JÓLALAND ehf. í Hveragerði leitar nú eftir heimildum til nauðasamninga við kröfuhafa sína og vinna lögmenn fyrirtækisins nú að því að afla frumvarpi til nauðasamninga nægilegs fylgis meðal kröfuhafa til þess að hægt sé að leita eftir formlegri heimild til nauðasamninga hjá dómstólum.
Jólaland ehf. í Hveragerði leitar heimildar til nauðasamninga við kröfuhafa

50% krafna

verði greiddar

JÓLALAND ehf. í Hveragerði leitar nú eftir heimildum til nauðasamninga við kröfuhafa sína og vinna lögmenn fyrirtækisins nú að því að afla frumvarpi til nauðasamninga nægilegs fylgis meðal kröfuhafa til þess að hægt sé að leita eftir formlegri heimild til nauðasamninga hjá dómstólum. Til þess þarf fjórðungur kröfuhafa, bæði hvað varðar fjölda og hlutfall af heildarkröfum, að veita skriflegan stuðning við frumvarpið. Að sögn Ólafs Björnssonar, lögmanns Jólalands, nema heildarskuldir félagsins nú um 25 milljónum króna, en hlutafé fyrirtækisins er um 2,9 milljónir.

Ólafur segir að þessarar leiðar sé leitað í ljósi þess að umtalsverð fjárfesting hafi átt sér stað í þessari hugmynd og með þessum hætti sé verið að reyna að tryggja framtíðarmöguleika fyrirtækisins. Hætt sé við því að það fari í þrot verði nauðsamningar ekki samþykktir, nema til komi hlutafjáraukning af einhverju tagi. Ólafur segir að í frumvarpinu sé kröfuhöfum boðin greiðsla á helming krafna. Fjórðungur krafna verði greiddur í formi hlutafjár en 25% verði greidd út. Ef leyfi fæst til þess að leita nauðasamninga er ljóst að samþykki 60% kröfuhafa, bæði hvað varðar fjölda og upphæð krafna, þarf til þess að þeir öðlist gildi.

Jólaland ehf. var stofnað síðastliðið haust og var ætlunin að markaðssetja Hveragerði sem heimili jólasveinsins bæði fyrir innlenda og erlend ferðamenn. Helgi Pétursson, stjórnarformaður Jólalandsins, segir að ástæðan fyrir svo slæmri stöðu hjá fyrirtækinu sé fyrst og fremst sú að mun færri gestir hafi heimsótt Jólaland en vonir stóðu til. Um 10 þúsund manns hafi komið þann tíma sem opið var en aðsóknin hafi hins vegar dottið niður á milli jóla og nýárs. Þá hafi kostnaður við að koma verkefninu á fót verið mun meiri en gert hafi verið ráð fyrir, einkum vegna þess að ráðast hafi þurft í talsverðar endurbætur á gamla tívolíhúsinu. Helgi segir menn þó enn vera bjartsýna á að þessi hugmynd geti gengið upp og þetta sé aðeins spurning um að menn hafi örlítið meira úthald í þessu máli.