Flugvélatjón NATO á árinu: Jafngildir því að flugher Noregs hafi verið þurrkaður út London. Reuter. FLUGHERIR Atlantshafsbandalagsins, NATO, hafa orðið fyrir tilfinnanlegu flugvélatjóni á árinu.

Flugvélatjón NATO á árinu: Jafngildir því að flugher Noregs hafi verið þurrkaður út London. Reuter.

FLUGHERIR Atlantshafsbandalagsins, NATO, hafa orðið fyrir tilfinnanlegu flugvélatjóni á árinu. Hafa 128 bardagaflugvélar þeirra farizt á fyrstu 10 mánuðum ársins, eða til októberloka, samkvæmt upplýsingum varnar málaritsins Jane's Defence Weekly. Það jafngildir því að allur flugher Noregs hafi verið þurrkaður út á árinu.

Verðmæti flugvélanna, sem farist hafa, er á annan milljarð dollara, eða um 50 milljarða íslenzkra króna. Er þá aðeins um að ræða þá upphæð sem kostaði að kaupa nýjar flugvélar í stað þeirra sem fórust, ekki bætur sem greiddar eru fyrir flugmenn eða aðra sem slasast eða bíða bana með þeim, eða mannvirkjatjón.

Allir flugherir NATO-ríkjanna nema Tyrklands hafa orðið fyrir flugvélatjóni á árinu. Meðal flugvélanna er 26 orrustuþotur af gerðinni F-16, tvær af gerðinni F-15, og fimm orrustu- og sprengjuþotur af gerðinni Tornado. Verðmæti þessara 33 flugvéla út af fyrir sig er 700 milljónir dollara, eða jafnvirði um 32 milljarða króna.