SAMKVÆMT þjóðminjalögum er hlutverk menningarsögulegra safna m.a. að safna, rannsaka, skrá og sýna minjar og gripi sem tengjast menningarsögu okkar. Tilgangur með þessu starfi safnanna er að afla og safna fróðleik um menningarsögu okkar og minjum um hana sem geta miðlað þekkingu til komandi kynslóða.

MENNINGARMINJAR OG ATVINNUMÁL

EFTIR HJÖRLEIF STEFÁNSSON

Menningarverðmæti geta orðið hagnýt, enda er ferðaþjónusta sú atvinnugrein hér á landi sem mestar vonir eru bundnar við. Ferðamenn vilja ekki aðeins kynnast íslenskri náttúru, heldur menningu landsins og menningarminjum.

SAMKVÆMT þjóðminjalögum er hlutverk menningarsögulegra safna m.a. að safna, rannsaka, skrá og sýna minjar og gripi sem tengjast menningarsögu okkar. Tilgangur með þessu starfi safnanna er að afla og safna fróðleik um menningar sögu okkar og minjum um hana sem geta miðlað þekkingu til komandi kynslóða. Hefðbundinn skilningur á slíku starfi mótast af því að það hafi tilgang í sjálfu sér. Minni áhersla hefur verið lögð á þann ávinning sem starf að varðveislu menningarminja getur gefið af sér með því að glæða ferðamennsku og atvinnulíf sem henni tengist.

Þetta er þó auðvitað einföldun á veruleikanum því víða hefur starfsemi byggðasafna eflst mjög á undanförnum árum og skýringuna á þeim viðgangi er m.a. að finna í því aðdráttarafli sem byggðasöfnin hafa á ferðamenn. Þess má einnig sjá merki að starfsemi byggðasafna er að breytast nokkuð frá því sem verið hefur. Segja má að Byggðasafn Vestfjarða hafi mótað þá stefnu að koma upp dreifðum sýningum á munum sínum. Safnið hefur komið upp lítilli sýningu í Vigur, annarri á Flateyri. Tvær aðrar eru væntanlegar, önnur á Þingeyri og hin á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Á Minjasafninu á Akureyri eru svipaðar hugmyndir í mótun. Rætt er um að koma upp sýningu um hákarlaútgerð í Hrísey og hugmyndir hafa verið viðraðar um sýningu um vélbátaútgerð á Grenivík.

Byggðasafn Skagfirðinga í Glaumbæ er einnig byrjað að dreifa starfsemi sinni að heita má. Það hefur komið upp sýningu í pakkhúsi á Hofsósi og á Vindheimamelum og vinnur nú að enn einni fastri sýningu um vesturferðir Íslendinga í gömlu verslunarhúsi á Hofsósi.

Þessi áherslubreyting frá þeim tíma þegar söfnin kepptust við að draga að sér muni verður einkum rakin til almennari áhuga á menningarminjum og "hagnýtum" notum þeirra í ferðaþjónustu.

Áhugi á "hagnýtri" notkun menningarverðmæta af þessu tagi er víða fyrir hendi, enda flestum mönnum orðið ljóst að ferðaþjónusta er sú atvinnugrein hér á landi sem einna mestar vonir eru bundnar við. Fram til þessa hefur ferðamönnum einkum verði beint að náttúru landsins og nú hefur það komið í ljós að umferð um suma af fjölsóttustu ferðamannastöðunum er of mikil svo að spjöll hljótast af.

Ljóst er að áhugi erlendra ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands er ekki svo mjög frábrugðinn áhuga innlendra ferðamanna. Báðir vilja sjá og kynnast Íslenskri náttúru, einkum náttúruperlum, menningu og menningarminjum. Til skamms tíma trúðu menn því að óhætt væri að leyfa ferðamönnum að fara um landið og skoða það sem á vegi þeirra yrði ­ að óhætt væri að beina þeim að náttúruperlunum í þeim mæli sem þeir vildu koma. Nú sjá menn að þetta gengur ekki lengur. Jafnvel náttúruskoðun ferðamanna krefst undirbúnings og fjárfestinga í mannvirkjum.

Menningarminjar eru flestar þess eðlis að grundvallarþekkingu þarf til þess að skilja þær. Minjarnar sjálfar þurfa að verða aðgengilegar og upplýsingar um þær þurfa einnig að vera aðgengilegar. Til þess að hægt sé að nýta menningarminjar til eflingar ferðamennsku þarf fyrst að skipuleggja og framkvæma. Þær verða sjaldnast nýttar eins og náttúruperlurnar ­ eins og þær koma fyrir hér og nú. Menningarminjar þarf oftast að rannsaka, skrá, lagfæra, verja skemmdum og búa umhverfi þeirra þannig úr garði að ferðamenn fái notið þeirra.

