SIGURÐUR er norrænt nafn, fornt og frægt úr ýmsum áttum, afskaplega algengt bæði með Norðmönnum og Íslendingum. Það er eitt hinna fjölmörgu mannanafna sem merkja hermaður. Síðari hlutinn er með einhverjum hætti orðinn til úr varður eða vörður, það er sams konar viðliður og í kvennaheitum sem enda á vör, eins og Ásvör og Hervör.
ÍSLENSK MANNANÖFN IISIGURÐUR

OG ÓLAFUR

EFTIR GÍSLA JÓNSSONÍ Landnámu eru nefndir 19 Sigurðar, enda er það norrænt nafn, og 1950 er nafnið það þriðja algengasta. Í Sturlungu eru nefndir 45 Ólafar, en í skírnarárganginum 1985 er nafnið í 10.-11. sæti.IV. Sigurður

SIGURÐUR er norrænt nafn, fornt og frægt úr ýmsum áttum, afskaplega algengt bæði með Norðmönnum og Íslendingum. Það er eitt hinna fjölmörgu mannanafna sem merkja hermaður. Síðari hlutinn er með einhverjum hætti orðinn til úr varður eða vörður, það er sams konar viðliður og í kvennaheitum sem enda á vör, eins og Ásvör og Hervör.

Varður eða vörður í Sigurður merkir sem sagt varinn eða verndaður, og þar með er Sigurður auðvitað sá sem er verndaður í orustu, sigursæll, og ekkert líklegra en heilladís hans í orustunni, valkyrjan, héti Sigríður eða Sigrún. Valkyrjan er valkyrja af því að hún kýs þá sem í val falla.

Margir voru þeir frægðarmenn sem báru Sigurðarnafn, oft með einhverju viðurnefni, Sigurður fótur, Sigurður þögli, Sigurður hringur, Sigurður ormur í auga. Allir voru þeir þó börn hjá Boga, það er að segja Sigurði Fáfnisbana sem vá að ormi og reið vafurloga sem andrúmsloft.

Í ættum Noregsjöfra voru margir Sigurðar. Sonur Haralds hárfagra, einn af svo sem 20, var Sigurður hrísi, sonarsonur Haralds var Sigurður slefa Eiríksson; þá var af Haraldi kominn Sigurður sýr, stjúpfaðir Ólafs helga. Ekki má gleyma Sigurði Magnússyni berfætts sem komst alla leið til Jerúsalemsborgar og var kallaður Jórsalafari. Enn var Sigurður slembidjákn, en um ætt hans var meiri óvissa, og Sigurður Hlaðajarl Hákonarson.

Í Landnámu eru nefndir 19 Sigurðar, og í Sturlungu 39, þeirra á meðal stórhöfðinginn Sigurður Ormsson á Svínafelli, dáinn 1235.

Erlendis var til hliðarmynd nafnsins Sigurður ­ Sigvarður ­, og er það nær upprunanum, eins og ég lýsti. Hér var norskur byskup í Skálholti, Sigvarður Þéttmarsson; dó 1268.

Nærri má geta af framansögðu að Sigurður væri hetjan í mörgum rímum sem Íslendingar kváðu, og voru menn ólatir að nefna börn sín eftir þess konar fólki.

Árið 1703 hétu Sigurður 866 Íslendingar. Það var þá fjórða algengasta karlheitið á eftir Jóni, Guðmundi og Bjarna, 3,7 af hundraði. Tæpri öld síðar hafði fjölgað í ríflega þúsund, þótt landsfólki fækkaði í heild í hörmungum 18. aldar. Þá var sýslumaður í Kjósarsýslu Sigurður Pétursson sem kalla má upphafsmann íslenskrar leikritagerðar með verkum sínum Hrólfi og Narfa, og orti smellnar gamanvísur. Í manntali 1845 eru Sigurðar 1428, þar af sjö að síðara nafni, og kemur betur að tvínefnasið síðar. Inn í þetta allsherjarmanntal 1845 rétt slapp Sigurður Eiríksson Breiðfjörð, þá í Reykjavík og ekki vel haldinn. Var víða aufúsugestur meðan hann var upp á sitt betra, og þess konar skáld að menn lærðu ljóð hans og dáðu. Bæði 1801 og 1845 var Sigurður í 3. sæti karla.

