AÐALFUNDUR Prófastafélags Íslands samþykkti í gær ályktun þar sem lýst er hryggð og áhyggjum vegna þeirrar aðfarar sem gerð hefur verið að biskupi Íslands eins og komist er að orði. Eðlilegt sé að fela málið dómbærum aðilum og er það fullvissa fundarins að þá muni sakleysi biskupsins sannast.
Aðalfundur Prófastafélags Íslands ályktar Hryggð lýst vegna að-

farar að biskupnum

AÐALFUNDUR Prófastafélags Íslands samþykkti í gær ályktun þar sem lýst er hryggð og áhyggjum vegna þeirrar aðfarar sem gerð hefur verið að biskupi Íslands eins og komist er að orði. Eðlilegt sé að fela málið dómbærum aðilum og er það fullvissa fundarins að þá muni sakleysi biskupsins sannast.

"Prófastar lýsa hryggð sinni og áhyggjum vegna þeirrar aðfarar sem gerð hefur verið að biskupi Íslands, herra Ólafi Skúlasyni, með ósönnuðum aðdróttunum í hans garð, þar sem gróflega er vegið að mannorði hans og starfsheiðri.

Prófastar lýsa andúð sinni á gáleysi þeirra fjölmiðla, sem í umfjöllun sinni hafa látið líta svo út sem þessar ásakanir væru sannaðar. Þetta hefur valdið biskupi og fjölskyldu hans þjáningu og miska og öllum þeim sem unna kirkjunni sárindum og hryggð. Lýsum við samúð með öllum þeim sem þjáðst hafa vegna þessa máls.

Prófastar harma þá stöðu sem upp er komin. Nauðsynlegt er að brugðist verði við af festu og ábyrgð. Því er í alla staði eðlilegt að fela málið dómbærum aðilum ­ enda er það fullvissa okkar að þá muni sakleysi biskups sannast. Væntum við þess að söfnuðir landsins slái sem fyrr skjaldborg um kirkjuna og það sem hún stendur fyrir.

Prófastar telja sjálfsagt að sá hornsteinn réttarfars í siðuðu samfélagi sé í heiðri hafður að hver maður skuli saklaus teljast uns sekt hans er sönnuð, svo og að ein lög gildi í landinu fyrir alla þegna þess. Átelja prófastar sérhverja tilraun til þess að vefengja þessa meginreglu réttarríkisins og vara við þeirri vá að mannhelgi sé vanvirt."

Séra Guðmundur Þorsteinsson, sem í gær var kjörinn formaður Prófastafélags Íslands, sagði að algjör samstaða hefði verið á fundinum um ályktunina. Félagsmenn í Prófastafélaginu eru 16.

Yfirlýsing rituð að beiðni biskups

Síðdegis í gær barst yfirlýsing frá fjórum starfsmönnum Langholtskirkjusafnaðar, þeim Guðmundi E. Pálssyni, Margréti Leósdóttur, Jóni Stefánssyni og Sigurbjörgu Hjörleifsdóttur. Þar segir: "Við undirrituð leyfum okkur að koma því á framfæri að bréf sem við skrifuðum undir og staðfestum að ónafngreind kona hafi komið á fund sr. Flóka Kristinssonar hinn 9. janúar 1996 var ritað í þeim tilgangi einum að bera til baka fullyrðingar sr. Flóka að hann hafi aldrei talað við þessa konu.

Umrætt bréf var ritað að beiðni biskups, hr. Ólafs Skúlasonar, og ætlast til að það yrði ekki gert opinbert. Hörmum við að þessi yfirlýsing sé tengd við deilumál sóknarnefndar Langholtssóknar við sóknarprestinn, sr. Flóka Kristinsson."

Séra Flóki sagði í samtali við Morgunblaðið að yfirlýsing fjórmenninganna, sem þau gáfu í fyrradag, væri alvarlegt trúnaðarbrot. Starfsgrundvöllur prestsins sem sálusorgara sé gjörsamlega hruninn. Það væri einnig alvarlegt trúnaðarbrot af hálfu biskups Íslands að senda yfirlýsinguna áfram til fjölmiðla.