Sigurvin Össurarson - Minning Fæddur 28. mars 1907 Dáinn 5. febrúar 1989 Þau voru þung sporin heim í Grænuhlíð frá Landspítalanum sunnudagskvöldið 5. febrúar sl. öll höfðum við vonað að Sigurvin kæmi aftur heim til okkar, en hans tími var kominn. Við á neðri hæðinni vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Sigurvin og fjölskyldu hans þegar við fluttum í húsið fyrir tæpum fimm árum, og varð strax mikill samgangur á milli hæða. "Litlu vinurnar" eins og hann kallaði alltaf dætur mínar voru fljótar að finna þá hjartahlýju og endalausu þolin mæli sem þar var og er fyrir hendi og líður varla sá dagur að ekki sé aðeins skroppið upp. Reyndar eruþeir dagar miklu fleiri, sem lengur er dvalið, því Zíta og Sigurvin hafaverið óþreytandi við að passa "litlar vinur" öll árin. Börnin þeirra þrjú, Benedikt, Anna og Sólveig, hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Sigurvin fékk strax nafnið Abbi þar sem hitt var of erfitt í litlum munni og okkar á milli var hann aldrei kallaður annað. Það var yfirleitt fyrsta verk barnanna á morgnana að athuga hvort búið væri að opna á milli svo hægt væri að fara til Abba og fá rúgbrauð með hunangi, tilreitt á sérstakan hátt sem hvergi var hægtað borða nema hjá honum. Abbi átti líka skrifborð með góðri skúffu þar sem hann geymdi "fóður" handa litlu börnunum og var hann ósjaldan leiddur þangað. Það þótti líka sjálfsagt að fara með alla litla gesti, sem komu, aðeins upp, þarsem vel var tekið á móti og skúffan góða jafnvel opnuð. Þær gleymast aldrei allar stundirnar, sem Abbi sat og las sögur eða söng með þeim alla Vísnabókina eða bara spjallaði um lífið og tilveruna. Ósjaldan var líka farið til hans í leit að huggun ef lífið þótti erfitt. Ferðirnar vestur í Örlygshöfn, sem þau hjón buðu stelpunum með, síðustu sumur, verða ómetanlegar í hugum þeirra, en fyrir vestan dvaldist hugur Abba svo oft. "Mér þykir verst að valda ykkur allri þessari fyrirhöfn," var með því síðasta sem hann sagði og lýsir það honum betur en mörg orð. Hann var sá sem gaf.

Nú þegar Abbi er farinn frá okkur, þökkum við mæðgurnar fyrirað hafa fengið að kynnast honum og njóta vináttu hans. Öll þau andlegu verðmæti, sem hann gaf okkur, verða dýrmætt veganesti í framtíðinni. Það er nú tómlegt í húsinu en við þökkum fyrir að hann þurfti ekki að heyja langa baráttu og huggum okkur við að hann fékk að deyja með þeirri reisn og virðingu sem honum bar.

Bryndís, Edda Kristín, Birna og Ingibjörg.