Sveitarfélög, áhugamannasamtök og einstaklingar hafa í auknum mæli sýnt varðveislu og verndun menningarminja áhuga og allmörg dæmi má nefna um hagnýtingu menningarminja af þeim toga sem hér er til umræðu:

1. Árið 1991 var ráðist í endurbyggingu Viktoríuhúss í Vigur, sem er friðað hús frá því um 1860 og var í eigu bændanna í Vigur. Húsið hafði staðið autt og ónotað um hríð og sýnt þótti að það yrði að víkja fyrir nýju húsi sem bændurnir töldu brýnt að reisa til móttöku ferðamanna. Samkomulag varð milli bændanna annars vegar og þjóðminjavarðar og húsafriðunarnefndar hins vegar, um að Þjóðminjasafnið tæki við Viktoríuhúsinu til eignar og húsafriðunarsjóður myndi kosta viðgerð á því. Bændurnir skyldu fá heimild til þess að byggja við það samkvæmt teikningu sem húsafriðunarnefnd léti þeim í té. Þeir skyldu síðan fá afnot af Viktoríuhúsinu til að taka þar á móti ferðamönnum og veita þeim beina.

Þegar viðgerðinni var lokið og nýbyggingin risin var komið fyrir lítilli sýningu í Viktoríuhúsinu á munum sem borist höfðu Byggðasafni Vestfjarða og upprunnir voru úr Vigur, þar á meðal úr Viktoríuhúsi. Viktoríuhúsið með þeim munum sem þar eru til sýnis er nú hluti af aðdráttarafli eyjarinnar og stuðlar að því að laða að ferðamenn.

2. Á Þingeyri hefur verið ráðist í endurbyggingu og viðgerð á gömlu pakkhúsi frá seinni hluta 18. aldar, sem komið var að falli. Sveitarfélagið réðst í viðgerð hússins öðrum þræði gagngert til þess að beina þangað ferðamönnum, veita þeim upplýsingar um héraðið. Byggðasafn Vestfjarða mun koma þar fyrir sýningu á munum sem því hafa borist frá Dýrafirði.

3. Á Blönduósi hefur sveitarfélagið ráðist í viðgerð elsta húss bæjarins, pakkhúss frá því 1877. Þangað verður ferðamönnum beint til þess að sýna þeim minjar um sögu staðarins og minjar um upphaf verslunar á Blönduósi.

4. Eftir að Þjóðminjasafn Íslands hafði unnið að viðgerð gamla pakkhússins á Hofsósi í nokkur ár ákvað sveitarstjórnin að leggja fram fé til verksins svo hægt yrði að ljúka því á skömmum tíma. Jafnframt var ákveðið að sveitarfélagið fengi húsið til afnota til að beina þangað ferðamönnum sem vildu fræðast um sögu héraðsins. Í samvinnu við Byggðasafnið í Glaumbæ var sett upp sýning um nytjar af Drangey, bjargsig og fuglaveiðar.

5. Einkaaðilar í ferðaþjónustu í Skagafirði hafa ráðist í endurbætur á gamla kaupfélagshúsinu á Hofsósi og fengið Byggðasafn Skagfirðinga til liðs við sig til að setja upp sýningu um vesturferðir Íslendinga á öldinni sem leið. Jafnframt verður komið á laggirnar ættfræðiþjónustu fyrir afkomendur vesturfara sem leita uppruna síns.

6. Félag áhugamanna um minjasafn á Siglufirði hefur um nokkur ár unnið að endurbyggingu Roaldsbrakka, sem er stórt sídarútgerðarhús frá árinu 1907 með bryggju á þrjá vegu. Þar hefur verið komið fyrir sýningu á munum frá síldarárunum svokölluðu og ferðamönnum er boðið upp á "síldarævintýri" með síldarsöltun og skemmtunum.

7. Á vegum Minjasafnins á Akureyri er hafinn undirbúningur að rannsóknum á Gásakaupstað í því skyni að afla þekkingar um staðinn og jafnframt kynna hann ferðamönnum og glæða þannig ferðamennsku í Eyjafirði. Í skýrslu um upphaf rannsóknanna er m.a. fjallað um íslenska menningarsögu og fornleifar sem vannýtta auðlind.

