Tryggvi Ófeigsson

Herdís Ásgeirsdóttir Á morgun, 22. júlí verða liðin hundrað ár frá því að athafnamaðurinn, Tryggvi Ófeigsson fæddist að Brún í Svartárdal og 31. ágúst nk. mun verða liðið 101 ár frá fæðingu konu hans, Herdísar Ásgeirsdóttur sem á sinni ævi vann ötullega að framförum á sviði félagsmála. Þessum merku hjónum sem settu mark sitt svo sterkt á þá öld sem er að líða verður gerð grein fyrir hér, eftir því sem takmarkað rými leyfir en fráleitt er að slík hjónaminning geti á nokkurn hátt verið tæmandi.

Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður var sonur hjónanna Jóhönnu Frímannsdóttur og Ófeigs Ófeigssonar. Jóhanna var dóttir Guðmundar Frímanns Björnssonar bónda í Hvammi í Langadal og Helgu Eiríksdóttur en þau voru bæði Húnvetningar fram í ættir. Foreldrar Ófeigs voru Ófeigur Ófeigsson bóndi á Fjalli á Skeiðum og kona hans Vilborg Eyjólfsdóttir frá Auðsholti í Biskupstungum. Ófeigur langafi Tryggva var kenndur við jörðina Fjall og kallaður "Ófeigur ríki á Fjalli". Þrátt fyrir viðurnefni langafa síns var Tryggvi Ófeigsson fæddur í lítil efni en foreldrar hans voru í húsmennsku er þau eignuðust þrjú elstu börnin. Þegar Tryggvi var tæplega fjögurra ára gamall flutti fjölskyldan til Keflavíkur þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið á ýmsum stöðum og þaðan í Vesturkot á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Þar búnaðist þeim ekki vel en með hjálp systkina sinna tókst Ófeigi að kaupa sjávarbýlið, Ráðagerði í Leiru þar sem fjölskyldan bjó upp frá því. Alls urðu börnin tíu í þessu litla býli á sjávarkambinum. Af þeim komust átta til fullorðinsára. Í dag er aðeins yngsta systkini Tryggva á lífi en það er Guðmundur fyrrum skrifstofustjóri Júpiters hf. og Marz hf. Tryggvi mat foreldra sína ætíð mikils "Þau komu hjálparlaust á erfiðum tímum upp barnahópi og ég held að það sé ekki ofmælt, að þau hafi öll komist til manns, sem lifðu, og verið vel af guði gerð. "Við liðum aldrei skort þó hart væri í ári" segir Tryggvi í ævisögu sinni sem út kom árið 1979.

Úr þessu umhverfi lítilla efna og mikillar vinnu kom sá maður sem átti eftir að verða einn af mestu athafnamönnum landsins á þessari öld. Og snemma beygðist krókurinn, níu ára gamall var hann farinn að hirða sundmagana sem hent var er gert var að aflanum á fyrsta togara Íslendinga Coot. Tryggvi óð berfættur út í ískaldan sjóinn til að hirða þá og seldi stykkið á nokkra aura. Starsýnt varð honum líka á togarhópa komna frá Englandi sem voru á veiðum í Faxaflóa. Þóttist hann fátt merkilegra hafa séð, bæði þá og síðar á ævinni. Drengurinn Tryggvi réri líka sjálfur úti fyrir Leirunni og eftir fermingu fékk hann pláss á fjögurra manna fari sem reyndi mjög á krafta unglingsins. Síðar á unglingsárum fékk hann skipsrúm austur á Stöðvarfirði og kom til baka að hausti með alla sumarhýruna ósnerta og afhenti foreldrum sínum. Þetta endurtók hann í fjögur sumur utan eitt en það sumarið freistaðist hann til að kaupa eina límonflösku á leiðinni austur. Það var það eina sem hann leyfði sér í þessi fjögur ár og sá hann mikið eftir þessari óþarfa eyðslu! Sparsemi og nýtni voru mjög einkennandi fyrir Tryggva og áttu eftir að koma sér vel síðar á lífsleiðinni jafnvel þó þörfin fyrir slíka nýtni yrði ekki jafn brýn að mati annarra. Á veturna stundaði Tryggvi sjómennsku á mótorbátum og árabátum. Að stunda sjómennsku á opnum bátum í lélegum klæðum þar sem handaflið eitt gilti og sýrublanda var ein til næringar tímunum saman var mikil þrekraun, en svo skapmikill, metnaðargjarn og harður af sér sem Tryggvi var, þoldi hann flest það