TILKYNNING Frakka um að þeir hyggist kalla heim 17 til 20 þúsund hermenn, sem staðsettir eru í Þýskalandi, hefur ýtt undir ótta þýskra stjórnvalda um að snurða sé hlaupin á þráðinn í samruna Evrópu.
Fækkun her-

stöðva Frakka

hörmuð í Bonn

Berlín. The Daily Telegraph.

TILKYNNING Frakka um að þeir hyggist kalla heim 17 til 20 þúsund hermenn, sem staðsettir eru í Þýskalandi, hefur ýtt undir ótta þýskra stjórnvalda um að snurða sé hlaupin á þráðinn í samruna Evrópu.

Volker Rühe, varnarmálaráðherra Þýskalands, kvaðst harma ákvörðun Frakka, sem felur í sér að þeir loki 14 af 18 herstöðvum sínum í suðvesturhluta Þýskalands fyrir árið 2000. Rühe lét engan vafa leika á því að Þjóðverjar hefðu ekki verið hafðir með í ráðum þegar þessi ákvörðun var tekin.

Engin tilkynning barst um málið frá skrifstofu Helmuts Kohls kanslara og sagði í þýska dagblaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung að það væri engin furða þótt kanslarinn kysi að virða ákvörðun Frakka að vettugi. Hún stangaðist á við hugmyndir hans um raunveruleikann.

Í blaðinu var því bætt við að eina ríkið, sem enn hefði umtalsverðan herafla í Þýskalandi, væri Bandaríkin.

Peter Hausmann, helsti talsmaður þýsku stjórnarinnar, bar á móti því að ráðamönnum í Bonn líkaði illa að hafa verið sagt seint frá fyrirætlunum Frakka. Hann sagði að tilkynning hefði borist "við fyrsta tækifæri" og Þjóðverjar hefðu hvatt til þess að eins margir franskir hermenn yrðu hafðir áfram í Þýskalandi og mögulegt væri.

Ósennilegt verður að teljast að mikið tillit hafi verið tekið til þeirrar óskar Þjóðverja því að hermennirnir, sem verða eftir, eru Frakkarnir, sem eru í sameiginlegri sveit Frakka og Þjóðverja og samevrópskri könnunarsveit, alls 3.000 manns.

Mikil fækkun í Þýskalandi

Brottkvaðning Frakkanna er í samræmi við ákvarðanir, sem önnur aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu hafa tekið frá lokum kalda stríðsins.

Frá árinu 1989 hefur breskum hermönnum í Þýskalandi fækkað úr 70.000 í 30.000, bandarískum hermönnum hefur verið fækkað úr 250.000 í 76.000, kanadískum úr 8.000 í 100, belgískum úr 27.000 í 2.000 og hollenskum úr 8.000 í 2.500.

Um hálf milljón sovéskra hermanna var í Austur-Þýskalandi, en nú er þar enginn rússneskur hermaður.