FRANZ Berwald er almennt viðurkenndur sem mesta tónskáld Svía, ekki síst nú um stundir, en 200 ára afmæli hans er 23. júlí næstkomandi. Samlandar hans og samtímamenn hans áttu þó erfitt með að meta hann að verðleikum og svo fór að ævistarf hans varð að stórum hluta annað en tónsmíðar.
MISSKILINN SNILLINGUR Fremsta tónskáld Svía er almennt talið Franz Berwald, að minnsta kosti nú er 200 ára afmæli hans nálgast. ÁRNI MATTHÍASSON kynnti sér ævi þessa merka tónskálds, sem framfleytti sér með bæklunarlækningum og glervinnslu, því landar Berwalds höfðu ýmigust á tónsmíðum hans. FRANZ Berwald er almennt viður kenndur sem mesta tónskáld Svía, ekki síst nú um stundir, en 200 ára afmæli hans er 23. júlí næstkomandi. Samlandar hans og samtímamenn hans áttu þó erfitt með að meta hann að verðleikum og svo fór að ævistarf hans varð að stórum hluta annað en tónsmíðar. Hann naut virðingar í Austurríki og víðar meðal þýskumælandi þjóða, hlotnaðist sá einstaki heiður að vera kjörinn í Salzburg Mozarteum, en Svíar vildu lítið með hann hafa, og það var ekki fyrr en skömmu fyrir andlátið að hann fékk sæmandi kennarastöðu eftir að hafa framfleytt sér og fjölskyldu fyrst með bæklunarlækningum og síðar sem framkvæmdastjóri glerverksmiðju. Franz Berwald var af þýsku bergi brotinn, fæddur í Stokkhólmi 23. júlí 1796. Þrátt fyrir augljósa tónlistarhæfileika fékk hann litla tilsögn, lærði þó á fiðlu hjá föður sínum, og starfaði við fiðluleik, var meðal annars í hallarhljómsveit konungshirðarinnar. Hann virðist hafa byrjað að semja tónlist um líkt leyti og sennilegt að hann hafi fengið tilsögn í tónsmíðum hjá stjórnanda hljómsveitarinnar, J.B.E. Dupuy. Fyrsta eiginlega tónverk Berwalds sem spurnir fara af er hljómsveitarsvíta sem hann skrifar um í bréfi 1817, en hún er glötuð. Á næstu árum fór hann að semja af krafti og fékk ýmis verkefni, meðal annars kantötur fyrir konunglegar hátíðir. Þrátt fyrir það fengu verk hans dræmar undirtektir gagnrýnenda, sem helst kvörtuðu yfir frumleika þeirra, þau væru of erfið áheyrnar og ekki nóg um ljúfar laglínur, og umsókn hans um ferðastyrk að leita sér frekari menntunar var hafnað. Berwald lagði þó ekki árar í bát og hélt þeirri sannfæringu sinni að hann væri snilldar tónskáld alla ævi; árið 1829 lét hann að því liggja að ópera hans Lenonide myndi koma öllum til að gleyma Fidelio Beethovens. Slík framkoma var ekki vel til þess fallin að koma honum í mjúkinn hjá leiðandi listamönnum Svíþjóðar og þegar Berwald fékk loks farareyri þóttist hann heppinn að sleppa úr sveitaþorpinu Stokkhólmi. Til Berlínar að semja óperur Berwald hélt til Berlínar að semja óperur, aukinheldur sem honum tókst að komast upp á kant við Mendelssohn. Ekki fengu óperurnar betri viðtökur en fyrri verk og á endanum stofnaði Berwald bæklunarlækningastofnun sem byggðist á hugmyndum færustu vísindamanna sem hann endurbætti, enda hafði hann sannfærst um gagnsemi líkamsæfinga við bæklunarlækningar. Berwald þótti hrokafullur og stirfinn þegar tónlist var annars vegar, en hann kom fram við sjúklinga sína af kurteisi og tillitssemi, veitti fátækum ókeypis læknishjálp og ávann sér virðingu og traust læknismenntaðra fyrir gagnsemi lækningaaðferða sinna. Stofnunin náði mikilli hylli og góðum árangri. Eftir sex ára velgengni seldi Berwald stofnunina, fluttist til Vínar og hóf að semja af kappi. Þar var honum vel tekið og vinsamlegar móttökur gagnrýnenda urðu til þess að hann ákvað að snúa aftur til Svíþjóðar 1842. Landar hans voru þó ekki á sama máli, ef eitthvað voru þeir kuldalegri en forðum. Fyrsta sinfónían, Sinfonie sérieuse, sem er meðal helstu verka Berwalds, þótti Stokkhólmsbúum ekki merkileg tónsmíð og óperan Modehandlerskan, sem frumflutt var 1845, kolféll. Á næstu árum lagði Berwald land undir fót, ferðaðist meðal annars til Parísar, Vínar og Salzborgar, þar sem hann var valinn í Mozarteum eins og áður er getið. 