sem megnað hefði að beygja aðra. Árið 1917 hóf Tryggvi nám við Stýrimannaskólann með lítið vegarnesti, aðeins stutt barnaskólanám auk uppfræðslu föður síns sem var fróður og vel lesinn maður miðað við sinn tíma. Þau tvö ár sem Tryggvi stundaði þar nám þurfti hann að leggja mikið á sig og læra fram á nætur hvert kvöld. Hann lauk námi með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin í Stýrimannaskólanum og hefur þar, fyrir utan vinnusemi hans, átt þátt mikil greind, afburða minni og glöggskyggni sem einkenndi Tryggva alla tíð. Meðan á náminu stóð hafði hann kynnst Herdísi Ásgeirsdóttur er hann kom á heimili hennar til að falast eftir skipsplássi hjá stjúpa hennar, Páli Matthíassyni skipstjóra. Þau hófu búskap árið 1920 og bjuggu meginhluta ævi sinnar að Hávallagötu 9. Þar býr nú dótturdóttir þeirra Herdís Þorgeirsdóttir ásamt fjölskyldu sinni. Tryggvi og Herdís eignuðust fimm börn og eru þau öll á lífi.

Afkomendur Herdísar og Tryggva eru nær áttatíu að tölu í dag.

Að stýrimannaskóla loknum vann Tryggvi ýmist sem háseti, bátsmaður, stýrimaður eða lausaskipstjóri og fór svo gott orð af honum að árið 1924 benti Geir Zoega Hellyersbræðrum á hann sem skipstjóraefni fyrir togarann Imperíalist sem þá var í smíðum úti í Englandi og var stærsti togari sem Englendingar höfðu smíðað. Hellyersbræður gerðu á þessum tíma út sex togara frá Hafnarfirði með enskum skipstjórum. Meðan beðið var eftir að Imperíalist væri tilbúinn var Tryggvi skipstjóri á togurunum Kings Grey og Surprise sem voru í eigu þeirra bræðra og sýndi það og sannaði að hann stóð fullkomlega undir þeim væntingum sem gerðar höfðu verið til hans. Hann fór ekki úr fötunum meðan hann var á sjó heldur fleygði sér augnablik á brúargólfið ef færi gafst og kom að landi með metafla eftir hvern túr. Eftir þetta sóttust allir útgerðarmenn eftir honum en þeir voru of seinir, hið stóra og nýja skip Imperíalist var komið til landsins og frægðarferill Tryggva Ófeigssonar sem skipstjóra var hafinn. Í þau fimm ár sem hann var með Imperíalist var hann ýmist langaflahæstur eða með þeim allra hæstu. Árið 1929 kaupir Tryggvi togarann Júpiter ásamt þeim Joe Little og Lofti Bjarnasyni og þeir stofna Júpitersfélagið. Átti Tryggvi stæstan hlut í því og var jafnframt skipstjóri. Árið á eftir var mesta aflaár sögunnar en jafnframt varð gríðarlegt verðfall á fiski og í kjölfarið kom svo kreppan mikla. Sjávarútvegurinn í landinu fór í mjög illa og mörg útgerðin fór á hausinn en Júpitersfélagið komst ekki aðeins óskaddað út úr kreppunni, heldur skilaði líka ágætum hagnaði. Réði þar mestu sú áhersla sem Tryggvi lagði á að veiða þorsk til söltunar en hann veiddi hann á miðum sem hann gjörþekkti auk góðrar framkvæmdastjórnar Lofts á félaginu. Tryggvi var líka með eindæmum nýtinn sem án efa hafði sín áhrif á góða útkomu félagsins. Árið 1940 lauk skipstjórnartíð Tryggva en þá voru útgerðarfélögin orðin þrjú og rekstur þeirra orðinn umfangsmikill. Félögin voru auk Júpiters hf., Marzfélagið og Venus hf. Nú hafði Tryggvi náð því takmarki sem hann hafði lengi stefnt að en það var að gera útgerðarrekstur að ævistarfi sínu. Útgerðin taldi fjóra togara að jafnaði en fimm þegar mest var og fljótlega átti Tryggvi Ófeigsson bróðurpartinn af útgerðinni. Í Aðalstræti 4 í Reykjavík reisti Júpiter hf. og Marz hf. sér hús sem nú hefur verið endurnýjað með sóma í umsjón Önnu yngstu dóttur Tryggva. Lengi voru þó skipin gerð út frá Hafnarfirði en í árslok 1947 flutti Tryggvi allan sinn rekstur þaðan og til Reykjavíkur. Hann var þá orðinn þreyttur á samskiptum sínum við bæjaryfirvöld þar í bæ.