Þegar fram kemur á okkar öld, er lengi vel ekkert lát á Sigurði. Árið 1910 bera Sigurðarnafn 2098, nafnið enn í 3. sæti og hundraðstalan 5,2. Þá hafði gert garðinn frægan og var löngu látinn Sigurður Guðmundsson málari, en einmitt þetta ár, 1910, lauk prófi frá Hafnarháskóla alnafni hans sem átti eftir að vera skólameistari á Akureyri við mikinn veg og átti m. a. þátt í því, að Sigurður Líndal Pálsson varð þar enskukennari nafntogaður.

Árin 1921-1950 er Sigurður enn í sama sæti og 1910, og í þjóðskrá 1982 eru 4821, og Sigurður kominn í 2. sæti, upp fyrir Guðmund. Því sæti heldur Sigurður í árganginum 1960, en hefur síðari áratugi sigið ofan í 6.-7.

Fyrsti bóndi, sem hófst í ráðherrastól á Íslandi, var Sigurður Jónsson í Ystafelli. Með honum var ráðherra um hríð Sigurður Eggerz, seinna forsætisráðherra, sýslumaður og skáld eins og Sigurður Pétursson. Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti var meðal höfuðskálda nýrómantísku stefnunnar, en sr. Sigurður Einarsson orti í annarri tóntegund eða öllu heldur öðrum tóntegundum. Af þeim, sem bæði voru skáld og vísindamenn, ber hvað hæst Sigurð Þórarinsson og Sigurð Nordal.

V. Ólafur

Upp undir hvelfing Helgafells

hlýlegum geislum stafar

frænda sem þangað fóru í kveld,

fagna hans liðnir afar.

(Jón Helgason: Áfangar.) Svo er talið, að til hafi verið með foreldrum okkar í fyrndinni forfeðra- eða áadýrkun. Varla er reginmunur á henni og frumstæðri guðatrú. Fólk var sífellt í nafngiftum barna sinna að fela þau guði sínum eða goðum.

Í nafninu Ólafur þykir sumum skýrendum kenna áadýrkunar. Eldri mynd nafnsins var Áleifur, fornensku Anlaf, sem sjá má á gömlum peningum. Reyndar finnst mér nafnið slapplega þýtt í ýmsum bókum; stendur þá arftaki eða eftirkomandi forfeðranna. En hver er það ekki? Og ég held að svo vinsælt nafn hafi haft hvassari merkingu. Enginn dregur í efa að lafur í Ólafur sé hliðarmynd eða veikluð mynd af leifur, í 1. hljóðskiptaröð við líf og lifa. Segjum þá að Áleifur hafi merkt þann sem líf áanna átti að taka sér bólstað í, og lifðu þeir svo áfram. En vel má hugsa sér aðra skýringu á forliðnum. Til var áhersluforskeytið á, svo sem í ágætur, ákafur, og ámáttugur. Áleifur, nú Ólafur, gæti því merkt: sá sem á að lifa löngu og ágætu lífi. Væri það bærileg merking.

Má ég skjóta hér inn fornu dæmi um nafnbrigði sem útlendingar nefna varíasjón. Leifur Herleifsson Danakonungur átti sex syni: Herleifur, Húnleifur, Áleifur, Oddleifur, Geirleifur og Gunnleifur.

