OPINBER NIÐURSKURÐUR OG FÖTLUÐ BÖRN ENDURSKOÐAÐRI rekstraráætlun Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Vesturlandi er gert ráð fyrir því að leggja tímabundið niður skammtímavistun fatlaðra barna í Holti, á Akranesi og Gufuskálum, til að afstýra rekstrarhalla.
OPINBER NIÐURSKURÐUR OG FÖTLUÐ BÖRN

ENDURSKOÐAÐRI rekstraráætlun Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Vesturlandi er gert ráð fyrir því að leggja tímabundið niður skammtímavistun fatlaðra barna í Holti, á Akranesi og Gufuskálum, til að afstýra rekstrarhalla. Fötluðu börnin hafa verið sótt þegar skóla lýkur og vistuð fram á kvöld, er þau fara til síns heima. Þá hafa þau einnig verið vistuð frá síðdegi á föstudögum fram á síðdegi á sunnudögum, til að létta álag á aðstandendum.

Þorvarður Magnússon, gjaldkeri Þroskahjálpar á Vesturlandi, hefur gert athugasemdir við þessar ráðagerðir, meðal annars á þeim forsendum, að "verið sé að nota viðbótarfjármagn, sérstaklega ætlað til skammtímavistunar, til að rétta reksturinn af."

Rekstraraðhald í heilbrigðiskerfinu er eðlilegt og sjálfsagt, sem annars staðar í ríkisbúskapnum, enda hefur kostnaður við það vaxið mjög síðustu áratugi. En það skiptir máli, á hvern veg er að verki staðið. Mikilvægt virðist að taka heildstætt og markvisst á málum, til að ná fram hagræðingu og betri nýtingu fjármuna í stærri útgjaldaþáttum. Skyndiákvarðanir af því tagi, sem hér virðist stefnt í með skammtímalokun vistunar fatlaðra, vega á hinn bóginn smátt í heildardæminu, og koma niður á þeim er sízt skyldi. Svona vinnulag hamlar auk þess gegn æskilegum almannastuðningi við hagræðingu í ríkisbúskapnum.

Foreldrar með fötluð börn hafa nokkra sérstöðu, og á stundum mjög erfiða sérstöðu, sem samfélagið verður að taka tillit til. Umönnun fatlaðra barna getur orðið gífurlegt álag á heimili og fjölskyldur. Þeim peningum er vel varið sem ganga til þess að draga úr þessu álagi. Á Vesturlandi er ekki um svo stórar upphæðir að ræða að það eigi að vera ókleift að ná þeim sparnaði með öðrum hætti. Hinn almenni borgari fylgist með því að ákvarðanir eru teknir eins og hendi sé veifað til þess að flytja stofnanir á milli landshluta, þótt þess sé ekki þörf til þess að fylgja fram svonefndum pólitískum markmiðum, jafnvel þótt kostnaðurinn nemi tugum og jafnvel hundruðum milljóna króna. Sparnaðaraðgerðir af þessu tagi eru ekki trúverðugar. Vonandi grípur Páll Pétursson, félagsmálaráðherra í taumana enda kom það fram í Morgunblaðinu í gær, að ráðuneyti hans hefur ekki samþykkt þessar aðgerðir.

ÖRYGGI Í

FARÞEGAFLUGI

ANNSKÆÐ flugslys, sem orðið hafa á árinu, hafa leitt huga fólks að öryggi flugfélaga á Vesturlönd um. Frá áramótum hafa þrjár stórar þotur farizt; í febrúar hrapaði þota tyrkneska leiguflugfélagsins Birgenair í Karíbahafið, í maí fórst þota bandaríska flugfélagsins ValuJet í Flórída í Bandaríkjunum og nú síðast hrapaði breiðþota TWA í hafið við New York. Samtals hefur hátt á fjórða hundrað manna farizt í þessum slysum.

Bæði Birgenair og ValuJet, sem bjóða ódýrar flugferðir, höfðu verið gagnrýnd fyrir að láta undir höfuð leggjast að gæta fyllsta öryggis í flugrekstri sínum. Þá hefur verið bent á að þota TWA, sem fórst aðfaranótt fimmtudags, hafi verið ein sú elzta sinnar tegundar, sem enn var í notkun sem farþegaflugvél. Vegna aukinnar flugumferðar eru gamlar flugvélar notaðar meira og lengur en áður.

Þótt oft sé ekkert hægt að fullyrða um orsakir flugslysa, er ástæða til að taka ábendingar um öryggismál alvarlega. Reynslan sýnir til dæmis að flugvél Birgenair fékk að koma hingað til lands og fljúga með íslenzka farþega, án þess að flugmálayfirvöldum væri kunnugt um slíkt fyrirfram. Fylgjast þarf með því að leiguflugfélög, sem starfa fyrir íslenzkar ferðaskrifstofur, uppfylli öll þau skilyrði, sem íslenzk flugmálayfirvöld setja um gæzlu öryggis.

Aldrei verður of varlega farið varðandi öryggi og eftirlit með farþegaflugvélum. Harðnandi samkeppni og lækkandi fargjöld mega ekki koma niður á örygginu.