Ólöf S. Magnúsdóttir Sunnudaginn 5. febrúar 1989 barst okkur sú hörmulega frétt, að Ólöf væri dáin. Hvers vegna, af hverju hún, svona ung, aðeins 22 ára gömul. Tilfinning ótta og sársauka fyllir mann, þegar dauðinn kemur svona skyndilega og tekur eina úr hópnum, einmitt í blóma lífsins.

Ólöf var trúlofuð æskuvini mínum og skólabróður, Kristjáni Hjaltested. Leist mér vel á ráðahag vinar míns, eftir fyrstu kynni mín af Ólöfu, og eftir að ég kynnist minni kærustu myndaðist strax traustur og einlægur vinskapur milli þeirra.

Áttum við fjögur margar skemmtilegar stundir saman. Eftirminnilegast er þó ferðalagið sumarið 1987, þegar við fórum í siglingu um Karabíska hafið. Undirbúningur fyrir ferðina hófst snemma sumars. Við hittumst á kvöldin, lögðum á ráðin og gerðum nákvæma ferðaáætlun. Ferðin varð að ævintýri og því ógleymanleg, Ólöf var skemmtileg, hugrökk og þægilegur ferðafélagi. Hún var yndisleg stúlka, sannur vinur og hæfileikarík.

Ólöf var útlærð hárgreiðslumeistari. Hún rak hárgreiðslustofu á Seltjarnarnesi með miklum áhuga og stolti.

Sárt er að kveðja góða vinkonu, en fallegar minningar geymast. Við vottum fjölskyldu hennar og elsku Kidda innilegra samúð og biðjum góðan guð að styrkja þau í sorginni.

Blessuð sé minning hennar.

Ég lifi í Jesú nafni,

í Jesú nafni ég dey,

þó heilsa og líf mér hafni,

hræðist ég dauðann ei.

Dauði, ég óttast eigi

afl þitt né valdið gilt,

í Kristi krafti ég segi:

Kom þú sæll, þá þú vilt.

(Hallgrímur Pétursson)

Lalli og Fanney