Ólafur varð snemma mikið nafn í stórættum Norður-Evrópu. Ólafur Skotakonungur var við völd á dögum Egils Skalla-Grímssonar. Ólafur sænski Svíakonungur barðist við nafna sinn Ólaf (I.) Tryggvason Noregskonung við Svoldur, Ólafur hungur (I.) Danakonungur ríkti á hallæristíma miklum á 11. öld, og Ólafur digri (eða helgi II.) Noregskonungur á sömu öld, höfuðdýrlingur Norðurlanda; bróðursonur hans var Ólafur kyrri (III.) Haraldsson, friðsamur, drykkfelldur og glaður við öl, og var þá ár mikið í Noregi. Nýdáinn er svo Ólafur sá sem allra mesta hylli hlaut frænda okkar, Ólafur (V.) Hákonarson.

Í Sturlungu eru nefndir 45 Ólafar, en frægastur fornra Íslendinga með Ólafsnafni mun Ólafur pá(i), Höskuldsson, dóttursonur Egils Skalla-Grímssonar og mun fríðari afa sínum. Mikill snillingur, skáld og lærdómsmaður, var á Sturlungaöld Ólafur Þórðarson hvítaskáld, bróðursonur Snorra Sturlusonar, lögsögumaður einnig.

Áður en farið væri að telja Íslendinga vandlega, voru uppi sr. Ólafur Guðmundsson á Sauðanesi, höfuðskáld Guðbrands biskups, og orti lærdómsvísur: Ap, jún, sept, nóv, þrjátíu hver, sem allir kunna og

Tólf eru á ári tunglin greið,

til ber að þrettán renni.

Sólin gengur sína leið,

svo sem guð bauð henni.

Þetta er nú heldur notaleg stjörnufræði.

"Sr. Ólafur á Söndum/sálma og vísur kvað," orti sr. Stefán í Vallanesi, og satt var það:

Eitt sinn fór ég yfir Rín

á laufblaði einnar lilju,

lítil var ferjan mín,

og má vera að Ólafur Jóhann Sigurðsson hafi kunnað þetta, er hann nefndi ljóðabók sína Að laufferjum. Og svo var sr. Ólafur Einarsson skáld í Kirkjubæ í Hróarstungu, sonur sr. Einars í Eydölum, og faðir sr. Stefáns í Vallanesi sem var enn betra skáld en faðirinn.

Í manntalinu margnefnda 1703 ­ þá mun hafa verið dauður sá Ólafur muður sem ætlaði suður ­ voru Ólafar 797, nafnið í 5. sæti karla, 3,5%. Tæpri öld síðar var nafnið komið í fjórða sæti. Þá var Ólafur Stefánsson stiftamtmaður yfir Íslandi, eini Íslendingur sem Danir trúðu fyrir svo háu embætti. Hann átti Sigríði Magnúsdóttur Gíslasonar amtmanns. Ólafur stiftamtmaður var faðir Magnúsar yfirdómara. Síðan skipaði Ólafur 4. eða 5. sæti karla langa hríð, og prósentutalan var á milli þriggja og fjögurra. Árið 1910 var Ólafur t.d. enn í 4. sæti.

Í stuttnefnatískunni núna hefur þetta þriggja atkvæða nafn heldur sigið ofan, og þó ekki svo mjög, það er í 6. sæti í þjóðskránni 1982 með 2,7% ­ að vísu ekki nema í 10.-11. sæti í skírnarárganginum 1985.

Ekki skortir okkur ágæta Ólafa á þessari öld. Ólafur Davíðsson var náttúrufræðingur og þjóðsagnasafnari, Ólafur Friðriksson brautryðjandi jafnaðarmanna, Ólafur Thors og Ólafur Jóhannesson flokksleiðtogar og forsætisráðherrar.Höfundur er fyrrverandi menntaskólakennari á Akureyri.

TEIKNING Örlygs Sigurðssonar listmálara af eigin skírn. Það er faðirinn, Sigurður skólameistari, sem heldur barninu undir skírn, en presturinn er séra Magnús Helgason frá Birtingaholti.