7. júní 1996 | Erlendar fréttir | 352 orð

Rannsókn meintra fjöldamorða Serba í Bosníu

Fjöldagröf finnst nálægt Srebrenica

Nova Kasaba. Reuter.

RANNSÓKNARNEFND á vegum stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag hefur fundið fjöldagröf með hjálp bandarískra gervihnattamynda á grösugu engi í austurhluta Bosníu. Talið er að serbneskir hermenn hafi grafið þar allt að 2.700 múslima eftir að hafa tekið þá af lífi.
Rannsókn meintra fjöldamorða Serba í Bosníu Fjöldagröf finnst

nálægt Srebrenica

Nova Kasaba. Reuter.

RANNSÓKNARNEFND á vegum stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag hefur fundið fjöldagröf með hjálp bandarískra gervihnattamynda á grösugu engi í austurhluta Bosníu. Talið er að serbneskir hermenn hafi grafið þar allt að 2.700 múslima eftir að hafa tekið þá af lífi.

Frásagnir múslima, sem lifðu af "þjóðernishreinsanir" Serba, benda til þess að a.m.k. 3.000 manns, aðallega óvopnaðir karlmenn, hafi verið teknir af lífi eftir að Serbar hertóku Srebrenica, sem var þá eitt af "griðasvæðum" Sameinuðu þjóðanna, í júlí 1995. Alls er um 5.000 múslima saknað eftir árásina og talið er að flest fórnarlambanna hafi verið grafin í fjöldagröfum.

Serbar neita því að hafa tekið múslima af lífi eftir árásina. Þeir hafa sagt að í gröfum, sem kynnu að finnast, séu aðeins lík hermanna sem féllu í árásinni.

Madeleine Albright, sendiherra Bandaríkjanna, afhenti öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gervihnattamyndirnar af svæðinu og á þeim sáust merki um grafir á nokkrum stöðum í dal nálægt Srebrenica. Albright sagði að þar kynnu að finnast allt að 2.700 lík.Myndirnar leiddu fimm manna rannsóknarnefnd stríðsglæpadómstólsins að engi nálægt þjóðvegi á yfirráðasvæði Bosníu-Serba á miðvikudag. Nefndarmennirnir fimm grófu skurð, sem var eins metra djúpur, tveggja og hálfs metra breiður og fjögurra metra langur. Þar fundust þegar sex lík og fréttamenn fundu nálykt í 50 metra fjarlægð áður en þeim var leyft að fara að skurðinum.

Tvö líkanna voru með hendur bundnar aftur fyrir bak, annað með vír og hitt með skóreimum. Engin þeirra voru í herbúningum.

Nefndarmenn sögðust vissir um að fleiri lík fyndust í gröfinni og ætla að grafa á fleiri stöðum á enginu.

John Gerns, réttarlæknisfræðingur í nefndinni, sagði að rannsaka þyrfti líkin frekar til að greina dánarorsökina. Engin notuð skotfæri fundust á staðnum en tóm skothylki sáust meðfram veginum skammt frá.

Friðargæsluliðar voru á verði við gröfina. Serbneskir lögreglumenn óku hægt framhjá staðnum með reglulegu millibili og nokkrir bílstjórar létu óánægju sína í ljós með því að þeyta bílflauturnar en enginn reyndi að hindra rannsóknina.Reuter JOHN Gerns, réttarlæknisfræðingur í rannsóknarnefnd á vegum stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna, kannar lík sem fannst í fjöldagröf í austurhluta Bosníu.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.