"Hafnfirðingar héldu illa á spilunum, að lofa okkur ekki að vera kyrrum í Hafnarfirði til að borga tapið af sinni bæjarútgerð" sagði hann síðar. Tryggvi byggði árið 1950 fyrstu saltverkunarhúsin á Kirkjusandi á Laugarnesstanganum. Þau voru tvær skemmur 450 fm. hvor með salthúsi á milli og stæðsta þurrkhús landsins, 1800 fm. Samfara þessari stóru saltverkunarstöð var rekið bílaverkstæði, eldsmiðja, lóðageymsla, beitingarskýli, strætisvagnar til flutnings á starfsfólki og frystiklefar til kjötgeymslu. Ári seinna hófst skreiðarframleiðsla Tryggva en hún varð stórfelld. Hann reisti trönur á Kirkjusandi, í Fossvogi, í Garðahrauni þar sem hann reisti 600 fm. skemmu og loks í Selási. Það var svo árið 1952 sem Tryggvi hófst handa við byggingu hraðfrystihúss á Kirkjusandi að undirlagi Páls Ásgeirs sonar síns. Þrátt fyrir mótbyr og andstöðu í kerfinu komst frystihúsið upp og varð mikil bygging. Stærsta frystihús á landinu á þeim tíma og mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í Reykjavík. Tryggva sveið það þó alla tíð að þurfa að standa í samkeppni við Bæjarútgerð Reykjavíkur. Honum sárnaði að peningar hans sem og annarra skattborgara væru notaðir til að spilla fyrir rekstri hans. Í grein í Frjálsri verslun 1958 eftir Svavar Pálsson endurskoðanda, er að finna dæmi um þennan ójöfnuð: "Togaraútgerð Tryggva Ófeigssonar greiddi kr. 430 þús. í útsvör í bæjarsjóð af rekstri áranna 1955 og 1956 en Bæjarútgerð Reykjavíkur fékk greiddar kr. 6.733.961 úr bæjarsjóði á sama tíma, sem fór beint til þess að greiða rekstrartap, en auk þess voru fyrirtækinu ekki reiknaðir vextir af láni bæjarsjóðs, en þeir nema um 2 milljónum króna. Og nú er lagður stóreignaskattur að upphæð kr. 2.482.174 á togaraútgerð Tryggva Ófeigssonar, en á Bæjarútgerð Reykjavíkur ekki neitt." Auk þessa mátti Tryggvi standa í samkeppni við Bæjarútgerðina um starfsfólk sem kom sér illa fyrir hann, með sitt stóra frystihús og fjóra togara. Útgerð Tryggva blómstraði þó þrátt fyrir þetta, fyrst og fremst vegna skynsamlegs og hagsýns reksturs. Fiskvinnslustöðvarnar á Kirkjusandi voru í fullum rekstri fram til ársins 1973 er þær voru seldar Vestmanneyingum. Nú hefur Íslandsbanki þar sínar höfuðstöðvar og sonarsonur hans og nafni, Tryggvi Pálsson hefur þar sína skrifstofu. Tryggvi Ófeigsson var lengstum lánsamur með starfsfólk. Lagði hann á það höfuðáherslu að hafa góða skipshöfn og skipstjórar hans voru afburðamenn á sínu sviði. Má þar nefna Ólaf bróður Tryggva og Bjarna Ingimarsson. En á þessum tíma fór stöðugt að verða erfiðara að fá góða menn á sjó. Vandamál sem ekki er til staðar í dag. Í Þeir settu svip á öldina segir: "Tryggvi Ófeigsson gat barist við fátækt æskunnar, og hann gat barist við stjórnvöld, ráð og nefndir og verkalýðsforingja, en ónýta togaraskipshöfn þoldi