8. Í Hrísey er hafinn undirbúningur að því að gera við elsta hús staðarins, gamla Syðstabæjarhúsið. Ráðgert er að Minjasafnið á Akureyri setji þar upp sýningu á minjum um hákarlaútgerð á Eyjafirði sem stóð með miklum blóma á seinni hluta 19. aldar. Húsinu er jafnframt ætlað að verða miðstöð ferðamanna sem leggja leið sína til eyjarinnar.

9. Árið 1991 var hafin viðgerð á gamla prestsetrinu á Sauðanesi á Langanesi, sem er merkilegt steinhlaðið íbúðarhús frá því um 1879. Frumkvæði að verkinu átti Þjóðminjasafn Íslands, en Þórshafnarhreppur og Svalbarðshreppur lögðu verkinu lið. Tilgangurinn er bæði sá að bjarga þeim menningarverðmætum sem í húsinu eru og einnig að skapa áhugaverðan stað til að beina ferðamönnum á.

10. Djúpavogshreppur vinnur að því að gera við Löngubúð, elsta hús staðarins, til að hafa af því margháttuð not sem öll tengjast ferðamannaþjónustu. Þar verður komið upp safni um líf og starf Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara og þar verður miðstöð handverkshóps sem býr einkum til muni sem ætlaðir eru til að selja ferðamönnum.

11. Ekki er á neinn hallað þótt fullyrt sé að ekkert byggðasafn á Íslandi hafi vaxið jafn mikið á undanförnum árum og Byggðasafnið í Skógum. Þangað koma fleiri ferðamenn en í nokkuð annað byggðasafn. Þangað hafa verið flutt gömul hús úr sveitunum, sem ekki varð bjargað með öðru móti og nýlega tók safnið í notkun nýtt og glæsilegt sýningarhús. Velgengni safnsins helgast meðal annars af þekkingu og dugnaði forstöðumanns þess og auk þess sérstökum persónuleika hans.

12. Byggðasafn Árnesinga opnaði í fyrra nýja sýningu í Húsinu á Eyrarbakka. Fyrir fjórum árum tók Þjóðminjasafn Íslands við Húsinu á Eyrarbakka og þá var jafnframt ákveðið að nota húsið til að örva komu ferðamanna til staðarins.

Vafalítið mætti tína til fleiri dæmi þess að ráðist er í varðveislu menningarminja til þess að glæða ferðamannaþjónustu, en þessi upptalning gefur þó til kynna að nokkur hreyfing er komin á þessi mál. Þegar litið er yfir dæmin hér að framan má sjá að í flestum tilvikum er um að ræða varðveislu gamals, friðaðs húss sem ákveðið er að nota til móttöku og fræðslu ferðamanna. Enn sem komið er hefur aðeins verið nefnt eitt dæmi um fornleifar sem gerðar verða aðgengilegar og auðlesnar til að glæða ferðamennsku, þ.e. gamli Gásakaupstaður. Þar er reyndar um hugmynd að ræða sem ekki hefur enn verið ákveðið að framkvæma.

Einnig er ljóst að flest ef ekki öll dæmin hér að framan eru einstök ef svo má segja. Þau eru ekki liður í heildaráætlun fyrir landið eða viðkomandi hérað.

Hagnýting menningarminja ------ menningarsöguleg ferðamennska

Til að nýta þá auðlind sem íslensk menningarsaga og menningarminjar eru til að glæða ferðamennsku þarf helst að beita skipulagningu.

Hverjar eru menningarminjar okkar og hverjar þeirra eru þeirri náttúru búnar að geta orðið að vinsælum ferðamannastöðum?

Þessum spurningum verður ekki auðveldlega svarað til hlítar. Íslenska safnamenn hefur lengi dreymt um að skrá sem ítarlegast fornminjar á landinu öllu. Nokkrar atrennur hafa verið gerðar að því verki. Á öldinni sem leið var gert mikið átak í skráningu fornleifa og síðar hefur einnig töluverðum fróðleik hefur verið safnað. Á undanförnum áratug hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að hefja myndarlega fornleifaskráningu á landinu öllu og margir fræðimenn hafa rætt og deilt um það hvernig verkið skuli unnið. Minna hefur orðið úr framkvæmdum. Þjóðminjasafn Íslands hefur nýlega hafið undirbúning að átaki í fornleifaskráningu.

