eftir Óskar Árna Óskarsson, Mál og menning, 1996 - 47 bls. ÓSKAR Árni Óskarsson er ekki skáld margra orða eða mikilla yfirlýsinga. Lífsgátan er ekki leyst í kvæðum hans né ráðist í uppskurð á máli eða myndum. Ljóð hans eru eins og kyrrlátt kvöld. Veruleikinn fer sínu fram.

Skrjáfið í stjörnunum

BÓKMENNTIR

Ljóð

LJÓS TIL AÐ MÁLA NÓTTINA

eftir Óskar Árna Óskarsson, Mál og menning, 1996 - 47 bls.

ÓSKAR Árni Óskarsson er ekki skáld margra orða eða mikilla yfirlýsinga.

Lífsgátan er ekki leyst í kvæðum hans né ráðist í uppskurð á máli eða myndum. Ljóð hans eru eins og kyrrlátt kvöld. Veruleikinn fer sínu fram. En handan hans vakir auga og lágvær rödd sem greinir okkur á sinn hátt frá hversdagslegustu atburðum. Ljósameistarinn fikrar sig hægt upp stigann með stjörnuskrúfjárnið, vélsmiðinn dreymir hafmeyjar, ljóðskáldið sefur, það heyrist kallað inni í húsi og lengsti ljóðaflokkurinn, sem nefnist Vegamyndir, greinir frá smámyndum úr ferð um landið.

Þrátt fyrir hljóðlátan ytri veruleika búa ljóðin mörg hver yfir skáldlegri fegurð og dýpt. Í gegnum fíngerðan vef hversdagsmyndanna má greina draumhugult ljóðsjálf sem miðlar ljóðrænni kennd. Stundum eru orðin býsna naumt skömmtuð eins og í kvæði sem Óskar nefnir Sjö stirni, eiginlega sjö ofurlitlar ljóðhendingar, fáein orð hver: "vængur í lófa mánans" er ein slík mynd og "ljós til að mála nóttina" önnur eða "skrjáfið í stjörnunum". En kannski hendingarnar sjö myndi einnig heild.

Oft minnir fíngerð myndsköpun Óskars á kínverska og japanska ljóðagerð enda hefur hann fengist við þýðingar á ljóðum Issa og Basho og í ljóðbókinni sendir hann Li Pó hinum kínverska kveðju sína: "Enn kveikja samt orð þín / ölvaðar stjörnur á næturhimnum". Það er t.a.m. hækublær á ljóðinu Næturfrost á Jónsmessu:

Ofurhægt bærast

hélaðir vængir

náttfiðrildanna

Það má lesa margbreytilegar kenndir út úr ljóðunum. Ljóðin tengjast draumum, minningum og stafa frá sér hófstilltri einsemd því að ljóðsjálfið er oftast eitt, ræðir hugboð, þögn, hlustar á ský eða ókennilegt skrjáf í himninum. Jafnvel ástarljóðin tengjast draumum eða minningum eins og þetta fallega kvæði, Nokkrir dagar í október:

Ég man enn

hvernig snjóflyksurnar

sátu í hári þínu

hvernig litur

augna þinna breyttist

hvernig dagarnir breyttust

og gamalkunnar göturnar

sem við gengum tvö

í snjónum

hvíta birtuna sem hrundi

eins og hár þitt

yfir borgina

nokkra daga í október

Það er sannarlega þess virði að setjast niður með þessa litlu ljóðabók. Fíngerð og hófstillt ljóð Óskars eru aðlaðandi og veita okkur innsýn í heim sem er víðáttumeiri en augað nemur.

Skafti Þ. Halldórsson.

Óskar Árni Óskarsson.