1849 sneri hann enn aftur til Svíþjóðar en hlaut ekki þá stöðu sem hann hafði vænst sem tónlistarstjóri við Uppsalaháskóla. Framkvæmdastjóri glerverksmiðju 1850 réðst Berwald sem framkvæmdastjóri glerverksmiðju og keypti á endanum hlut í verksmiðjunni, aukinheldur sem hann hleypti af stokkunum sögunarmyllu. Honum gafst ágætur tími til tónsmíða þar sem hann dvaldi í Stokkhólmi yfir veturna og samdi meðal annars píanóverk sem hann tileinkaði Liszt, en þeim varð vel til vina og Liszt stappaði í hann stálinu við tónsmíðarnar. Ekki var öll þessi iðja Berwalds nóg, því hann vildi siða landa sína og skrifaði mikið í blöð og timarit um ýmisleg mál. Hann hætti störfum við glervinnslu 1862, en fékkst við ýmisleg viðskipti. Samtímis gerði hann ýmsar tilraunir til að komast að við sænsku akademíuna og tókst það á endanum, eftir að hafa verið hafnað nokkrum sinnum. Þegar staða prófessors í tónsmíðum losnaði við sænsku akademíuna 1867 sótti hann um en fékk ekki, í hans stað var ráðinn maður sem hafði sambönd á réttum stöðum. Þetta þótti mikið hneyksli, svo mikið reyndar að sá var rekinn aftur og Berwald boðin staðan. Ekki var seinna vænna að hann fengi einhverja viðurkenningu því ári síðar var hann allur. Persónulegur stíll Eftir andlát Berwalds féllu verk hans í gleymsku að mestu leyti og það var ekki fyrr en í upphafi þessarar aldar að þau hafa komist á tónleikadagskrár sænskra hljómsveita, og reyndar hljómsveita víða um heim. Fyrstu verk hans þykja undir sterkum áhrifum frá Spohr, Hummel og Beethoven, en snemma bar á persónulegum stíl og margir samtímamenn hans áttu erfitt með að kyngja nýjungum hans og dirfsku, til að mynda í C moll fiðlukonsert hans. Þannig óskaði gagnrýnandi þýsks tónlistartímarits þess, eftir að hafa heyrt frumflutning á septett Berwalds, að tónskáldið unga, sem væri vissulega hæfileikaríkt, myndi kynna sér betur reglur og lögmál samhljóms og tónsmíða. Berwald samdi fjórar sinfóníur og þær eru helstu verk hans. Allar eru þær samdar á fimmta áratug síðustu aldar, en sú fremsta þeirra er almennt talin Sinfonie singuliére. Ýmsar upptökur eru til af verkum Berwalds, og fer eðlilega fjölgandi á afmælisári. Besta kynning á Berwald er líklega diskar í Matrix-útgáfuröð EMI, en þar flytja Konunglega fílhamóníusveitin og ýmsir einleikarar ýmis verk undir stjórn Ulfs Björlins, þar á meðal sinfóníurnar Sinfonie naive og Sinfonie capricieuse, áðurnefndan fiðlukonsert og eina píanókonsert Berwalds, forleiki og fl. Marco Polo hefur gefið út prýðilegar upptökur á píanótríóum Berwalds á tveimur diskum, en þau eru um margt skemmtilegar tónsmíðar og sérstakar. Fyrir stuttu kom síðan út fyrirtaks útgáfa á sinfóníunum fjórum og hluta úr einni að auki á tveimur diskum, en tveir helstu forleikir Berwalds fylgja með. Hyperion gefur út, sænska útvarpshljómsveitin leikur undir stjórn Roys Goodmans. Einnig hefur Hyperion gefið út disk með kvartett, píanótríói og áðurnefndum septett í flutningi Gaudier hljóðfæraflokksins með hinn geysisnjalla fiðluleikara Marieku Blankestijjn fremsta meðal jafningja. FRANZ Adolf Berwald