Fornleifar hafa þó verið skráðar á afmörkuðum svæðum á undanförnum árum. Mikið starf hefur verið unnið við skráningu fornleifa á vegum Safnastofnunar Austurlands á undanförnum árum. Í Eyjafirði hefur verið unnið markvisst að skráningu fornleifa á vegum Minjasafnsins á Akureyri tvö seinustu ár og haldið verður áfram með verkið á næstu árum.

Ljóst er að seint munu fornleifar á Íslandi teljist fullskráðar. Líklegra er að svo verði aldrei. Skortur á fornleifaskráningu getur þó ekki orðið til að tefja "hagnýtingu" þeirra sem þekktar eru.

Samkvæmt þjóðminjalögum er ætlast til þess að landinu öllu sé skipt í minjasvæði og að minjavörður starfi á hverju þeirra í umboði Þjóðminjasafns. Svo er þó ekki enn. Heppilegast virðist engu að síður að skipulagning á nýtingu fornleifa og menningarminja fari fram fyrir takmörkuð svæði í senn, undir forystu heimamanna en með leiðsögn og eftirliti frá Þjóðminjasafni.

Afmörkun hvers svæðis eða landshluta verður að fara eftir aðstæðum hverju sinni, áhuga, getu og frumkvæði. Þeir sem veita minjasöfnunum forstöðu, frumkvöðlar í ferðamálum og atvinnumálaforkólfar eru líklegastir til að geta tekið að sér tillögugerð í þessum efnum.

Markmiðið gæti verið að taka saman menningarsögulegan vegvísi fyrir hvert hérað. Þar yrði greint frá áhugaverðustu menningarminjum héraðsins og þeir settir í sögulegt samhengi í sem stystu máli. Menningarsögulegur vegvísir héraðs yrði gefinn út á fallegri bók á nokkrum tungumálum og væri leiðsögn til ferðamanna um hvernig skoða megi héraðið og læra sem mest um menningarsögu þess. Jafnframt yrði hrint í framkvæmd áætlun um aðgerðir til að umræddir staðir verði aðgengilegir og áhugaverðir fyrir ferðamenn. Þar kann að vera um rannsóknir að ræða, fornleifagröft, útgáfu fræðsluefnis, lagfæringar, endurbætur og merkingar á þeim stöðum sem valdir hafa verið o.s.frv.

Mikilvægt er að haft sé í huga að menningarsögulegur vegvísir af því tagi sem hér er lýst verður aldrei saminn í eitt skipti fyrir öll. Hann verður sífellt í endurskoðun og mótun. Svipuðu máli gegnir um minjarnar og staðina sem þar verða tilnefndir. Hvern stað má endurbæta lítilsháttar í fyrstunni og það kann að taka mörg ár að gera flesta staðina eins vel úr garði og ákjósanlegt er. Menningarsögulegan vegvísi má því setja saman án gífurlegrar undirbúningsvinnu, og hann verður þá endurbættur og endurútgefinn þegar menn telja efni og ástæðu til.

Menningarsögulegur vegvísir þarf að vera fallegt rit. Hönnun, uppsetning texta, teikninga og mynda þarf að vera faglega og fallega mótað.

Kanna mætti hvort hægt væri að fá stuðning ríkisvaldsins til að vinna að tilraunaverkefni á þessu sviði. Velja mætti eitt landsvæði og efna til samvinnu minjavörslu- og ferðamálayfirvalda um menningarsögulegan vegvísi og framkvæmdir við að gera menningarminjar aðgengilegar og áhugaverðar. Æskilegt er að útgáfa vegvísa verði að nokkru leyti samræmd, útlit þeirra verði áþekkt. Æskilegt er að fá eitt útgáfu- og dreifingarfyrirtæki til að annast þann þátt.

Höfundur er arkitekt.

Ljósm.:Hjörleifur Stefánsson. LANGABÚÐ á Djúpavogi. Myndine r tekin þegar viðgerð utandyra var endanlega lokið.

Teikning og ljósm.:Hjörleifur Stefánsson. SYÐSTABÆJARHÚSIÐ í Hrísey. Hryssingsleg meðferð hafði leikið það illa. Á teikningunni sést upphaflegt útlit hússins.Ljósm.:Örlygur Kristfinnsson. ROALDSBRAKKI á Siglufirði.

TJÖRUHÚSIÐ á Ísafirði.

Lesbók/GS. HÚSIÐ á Eyrarbakka eftir viðgerð.Ljósm. og teikning:

Hjörleifur Stefánsson. HILLEBRANDTSHÚS 1993, áður en viðgerð hófst. Á teikningunni sést upphaflegt útlit hússins.