FYRIRTÆKIÐ Kamhnit hf. hefur starfað á Kamtsjatka í Rússlandi á þriðja ár. Fyrirtækið vinnur nú m.a. við stóra seiðaeldisstöð fyrir lax og eru verklok áætluð í byrjun næsta mánaðar. Á þessum árum hefur fyrirtækið framkvæmt fyrir um 11 milljónir dollara, tæpar 730 milljónir ÍSK, og allur búnaður og efni hafa verið keypt frá Íslandi.
Kamhnit hf. með miklastarfsemi í Kamtsjatka
FYRIRTÆKIÐ Kamhnit hf. hefur starfað á Kamtsjatka í Rússlandi á þriðja ár. Fyrirtækið vinnur nú m.a. við stóra seiðaeldisstöð fyrir lax og eru verklok áætluð í byrjun næsta mánaðar. Á þessum árum hefur fyrirtækið framkvæmt fyrir um 11 milljónir dollara, tæpar 730 milljónir ÍSK, og allur búnaður og efni hafa verið keypt frá Íslandi. Á árunum 1994 og 1995 hafa 25 íslenskir iðnaðarmenn og verkfræðingar starfað á Kamtsjatka á vegum Kamhnits. Ýmisleg verkefni eru framundan hjá fyrirtækinu.
Guðmundur Björnson, framkvæmdastjóri Kamhnits, segir að starfsemin í Kamtsjatka hafi byrjað á árinu 1993. Upphafið má rekja til farar Íslendinga á vegum Útflutningsráðs 1992 til Kamtsjatka en tilgangurinn var að kanna tækifæri á verkefnum í sjávarútvegi. Íslendingarnir komu á kynnum m.a. við stjórnendur UTRF útgerðarfyrirtækisins sem seinna tók upp samstarf við Íslenskar sjávarafurðir.
Hótel og sundlaug
Fyrsta verkefnið var endurnýjun á gamalli sundlaug fyrir UTRF í Rybak, sem er hvíldarstaður um 60 km frá borginni Petropavlovsk. Þar var einnig lögð 1.200 metra löng hitaveituaðveituæð og virkjuð heitavatnsborholu. Um 15 íslenskir iðnaðarmenn unnu við þetta verk á árinu 1993 og var allur búnaður og efni flutt inn frá Íslandi. Við sundlaugina var einnig reist vatnsrennibraut af sömu gerð og er í sundlauginni í Laugardal. Verkinu var lokið í desember 1993.
1994 og 1995 endurbyggði Kamhnit hótel Virginiu í Rybak, að innan og utan. Hótelið er með 25 herbergjum á tveimur hæðum og útvegaði Kamhnit einnig allan búnað, þ.e. húsgögn og hreinlætistæki. Allt byggingarefni og búnaður var fluttur inn frá Íslandi. Alls unnu við hótelið um tólf íslenskir iðnaðarmenn 1994 og 1995. Nú hefur rússneska flugfélagið Aeroflot gert langtíma samning við hótelið um gistingu fyrir áhafnir félagsins.
Árið 1994 hóf Kamhnit byggingu baðhúss við sömu sundlaug. Húsið er steinsteypt á tveimur hæðum og um 825 fermetrar að stærð. Eins og fyrr var allt byggingarefni flutt inn frá Íslandi og hafa um fjórtán íslenskir iðnaðarmenn starfað við verkið. Húsinu var skilað fullbúnu í desember síðastliðnum. Þá reisti fyrirtækið aðra vatnsrennibraut við sundlaugina.
Seiðaeldisstöðvar og hitaveituæð
Á seinni hluta árs 1994 tók fyrirtækið þátt í uppbyggingu nýrrar seiðaeldisstöðvar í Malkinski og endurnýjun annarrar eldri stöðvar á sama stað. Meðal verkþátta Kamhnits var virkjun tveggja heitavatnshola, bygging afloftunartanks, lagning 780 m langrar aðveitu fyrir heitt vatn, uppsetning 170 fiskeldiskerja og tveggja fullkominna blöndunarstöðva fyrir heitt og kalt vatn. Einnig setti Kamhnit upp tíu útiker fyrir eldisfisk.
Í desember 1995 lauk Kamhnit við að setja upp neysluvatns- og miðstöðvarlagnir í sex einbýlishús og endurnýja lagnir í eldri fiskeldisstöðinni í Malkinski. Auk þess setti fyrirtækið upp neysluvatns- og miðstöðvarlagnir í nýja sundlaug á svæðinu.
Þá vann Kamhnit á árinu 1995 við lagningu 870 m langrar hitaveituæðar að 20 milljóna seiða eldisstöð í Paratunka dalnum, um 60 km utan Petropavlovsk, ásamt uppsetningu afloftunartanks og blöndunarstöðvar fyrir heitt og kalt vatn. Verkinu lýkur í febrúar á þessu ári.
Guðmundur segir að starfsemi Kamhnits í Kamtsjatka hafi skilað fyrirtækinu drjúgum tekjum og auk þess haft beina veltuaukningu í för með sér fyrir íslensk fyrirtæki þar sem allur búnaður og efni hafa verið keypt hérlendis.
KAMHNIT endurnýjaði sundlaugina í Rybak og reisti við hana tvær vatnsrennibrautir sömu gerðar og í Laugardal.
HÓTEL Virginia í Rybak var í mikilli niðurníðslu. Kamhnit endurnýjaði hótelið að utan sem innan og hefur Aeroflot nú gert samning um gistingu fyrir áhafnir sínar á hótelinu.
KAMHNIT byggði þetta baðhús við sundlaugina í Rybak. Það var afhent 9. desember síðastliðinn.