hann ekki. Hann gafst upp, þegar þar var komið að skip hans fóru að koma inn með bilaðar vélar vegna drykkjuskapar vélstjóra, brotnar hurðir á klefum og stóla í borðsal vegna drykkjuláta um borð, og kæmi hann niður á bryggju þegar skip hans voru að láta úr höfn, mátti hann horfa á dauðadrukkna menn veltast um borð". Á þessum tíma voru líka skuttogararnir að koma til sögunnar og á þá trúði Tryggvi ekki. Hann gat heldur ekki hugsað sér að reka skip nema að það bæri sig, en skuttogararnir voru keyptir í allsherjar lánakerfi óðaverðbólgu. Hann hætti útgerð og vann það afrek einn manna að leggja öllum nýsköpunartogurum Marz, Neptúnus og Úranus hlið við hlið í Vesturhöfnina, en Júpiter var seldur. Tryggvi mátti síðan horfa á togarana sína ryðga niður og að lokum seljast í brotajárn sem varð til þess að hann eltist um mörg ár. Á sama tíma fór heilsu konu hans, Herdísar hrakandi og tók hann það mjög nærri sér. Síðustu árin bjó hann einn að Hávallagötu 9 og saknaði konu sinnar sárt. Tryggvi hélt reisn sinni og sterkum persónuleika til hins síðasta. Þegar hann lá banaleguna á Borgarspítalunum og átti að gefa honum blóð, neitaði hann og sagði "Mér hefur dugað Fjallsættarblóðið" og það voru orð að sönnu. Tryggvi Ófeigsson, fátæki drengurinn í Leirunni sem heillaðist af togurunum í Faxaflóa og varð einn af mestu útgerðarmönnum aldarinnar lést í Reykjavík 18. júní 1987, saddur lífdaga. Stórbrotinn maður sem átti að baki stórbrotið ævistarf.

Herdís Ásgeirsdóttir fæddist 31. ágúst 1895 á Vesturgötu 32 í Reykjavík. Faðir hennar var Ásgeir Þorsteinsson skipstjóri frá Kjörvogi á Ströndum en móðir hennar var Rannveig húsmóðir, dóttir Sigurðar Símonarsonar skipstjóra frá Dynjanda í Arnarfirði sem einnig bjó að Vesturgötu 32, enda gekk húsið undir nafninu "Kapteinshúsið". Rannveig og Ásgeir eignuðust tvær dætur, Jóhönnu og Herdísi. Ásgeir lést aðeins 33 ára að aldri af völdum gallsteina, sem ekki var hægt að ráða bót á í þá daga, en þá var Herdís var aðeins 7 vikna gömul og var hún skírð yfir rúminu hans til þess að hann gæti fengið að heyra móðurnafnið sitt áður en hann dæi. Þá var Jóhanna aðeins þriggja ára gömul en hún lést síðan viku fyrir fermingu sína. Rannveig giftist seinni manni sínum Páli Matthíasyni skipstjóra þegar Herdís var fimm ára gömul. Þau eignuðust tvö börn, Sigurð sem dó aðeins sextán ára gamall og Mattheu. Páll Matthíasson lést einnig fyrir aldur fram. Öll þessi áföll mótuðu Herdísi en gerðu hana jafnframt sterkari. Hún átti alla tíð mikla trú og í hana gat hún alltaf sótt styrk. Trúin á guð mótaði allt líf hennar og gjörðir. Á Vesturgötu 32 ólst Herdís upp við ástríki sinna og bar alla tíð sterkar taugar til æskuheimilis síns. Þar bjuggu þau Tryggvi einnig sín fyrstu búskaparár, "Kapteins" nafnið stóð því svo sannarlega fyrir