FORELDRAR Sögu Einarsdóttur, léttasta fyrirburans til að komast yfir erfiðasta hjallann á vökudeild Landspítalans, telja eðlilegt að Tryggingastofnun marki stefnu vegna fæðingarorlofs fyrir foreldra fyrirbura. Saga fæddist eftir tæplega 28 vikna meðgöngu og vó 524 g eða rúmar tvær merkur.
Saga fæddist eftir tæplega 28 vikna meðgöngu Eðlilegt að Tryggingastofnun marki stefnu vegna fyrirbura

FORELDRAR Sögu Einarsdóttur, léttasta fyrirburans til að komast yfir erfiðasta hjallann á vökudeild Landspítalans, telja eðlilegt að Tryggingastofnun marki stefnu vegna fæðingarorlofs fyrir foreldra fyrirbura. Saga fæddist eftir tæplega 28 vikna meðgöngu og vó 524 g eða rúmar tvær merkur.

Þau Einar Pálsson og Árdís Bjarnþórsdóttir eru sammála um að þau hafi gengið í gegnum afar erfitt tímabil eftir að Saga fæddist enda hafi lengi vel ekki verið ljóst hvort hún myndi lifa og hversu miklum þroska hún myndi ná. Ekki væri heldur enn endanlega hægt að segja til um hvort hún næði eðlilegum þroska.

Þau sóttu um að fá lengra fæðingarorlof vegna Sögu. "Af því að Saga fæddist svona löngu fyrir tímann er ónæmiskerfi hennar viðkvæmara en hjá öðrum börnum. Saga þarf því sérstaklega mikla umönnun og auðvitað miðast þroski hennar fremur við áætlaðan fæðingardag en raunverulegan fæðingardag. Við sóttum því um lengra fæðingarorlof og komumst að því að engin stefna virðist vera til í málefnum fyrirbura hjá Tryggingastofnuninni. Okkur finnst eðlilegt að sú stefna verði mörkuð og foreldrar fyrirbura fái t.d. árs fæðingarorlof enda hvetja læknar fyrirburaforeldra til að vera sem lengst heima með börnunum," segir Árdís.

Einar segir að því til viðbótar sé afar nauðsynlegt að bæta aðstöðu fyrir foreldra á vökudeildinni. "Þangað koma margir foreldrar í heimsóknartíma og oft eru þrengslin mjög mikil. Úr þessu þarf bersýnilega að bæta. Hins vegar er starfsfólkið alveg yndislegt og vinnur raunar algjört kraftaverk. Við viljum skila kæru þakklæti til þess alls," segir hann og bætir við "til allra sem komu við sögu/Sögu".

Lífsmöguleikamörk um 24. viku meðgöngu

Atli Dagbjartsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, staðfesti að Saga væri léttasti fyrirburinn til að komast yfir erfiðasta hjallann á Landspítalanum frá upphafi. "Hér hefur væntanlega skipt máli að Saga hefur ekki nærst nægilega vel í móðurkviði. Þegar svo er þroskast lungu og önnur líffæri oft hraðar en ella. Að minnsta kosti var ferill Sögu áfallalaus hér. Framfarirnar hafa verið ágætar hingað til. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða að svona börn hafi sloppið við meiriháttar áföll fyrr en um tveggja ára aldur. Endanlega er ekki hægt að segja fyrir um þroskaferil fyrr en skólaaldri er náð," sagði hann.

Almennt um lífsmöguleikamörk fyrirbura sagði hann að þau væru um 24. vikna meðgöngu. Síðan ykjust lífsmöguleikarnir dag frá degi. Eftir 28 vikna meðgöngu væru möguleikar barns orðnir um 80% til þess að lifa og þroskast.

SAGA með pabba sínum 3. maí sl. Þá var hún 652 grömm.

Morgunblaðið/Ásdís HEIMA með pabba og mömmu.