Ágústa Guðrún Magnúsdóttir Amma okkar, Ágústa Guðrún Magnúsdóttir frá Einarshöfn, er látin. Hún var gæfurík í sínu einkalífi og átti þar stærstan þátt afi okkar, Sigmundur Guðjónsson, sem hún missti fyrir áratug. Samband þeirra var fallegt, hlýtt og innilegt. Þess vegna höfðu þau svo mikið aflögu til að gefa, og þau voru ekki sínk á þær gjafir. Öðrum fremur nutum við barnabörnin þess. Og síðar barnabarnabörnin. Fyrir þetta viljum við færa þakkir nú að leiðarlokum.

Gjafir Ágústu Magnúsdóttur voru ekki af efnislegum toga, þótt hún ætti það vissulega til að gauka peningi í barnslófa. Kærleikurinn, hlýjan og sá friður sem fylgdi henni til orðs og æðis eru ávallt eftirsóknarverð lífsgæði í huga barnsins, sem unir áhyggjulaust í leik. Fjaran á Bakkanum, reiturinn í Einarshöfn, fjárhúsin hans afa og flatkökurnar hennar ömmu skópu að auki þá friðsæld sem við minnumst frá bernskunni. Sú friðsæld fylgdi ömmu raunar allt lífið. Hún var hógvær, lítillát og traust. Í þeim eiginleikum fólst reisn hennar sem ávann henni virðingu og ástúð allra sem kynntust henni.

Þrátt fyrir að amma væri alvörugefin og lítt fyrir ærsl, var skaphöfn hennar gædd glaðlyndi og kímni. Bros hennar var þá heillandi og við erum þess fullvissar að þeir voru fleiri en afi sem af því hrifust þegar amma var ung. Í gamni og alvöru var gjarnan rifjað upp þegar Friðrik, þá krónprins, kom í fylgd föður síns Kristjáns X til Íslands árið 1921 og bauð henni upp í dans á skemmtun sem haldin var til heiðurs konungi. Amma var feimin og leit ekki upp meðan á dansinum stóð. Friðrik gaf henni appelsínu að launum, kannski til að ná athygli hennar. En amma var hvort tveggja, einlægur lýðveldissinni og jafnaðarmaður, og féll ekki svo glatt fyrir töfrum krónsprinsins!

Nú þegar kveðjustundin er runnin upp eru tilfinningar blendnar. Djúpur söknuður en líka gleði. Gleði yfir því að hafa fengið að njóta ömmu svo lengi og að hún hafi fengið að skilja við þennan heim án þjáningar, með reisn og í sátt við Guð og menn. Blessuð sé minning hennar.

Árdís og Ágústa.