Bandaríkin: John Tower varð tvísaga Washington. Reuter.

Bandaríkin: John Tower varð tvísaga Washington. Reuter.

JOHN Tower, sem George Bush Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt til embættis varnarmálaráðherra, hefur orðið tvísaga varðandi störf sín sem ráðgjafi breska vopna- og flugvélafyrirtækisins British Aerospace, að því er dagblaðið Los Angeles Times skýrði frá á laugardag.

Tower tjáði hermálanefnd Bandaríkjaþings í síðustu viku að hann hefði starfað fyrir bandarískt systurfyrirtæki British Airospace og að starf hans hefði ekki verið í neinum tengslum við vopn. Í eiðsvörnum, rituðum vitnisburði, er hann hugðist leggja fram við réttarhöld í skilnaðarmáli sínu árið 1987, sagðist hann hins vegar meðal annars hafa aðstoðað British Aerospace við að selja bandaríska varnarmálaráðuneytinu orrustuþotur og flugskeyti, að sögn Los Angeles Times.

Blaðið segir að Tower hafi ekki lagt vitnisburðinn fram við réttarhöldin þar sem hann hafi hætt við skilnaðinn. Bandaríska alríkislögreglan, sem rannsakar fortíð Towers, hafi þó vitnisburðinn undir höndum.

Talsmenn Bandaríkjaforseta og varnarmálaráðuneytisins vildu ekki tjá sig um frétt blaðsins.

Reuter