Ragnhildur Óskarsdóttir Á haustdögum 1967 fórum við á mjög eftirminnilega myndlistarsýningu í Casa Nova. Þar sýndi Róska 55 myndverk, sem veitti okkur í fyrsta sinni innsýn inn í hinn persónulega skáldheim hennar. Myndirnar voru kröftugar, oft með húmorísku ívafi þótt undirtónninn væri alvarlegur. Nöfn myndanna voru einnig oft skondin. Minnisstæð er mynd nr. 18, "Hlandblautar löggur". Síðan liðu árin og við fluttum til útlanda og heyrðum ekkert um Rósku í mörg ár. Þó fylgdi okkur ávallt hin sérlega frumlega og skemmtilega sýningarskrá (plakat) Rósku frá þessari sýningu, innrammað og virðulegt. Eins og verður um marga Íslendinga fluttum við heim þegar börnin fóru að vaxa úr grasi. Þá lágu leiðir okkar og Rósku saman á ný, með nokkuð öðrum hætti þó, þegar elsta dóttir okkar, Anna Birna, giftist einkasyni hennar, Höskuldi Harra Gylfasyni. Ekki leið á löngu þar til þau eignuðust dóttur, Evu Lind. Þá birtust "Hlandblautar löggur" sem skírnargjöf til þeirrar stuttu frá ömmu Gilli. Samband Rósku og Evu Lindar var ávallt sérstakt, blandið góðlegum húmor og gagnkvæmri virðingu á jafnréttisgrundvelli. Samband hennar við hin tvö ömmubörn hennar, Nínu og Óskar, var hins vegar með nokkuð öðrum hætti, enda þau yngri að árum. Enn liðu árin og þjóðin fór að læra á tölvu. Við hittum Rósku oftar þó ekki væri hægt að tala um neina reglu í því sambandi. Svo var það einn góðan veðurdag þegar við hittumst að henni var óvenju mikið niðri fyrir, hún var varla búin að heilsa þegar hún sagði: "Ég er að læra á tölvu." Fljótlega kom í ljós að það var nú ekki bara ritvinnsla og töflureiknar sem hún var að glíma við, heldur voru það grafískir möguleikar tölvunnar, sem áttu hug hennar allan. "Ég er komin með algjöra tölvudellu," sagði hún. Ekki leið á löngu þar til "dellan" fór að skila árangri í myndsköpun og eftir ótrúlega skamman tíma sáu fyrstu íslensku tölvugrafíklistaverkin dagsins ljós. Þau urðu síðan snar þáttur í myndsköpun hennar síðustu árin. Nú þegar lífsskeið Rósku er á enda eigum við hlýja minningu um óvenju litríka konu sem auðgaði líf okkar. Öðru fremur geymist minningin um hana og lífssýn hennar í fjölbreyttum og margræðum myndverkum, framlag til listsköpunar sem eftir er að meta til fulls og setja í rétt sögulegt samhengi. Ömmubörnin geyma þó fyrst og fremst minningu um ömmuna góðu, ömmu Gilli, sem kom og fór, ömmu sem þau eiga eftir að sjá að sett hefur varanleg spor í íslenska myndlistarsögu. Höskuldi Harra, Önnu Birnu, eftirlifandi eiginmanni og öldnum foreldrum Ragnhildar vottum við okkar dýpstu samúð. Bjarnveig Höskuldsdóttir,

Ragnar Sigbjörnsson.