Lánskjaravísitala: Meðal húsnæðislán hækkar um 50 þúsund Lánskjaravísitalan 2.394 gildir fyrir apríl, en það er 2,05% hækkun frá mánuðinum á undan. Samkvæmt því er verðbólguhraðinn nú 27,5%.

Lánskjaravísitala: Meðal húsnæðislán hækkar um 50 þúsund Lánskjaravísitalan 2.394 gildir fyrir apríl, en það er

2,05% hækkun frá mánuðinum á undan. Samkvæmt því er verðbólguhraðinn nú 27,5%. Hefur lánskjaravísitalan hækkað um 5% frá áramótum, sem þýðir að meðal húsnæðislán, sem er nú 2.357.000 krónur, hefur hækkað um 117.850 krónur á þeim tíma, þar af um rúmar 50 þúsund krónur vegna síðustu vísitöluhækkunar.

Seðlabankinn reiknar út lánskjaravísitöluna, sem er samsett úr launavísitölu að þriðjungi, framfærsluvísitölu að þriðjungi og byggingarvísitölu að þriðjungi. Framfærsluvísitalan hækkaði um rúm 2,8%, byggingarvísitalan um 2,64 og launavísitalan um rúm 0,6%, en viðmiðunin við launavísitölu var tekin inn í byrjun ársins.

Til að sýna áhrif hækkunar lánskjaravísitölunnar má taka dæmi af húsnæðislánum. Hæsta lán til nýbyggingar er nú 3.368.000 krónur. Frá áramótum hefur þetta lán hækkað um rúmar 168 þúsund krónur, þar af um rúmar 71 þúsund krónur við síðustu hækkun vísitölunnar. Hámarkslán til kaupa á eldra húsnæði er nú 2.357.000 krónur, en það lán hefur hækkað um 117.850 krónur frá áramótum.

Umreiknað til árshækkunar hefur lánskjaravísitalan hækkað um 21,8% síðustu 3 mánuði, en 11,8% síðustu sex mánuði. Síðustu 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 20,4%.