Ragnar Valdimarsson "Skjótt hefur sól brugðið sumri."

Vinur minn Ragnar Valdimarsson er látinn. Skipsfélagi minn og tryggðarvinur allt frá því er við hittumst á Hólmavík 1934 og til þessa dags. Þá lærði ég að þekkja þennan góða mann sem alltaf var svo kátur og hlýr. Hann var líka svo einstaklega orðheppinn að allir löðuðust að honum, bæði ungir og gamlir. Hann var mikið snyrtimenni og allt skyldi vera á sínum stað og öll hans störf heiðarlega af hendi leyst.

Um margra ára skeið var Ragnar bílstjóri bæði á vörubíl og fólksbílum. Höfum við í fjölskyldunni notið margra góðra stunda með Ragnari í bílnum hans undanfarin ár. Sérlega munum við ferð norður á Strandir sumarið 1984. Það er oft vitnað í þá gleði sem ríkti í bílnum hans þá. Og alltaf var vináttan við fjölskylduna jafntraust og einlæg og munum við öll minnast hans með þökk og virðingu.

Ég og fjölskylda mín sendum Þuríði konu hans, börnum þeirra og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur okkar. Við vitum að söknuður ykkar er mikill við þessi snöggu umskipti, en minningin um hann Ragnar verður alltaf ljósgeisli í lífi ykkar.

Það var kyrrt og fallegt við Steingrímsfjörð daginn sem Ragnar lést. Við höfðum svo oft dáðst að fegurð Hólmavíkur saman. Þar átti hann heima öll sín manndómsár og þar mun ég kveðja hann.

Ég veit að þar sem góðir menn fara, þar eru guðsvegir.

Blessuð sé minning góðs vinar.

Einar Hansen.