I. Þann 27. nóvember 1992 birtist í Politiken áskorun til forseta Íslands og ríkisstjórnar þess efnis, að rannsókn fari fram á Íslandi á meintum stríðsglæpum Eðvalds Hinrikssonar og úr því skorið í dómsmáli, hvort hann sé sekur eða saklaus.
Guðmundur Kamban drepinn í Kaupmannahöfn 5. maí 1945

Fyrr en Danir hafa gert hreint fyrir sínum dyrum í Kambansmálinu, segir Leifur Sveinsson, grær aldrei um heilt milli Dana og Íslendinga.

I.

Þann 27. nóvember 1992 birtist í Politiken áskorun til forseta Íslands og ríkisstjórnar þess efnis, að rannsókn fari fram á Íslandi á meintum stríðsglæpum Eðvalds Hinrikssonar og úr því skorið í dómsmáli, hvort hann sé sekur eða saklaus.

Undir áskorun þessa rita "vinahópur Íslands": Halldór Sigurðsson ritstjóri, Ulla Dahlerup rithöfundur, Töger Seidenfaden forstjóri TV-2, Ulf Hansen deildarstjóri við Konunglega bókasafnið, Simon Rosenbaum leikari, Jörgen Kieler yfirlæknir.

II.

Þann 7. desember 1992 sendi ég bréflega fyrirspurn til Hans Engell dómsmálaráðherra Dana, svohljóðandi:

"Þann 5. maí 1945 var Íslendingurinn Guðmundur Kamban, fæddur að Litlabæ í Garðasókn 8. júní 1888, myrtur í Hotel-Pension Bartoli í Upsalagade 20 í Kaupmannahöfn.

1. Hve þunga refsingu hlaut morðingi Guðmundar Kambans?

2. Er morðingi þessi enn á lífi?

3. Hvert er nafn hans?

Ástæður mínar fyrir beiðni þessari er sameiginlegur áhugi bræðraþjóðanna Dana og Íslendinga fyrir því, að menn er fremja glæpi á stríðstímum séu sóttir til saka, sbr. lesendabréf í Politiken föstudaginn 27. nóvember 1992, undirritað af sex þekktum borgurum í Danmörku. Vænti svars við fyrstu hentugleika yðar. Virðingarfyllst: Leifur Sveinsson."

III.

Svör bárust frá dómsmálaráðuneyti Dana í bréfum dags. 18. desember 1992 og 8. janúar 1993. Í fyrra svarbréfinu er frá því skýrt, að ráðuneytið hafi leitað eftir upplýsingum um mál þetta í ríkisskjalasafni Dana og muni ég fá svar þegar þær upplýsingar liggi fyrir. Þann 8. janúar berst mér síðara svarið:

"Þýðing á bréfi

danska dómsmálaráðuneytisins

til Leifs Sveinssonar

dagsett 8. janúar 1993.

Journ.3.ktr. 1992-996-575/SKW

Með bréfi dagsettu 7. desember 1992 sneruð þér yður til Dómsmálaráðuneytisins viðvíkjandi upplýsingum um morðið á íslendingnum Guðmundi Kamban, sem framið var í Kaupmannahöfn 5. maí 1945.

Dómsmálaráðuneytið hefur við gagnaöflun sína leitað eftir umsögn ríkisskjalasafnsins.

Ríkisskjalasafnið hefur, að því er varðar lýsingu atvika við dauða Guðmundar Kambans þann 5. maí 1945, vísað til frásagnar Ditlevs Tamms á blaðsíðum 169­171 í doktorsritgerð hans "Retsopgøret efter besættelsen" (København, 1984).

Þar kemur fram að umrætt atvik varð ekki tilefni til neinna viðbragða gagnvart þeim manni sem hleypti af skotinu sem varð Kamban að bana. Spurningu yðar merktri 1. ætti að vera svarað með þessu.

Dómsmálaráðuneytið telur hinsvegar að ráðuneytið eigi ekki að tjá sig um hinar spurningarnar tvær þar sem þar væri um upplýsingar að ræða sem gætu varðað einkahagi manna sem líkindi eru til að séu enn lífs.

Að svö vöxnu máli mun Dómsmálaráðuneytið ekkert frekar aðhafast vegna erindis yðar."

IV.

Árið 1969 kom út á vegum Almenna bókafélagsins skáldverk Guðmundar Kambans í sex bindum og þar segir Kristján Albertsson m.a. í formála: "En frá 1938 býr hann aftur í Kaupmannahöfn, og þar lýkur hann lífi sínu þann 5. maí 1945, fyrir byssukúlu flumósa unglings, þegar danskir frelsisliðar gerðu upp sakir við landráðamenn hernámsáranna ­ alsaklaus af orðróm, sem um hann hafði myndast ­ grun, sem engin tök voru á að hnekkja fyrr en eftir stríðslok."

V.

Lýsing Kristjáns Albertssonar og doktorsritgerð Ditlev Tamm stangast nokkuð á. Hjá Tamm er morðinginn nefndur "Håndværksmester" (iðnmeistari), en ekki flumósa unglingur. Eftir margra ára baráttu tókst mér þann 12. desember sl. að hafa út úr Þjóðskjalasafni Íslands ellefu ljósrit af gögnum um Kambansmálið frá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn frá maí/júní 1945. Þær skýrslur stangast líka á við ritgerð D. Tamm. Nauðsynlegt er því að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, hver er sannleikurinn í máli þessu. Enginn andmælandi var mættur af Íslands hálfu við doktorsvörn Ditlev Tamm, sem hefði verið sjálfsagt af Íslands hálfu. Doktorsvörnin fór fram í Háskólanum í Odense 13. desember 1984.

VI.

Við sexmenningana, sem nefndir eru í kafla I, vil ég segja þetta: "Guð verndi okkur frá vinum Íslands í Danmörku."

Eðvald Hinriksson dó 27. desember 1993, 82 ára gamall. Vafalaust hafa sexmenningarnir flýtt fyrir dauða hans með brölti sínu. En nú hafa sexmenningarnir fengið verðugt verkefni að leysa, en það er að hafa upp á morðingja Kambans, lífs eða liðnum. Hans Engell fyrrum dómsmálaráðherra var ekki maður til þess, en vonandi tekst þeim betur til.

Fyrr en Danir hafa gert hreint fyrir sínum dyrum í Kambansmálinu, grær aldrei um heilt milli Dana og Íslendinga.

Höfundur er lögfræðingur í Reykjavík.

Leifur Sveinsson

Guðmundur Kamban