvenna hennar hefur gengið fyrir róða.

Um leið og við Áslaug og fjölskyldan hér fyrir norðan færum afmælisbarninu bestu árnaðaróskir, viljum við árna Haraldi eiginmanni Bjargar allra heilla á þessum tímamótum. Börnum þeirra, Guðmundi Inga, Maríu, Einari Hrafnkeli, tengdabörnum og barnabörnum Bjargar og Haralds óskum við árnaðar á þessum tímamótum.

Áskell Einarsson.