Milljónir af vöðusel í Norður-Atlantshafi Selurinn gengur suður um vegna offjölgunar og fæðuskorts AUKIN gengd vöðusels og blöðrusels hér við land stafar að öllum líkindum af vaxandi stofnstærð og hugsanlega ætisskorti á hefðbundum slóðum selsins langt...

Milljónir af vöðusel í Norður-Atlantshafi Selurinn gengur suður um vegna offjölgunar og fæðuskorts

AUKIN gengd vöðusels og blöðrusels hér við land stafar að öllum líkindum af vaxandi stofnstærð og hugsanlega ætisskorti á hefðbundum slóðum selsins langt norður af landinu að sögn Erlings Haukssonar, sjávarlíffræðings hjá Hafrannsóknastofnun. Talið er að stofn vöðusels við Norður-Atlantshaf skipti milljónum dýra og þar af sé um hálf milljón norður af Jan Mayen. Ástæða fjölgunar er friðun og síminnkandi veiði Norðmanna, sem á árum áður veiddu tugi þúsunda sela í ísnum fyrir norðan Jan Mayen.

Íslendingar hafa ekkert veitt af þessum tegundum um langt skeið. Við veiðum aðeins landsel og útsel, en báðar tegundirnar kæpa hér við land. Að meðaltali hefur veiði okkar á þessum tegundum verið um 5.000 dýr, en þó mun minna á síðasta ári. Nú fást 25 krónur fyrir hvert kíló af selnum og er hann nýttur í loðdýrafóður.

Erlingur Hauksson sagði í samtali við Morgunblaðið, að áður hefðu Norðmenn tekið tugi þúsunda sela í ísnum norðan við Jan Mayen. Nú hefðu aðeins fimm skútur farið norður. Vegna þess að ekki mætti lengur skilja skrokkana eftir einsog áður, þyrftu skipin að eyða miklu plássi í meltutanka um borð og takmarkaði það burðargetu á skinnum og veiði. Skipin hefði verið á styrk frá norska ríkinu þar sem skinnin væru nánast verðlaus.

"Bæði vöðusels- og blöðrusels stofninn voru vaxandi, áður en botninn datt úr veiðunum, vegna samtaka Kanadamanna, Sovétmanna og Norðmanna um að takmarka veiðar frá því, sem fyrr var á öldinni. Vöðuselir í Norður-At lantshafi skipta nú milljónum. Flestir eru við Kanada og í Barentshafi, en um hálf milljón í ísnum norður af Jan Mayen," sagði Erlingur. "Stofn landsels og útsels hér við land telur aðeins nokkra tugi þúsunda svo þar er mikill munur á."

Erlingur sagði, að selagöngurnar við Noreg kæmu bæði úr Barentshafinu og frá Jan Mayen og stöfuðu af offjölgun og fæðuskorti í kjölfarið. Sókn þeirra hingað væri líklega af sömu orsökum. Hefðbundin gangur mála væri sá að selurinn kæpti á ísnum norður frá. Fengitími hæfist skömmu síðar og færi kópurinn þá, nokkurra vikna gamall, suður og vestur með ísröndinni uns ísinn leysti að áliðnu sumri. Þá héldi hann til baka. Einn og einn kópur flæktist venjulega hingað, en nú væru óvenjumikið um hann. Áður fyrr hefði það ekki þótt tíðindum sæta þó þessar tegundir kæmu í net út af Sléttu, en nýlunda væri að svo gerðist við Grímsey og Höfn í Hornafirði eins og nú væri.