SKRÁÐIR atvinnuleysisdagar í seinasta mánuði jafngilda því að 4.951 maður hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í júní, þar af 1.941 karl og 3.010 konur. Þetta jafngildir 3,6% atvinnuleysi, og eru að meðaltali um 1.289 færri atvinnulausir en í maí, en um 2.
Atvinnulausum í heild hefur fækkað að meðaltali um 29,1% frá júní í fyrra Yfir 900 bótaþegar

í hlutastarfi

SKRÁÐIR atvinnuleysisdagar í seinasta mánuði jafngilda því að 4.951 maður hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í júní, þar af 1.941 karl og 3.010 konur. Þetta jafngildir 3,6% atvinnuleysi, og eru að meðaltali um 1.289 færri atvinnulausir en í maí, en um 2.026 færri en í júní í fyrra, sem þýðir að atvinnulausum hefur fækkað í heild að meðaltali um 20,7% frá maímánuði en um 29,1% frá júní í fyrra.

Athygli vekur að af fjölda skráðra atvinnulausra, en þeir voru 5.788 seinasta dag júnímánaðar voru 904 í hlutastörfum, eða um 15,5%. Konur eru í áberandi meirihluta í þessum hóp, eða 762 alls. Páll Pétursson félagsmálaráðherra kveðst telja þessa þróun ískyggilega. "Það er greinilega aukning í því að fólk, sérstaklega konur, njóti hlutabóta og maður getur látið sér detta í hug að í einhverjum tilvikum sé um að ræða fólk sem kæri sig ekki um að vinna nema hálfan daginn og vill njóta bóta fyrir heimaveruna."

Engar einhlítar skýringar

Á atvinnuleysisskrá eru að sögn ráðherra ekki allir þeir sem ættu að njóta bóta, þar sem ýmsir hafa ekki bótarétt samkvæmt gildandi lögum, t.d. einyrkjar, bændur, trillukarlar o.fl.

Ráðherra segir engar einhlítar skýringar á batnandi atvinnuástandi nú aðrar en auknar framkvæmdir og almenn eftirspurn í þjóðfélaginu. Fiskafli hafi að vísu verið heldur meiri en í júní í fyrra, en þó nokkuð minni en í síðasta mánuði. Átaksverkefni séu ívið fleiri en í fyrra, en þó ekki svo mjög að þar felist skýring á betri útkomu nú en í fyrra. Hann telji hins vegar tæpast að um einkenni þenslu í efnahagslífinu sé að ræða.

"Það er kannski varla hægt að tala um þenslu ennþá en það er auðvitað hætta á að um þenslu geti orðið að ræða. Þetta sýnir hins vegar greinlega batnandi árferði. Pólitískar áherslur skila hagsveiflu og hagsveifla skilar aukningu í störfum. Þetta er að mínu mati mjög marktækur og gleðilegur árangur," segir Páll.

"Við viljum ekki líða neitt atvinnuleysi en miðað við lönd Evrópubandalagsins er atvinnuleysi hér viðunandi, því að þar er atvinnleysi 10% og allt upp í 20% sums staðar. 1-3% getur verið eðlilegt atvinnuleysi, því að alltaf eru einhverjir sem ekki geta tekið störf eða hafa ekki heilsu til annars en allra léttustu vinnu. Með hliðsjón af hagvaxtaspá ætti atvinnuástandið að halda áfram að lagast."

Iðnaðarmenn hverfa af skrá

Hlutfallsleg fækkun atvinnulausra er mest á Vestfjörðum og Vesturlandi að sögn Gunnars Sigurðssonar deildarstjóra vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins en fækkun atvinnulausra er mest á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra. Atvinnuleysi kvenna minnkar um tæp 15% milli mánaða, eða talsvert minna en karla, þar sem atvinnleysi minnkar um rúm 28%.

Gunnar segir einkum mjög lítið atvinnuleysi á meðal iðnaðarmanna og hverfi þeir hvarvetna af skrám. "Við eigum ekki von á að atvinnulausum fjölgi aftur fyrr en kannski í ágúst þegar fiskvinnsluhúsum lokar," segir Gunnar.

Gunnar segir að árið 1987 þegar atvinnuástand hafi verið mjög gott hafi um 800 manns verið á atvinnuleysisskrá að meðaltali og í þeirra röðum fjölgi þegar atvinnuástand versni. Um sé að ræða fólk sem eigi oft á tíðum mjög erfitt með að komast aftur á vinnumarkaðinn og það "drabbist" niður og gefist upp á atvinnuleit. Ekki séu hins vegar tök á að mæla hlutfall þeirra sem eru atvinnulausir að staðaldri.