"AÐSTAÐAN á Íslandi til að æfa er ekkert sérstök en með hugmyndafluginu er hægt að æfa vel og ekkert betra að fá hlutina upp í hendurnar. Ég held að ég meti betur árangurinn ef ég þarf að hafa svolítið meira fyrir honum en ella. Ef veðrið setur strik í reikninginn hef ég þó alltaf fjöruna fyrir norðan til æfa í." Hástökkið týndist
Vil ekki fá allt upp í hendurnar "AÐSTAÐAN á Íslandi til að æfa er ekkert sérstök en með hugmyndafluginu er hægt að æfa vel og ekkert betra að fá hlutina upp í hendurnar. Ég held að ég meti betur árangurinn ef ég þarf að hafa svolítið meira fyrir honum en ella. Ef veðrið setur strik í reikninginn hef ég þó alltaf fjöruna fyrir norðan til æfa í."

Hástökkið týndist

"HÁSTÖKKIÐ var slakt hjá mér um tíma en er á uppleið á ný. Á tímabili virtist sem ég hefði tapað því niður en sem betur fer hef ég fundið taktinn þar á ný. Langstökkið er að batna og einnig 100 metra hlaupið og ég sé ekki fram á að ég sé að lenda í stöðnun þar frekar en annars staðar."

12 til 15 lítrar af vatni á dag

"UM leið og ég kem út verð ég að venja mig við að þamba vatn, þó að það sé vont að vera uppþembdur þá verð ég að láta mig hafa það. Í þessum mikla hita og raka reikna ég með að þurfa að drekka á bilinu tólf til fimmtán lítra hvorn dag sem tugþrautin stendur yfir. Ekki er nóg að byrja þessa miklu vatnsdrykkju daginn fyrir heldur verður að þrepa sig upp í vatnsinntökunni jafnt og þétt fram að leikum. Kunnugir menn segja að við þessar aðstæður muni það koma í ljós í síðustu grein þrautarinnar, 1.500 metra hlaupi, hverjir hafi vatnsbúskapinn sinn í lagi og hverjir ekki. Ég er staðráðinn í að vera í lagi með minn. Ef drukkið er of lítið er hætt við krampa en ef nóg hefur verið drukkið sleppur maður í gegn."

Beðið í kæliherbergi

"Á svona stórmóti þar sem margir keppendur eru í tugþraut kemur oft mikil bið á milli greina og hana notar maður til þess að slappa af með lappir upp í loft einhverstaðar innanhúss. Í Atlanta er gert ráð fyrir sérstökum kæliherbergjum fyrir keppendur þar sem þeir geta verið milli greina. Það verður útilokað að bíða úti á vellinum."

Þetta kalla ég auðvelt

"ÉG taldi mig aldrei vera svona góðan sem raun ber vitni. Þrátt fyrir strangar æfingar hef ég samt ekki þurft að leggja eins mikið á mig og margir kollega minna. Ég hef aðeins æft í stuttan tíma og náð jafn langt og margir aðrir hafa eytt mörgum árum í og jafnvel áratug. Ég hef aðeins æft tugþraut í tvö ár. Þetta kalla ég auðvelt."

Dagård ekki með

NORÐURLANDAMETHAFINN í tugþraut Henrik Dagård, Svíþjóð, verður ekki með á Ólympíuleikunum vegna meiðsla í hásin. Er það vissulega skarð fyrir skildi því hann virtist í góðri æfingu og náði m.a. 8.336 stigum í móti í apríl í Bandaríkjunum. Meiðlsin hafa hins vegar verið að hrjá hann síðustu vikur og hefur ekkert gengið hjá honum að fá sig góðan af þeim. Norðurlandamet Dagårds er 8.403 stig, sett í Talance í Frakklandi árið 1994. Sama stað og Jón Arnar setti Íslandsmet sitt 8.248 stig í fyrrhaust.