Þrotabú Svartfugls hf.: Kröfur í búið nema rúmum 35 milljónum LÝSTAR kröfur í þrotabú Svartfugls hf., sem m.a. rak veitingastaðinn Fiðlarann á Akureyri, námu samtals rúmum 35 milljónum króna.

Þrotabú Svartfugls hf.: Kröfur í búið nema rúmum 35 milljónum

LÝSTAR kröfur í þrotabú Svartfugls hf., sem m.a. rak veitingastaðinn Fiðlarann á Akureyri, námu samtals rúmum 35 milljónum króna. Alls lýstu 46 aðilar kröfum í búið, en Arnar Sigfússon skiptaráðandi sagði að eftir ætti að yfirfara þær, þannig að vera kynni að einhverjar féllu út. Kröfulýsingarfrestur rann út á föstudaginn langa.

Forgangskröfur nema um 6 milljónum króna, þar af 1,1 milljón vegna staðgreiðslu skatta, en aðrar forgangskröfur eru vegna launa og launatengdra gjalda. Innheimtumaður ríkissjóðs átti stærstu kröfuna í búið, samtals um fimm milljónir króna.

Verslunarbanki Íslands og Húsfélag Alþýðuhússins eru næststærstu kröfuhafarnir með rúmar 4 milljónir og Kaupfélag Eyfirðinga með um 3,5 milljónir. Framkvæmdasjóður Akureyrar og Ferðamálasjóður lýstu rúmlega tveggja milljóna króna kröfu í búið og Byggðastofnun rúmlega einni milljón, en aðrir kröfuhafar lýstu lægri kröfum, að sögn Arnars.

Eignir búsins eru innréttingar, tæki og áhöld og sagði Arnar óljóst hvaða verð fengist fyrir eignirnar, en þó væri ljóst að það væri ekki nema brot af þeirri upphæð sem kröfuhafar lýstu í búið.

Skiptafundur verður haldinn þann 12. apríl þar sem tekin verður afstaða til krafna og reynt verður að koma eignum í verð.