Í kvöld verður í fyrsta skipti leikið fjórhent á orgel Hallgrímskirkju. Sá heiður hlotnast þeim Janette Fishell og Colin Andrews sem segja í viðtali við Örlyg Sigurjónsson að ákveðið sjónrænt samband geti myndast milli flytjenda og áhorfenda.
Kemst ekki hnífurinn á milli okkarÍ kvöld verður í fyrsta skipti leikið fjórhent á orgel Hallgrímskirkju. Sá heiður hlotnast þeim Janette Fishell og Colin Andrews sem segja í viðtali við Örlyg Sigurjónsson að ákveðið sjónrænt samband geti myndast milli flytjenda og áhorfenda.

FYRSTA verkið á tónleikaröðinni Sumarkvöld við orgelið, sem Janette og Colin leika á í kvöld er Allegro moderato úr þriðja Brandenborgarkonserti Bachs. Bach samdi alls sex slíka konserta og lauk þeim 36 ára gamall, en í dag eru konsertarnir undirstöðuhljómsveitarverk barokktímans. Janette hefur sjálf umritað hluta úr þriðja konsertinum fyrir tvíleik á orgel og lék blaðamanni forvitni á að vita hvort orgel væri ekki of þungt í vöfum til að leika sindrandi léttan Brandenburgarkonsert á það. "Orgel eru mjög mismunandi," segir Janette. "En almennt má segja að orgel sem slíkt sé heil hljómsveit. Á 19. öldinni smíðuðu orgelsmiðir hljóðfæri sín með það fyrir augum að láta þau hljóma sinfónískt, en fyrr á tímum voru þau smíðuð til að þjóna barokkinu. Bach sjálfur umritaði t.d. fjóra Vivaldi- konserta fyrir orgel, en þau voru nokkuð ólík seinni tíma orgelum," segir Janette. Bóndi hennar bætir við að þess vegna séu einmitt ýmis orgel í dómkirkjum í Englandi fullmiklir silakeppir fyrir verk á borð við Brandenborgarkonsertinn. "Orgel frá því þegar rómantíska stefnan var í algleymingi hafa of þykka röddun til að skila léttleika Barokksins. Orgelinu hér í Hallgrímskirkju svipar hinsvegar í grundavallaratriðum mun frekar til þeirra klassísku hljóðfæra sem voru notuð á dögum Bachs," segir Colin.

Hendurnar í kross

Þau segja að orgeldúettar séu frekar sjaldgæfir í heiminum, en þó hafi þeim fjölgað nokkuð á síðustu tveimur áratugum. "Þegar við kynntumst og ákváðum að fara spila saman, könnuðum við það sem hinir dúettarnir voru með á sinni efnisskrá og til að auðkenna okkur frá þeim fórum við að útbúa okkar eigin umritanir á hljómsveitarverkum og við sáum fljótt að áheyrendur kunnu vel að meta það í bland við gömlu góðu orgelverkin," segir Janette. Hún segir að kosturinn við að umrita hljómsveitarverk fyrir tvo orgelleikara sé einkum sá að ekki þurfi að sleppa eins miklu og þegar umritað er fyrir einn orgelleikara. Það hlýtur þó að ganga öll ósköpin á þegar tveir orgelleikarar ætla sér að skila heilu hljómsveitarverki án þess að sleppa einni nótu. Þessi athugasemd kemur þeim hjónum ekki á óvart því þau segja að á tónleikum stundi þau nánast leikfimisæfingar. "Við erum stundum komin í kross með hendurnar þegar laglínur okkar skarast og ekki má gleyma því að fótaspilið getur orðið býsna fjörlegt, þannig að það skapast ákveðið sjónrænt samband við áhorfendur," segir Colin. Þau segjast finna fyrir áhuga sumra tónleikagesta einmitt út af öllu þessu brölti, en það er einungis óhjákvæmileg afleiðing sem þau geta ekki breytt.

Orgelið vel þekkt erlendis

Þau hjónin eiga glæsilegan feril að baki þó ung séu að árum og auk þess að kenna og þeytast um heiminn til tónleikahalds hefur Janette sinnt vísindastörfum á sviði tónbókmenntanna fyrir utan umritanir á tónverkum. Þau hafa því góða yfirsýn á hið listræna alheimskort og því eru þau spurð hversu vel Ísland sjáist á því. "það hefur verið skrifað mjög mikið um Sumarkvöld við orgelið í nokkrum enskum blöðum og ég las stærðargrein um Hallgrímskirkju þar sem fjallað var um hversu óhemjugott orgelið væri í henni. Einnig veit ég um þrjá geisladiska sem voru teknir upp hér og gefnir út í Englandi þannig að allir þeir sem eitthvað fylgjast með, vita að hér frábært hljóðfæri," segir Colin.

Að lokum eru þau spurð hvaða áhrif það hafi á hjónabandið að vera saman í vinnunni. "Kosturinn er sá að það kemst ekki hnífur á milli okkar þegar við sitjum á orgelbekknum," ." segir Janette að lokum.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og á efnisskránni er auk Brandenborgarkonsertsins, Bacchanale úr Samson og Delilah opus 47 eftir Saint Saëns, arabískur dans og Mars úr Hnetubrjótnum opus 71 eftir Tsjaikovsky, en þessi verk eru umrituð fyrir tvíleik á orgel. Einleiksverkin eru prelúdía og fúga í H-dúr op. 7 nr. 1 eftir Marcel Dupré, The Peace may be exchanged og The people respond-Amen úr Rubrik eftir Dan Locklair, Chimaera úr 3. Orgelbókinni eftir William Albright, tokkata og fúga í G-dúr eftir Hubert Parry, prelúdía og fúga í G-dúr og Herr Gott nun achleuss den Himmel auf eftir Bach.

"ÞAÐ hefur verið skrifað heilmikið í blöð erlendis um Hallgrímskirkju og og þetta frábæra orgel sem er hér," segja þau Janette Fishell og Colin Andrews. Morgunblaðið/Þorkell