sínu. Helming hússins keyptu þau síðan 1926 og allt húsið nokkrum árum síðar og bjuggu þar allt þar til þau fluttu að Hávallagötu 9 árið 1935. Tryggvi var til sjós fyrstu tuttugu árin sem þau Herdís voru gift. Það varð því hlutskipti Herdísar líkt og móður hennar að ala börnin sín upp, meira og minna ein. Það hefur án efa ekki verið auðvelt, sérstaklega þegar haft er í huga að heilsa Herdísar var ekki góð framan af ævi hennar. Eftir að börnin uxu úr grasi vannst Herdísi tími og tækifæri til að vinna að hugðarefnum sínum sem öll miðuðu að því að bæta hlutskipti kvenna og barna. Herdís var mjög virk í kvenfélaginu Hringnum og í mörg ár formaður fjáröflunarnefndar sem safnaði fyrir Barnaspítala Hringsins. Herdísi var einnig hugleikið ástand það er var á fæðingardeild Landspítalans en á þessum árum kom það oftlega fyrir að fæðandi konum var vísað þar frá vegna plássleysis. Hún óskaði því eftir því innan Bandalags kvenna að nefnd yrði skipuð um málið. Herdís var kosin formaður nefndarinnar sem í fyrstu barðist fyrir því að byggð yrði önnur hæð ofan á þá fæðingardeild sem fyrir var en það gekk ekki sökum fjárskorts. Snéri nefndin sér þá að því að fá hús það er Helga Níelsdóttir hafði byggt á sínum tíma sem fæðingarheimili. Það hús hafði um tíma verið notað til að veita þurfandi fjölskyldum húsaskjól en stóð nú autt. Með Herdísi í broddi fylkingar kom Bandalag kvenna því til leiðar að húsið var lagfært og gert að fæðingarheimili. Af öðrum störfum Herdísar að félags og velferðarmálum má nefna að hún var formaður milliþinganefndar Kvenfélagasambands Íslands sem kom á orlofi húsmæðra sem sett var í lög árið 1955. Herdís var ekki aðeins frumkvöðull að orlofi húmæðra, heldur skipulagði hún og stjórnaði þessum ferðum árum saman. Í viðtali við Morgunblaðið í tilefni af sjötugsafmæli sínu sagði Herdís: "Orlofsmálið er eitt mesta kvenréttindamál sem komið hefur fram lengi. Með því er viðurkennt að húsmóðirin sé einstaklingur, sem þurfi hvíld, engu síður en aðrir [ . . . ]. Eftir því sem ég kynnist íslensku konunni betur gegnum orlofsstarfið, þeim mun vænna þykir mér um hana, og því meiri virðingu ber ég fyrir henni". Við þessi orð er fáu að bæta en þau sýna hvern mann Herdís hafði að geyma. Herdís átti við vanheilsu að stríða síðustu ár sín og reyndist Tryggvi henni þá einstaklega vel. Herdís lést á hjúkrunarheimilinu Hátúni 10B þann 3. október 1982. Þau hjónin Herdís og Tryggvi voru andstæður að mörgu leyti, Tryggvi hávaxinn myndarlegur á velli, skapmikill og harður af sér en gat þó verið mildur ef því var að skipta. Herdís fíngerð, blíðlynd með milda lund en samt svo viljasterk, sérstaklega er fylgja þurfti þeim málefnum í höfn sem henni voru hugleikin. Þannig bættu þau hvort annað upp og sköpuðu samstæða heild.

Fjölskyldan frá Kvisthaga 5.