Landbúnaðarvörur hækka ekki Forsætisráðherra lofaði forseta ASÍ að halda áfram niðurgreiðslum STEINGRÍMUR Hermannsson forsætisráðherra lofaði Ásmundi Stefánssyni forseta Alþýðusambands Íslands því í gær, að ekki munikoma til búvöruverðshækkunar um...

Landbúnaðarvörur hækka ekki Forsætisráðherra lofaði forseta ASÍ að halda áfram niðurgreiðslum

STEINGRÍMUR Hermannsson forsætisráðherra lofaði Ásmundi Stefánssyni forseta Alþýðusambands Íslands því í gær, að ekki munikoma til búvöruverðshækkunar um mánaðamótin. Ríkisstjórnin mynditryggja áframhaldandi niðurgreiðslur til að halda óbreyttu verði. Landbúnaðarvörur áttu að hækka um 5% til 15% þann 1. apríl næstkomandi vegna skertra niðurgreiðslna.

"Það er rétt, forsætisráðherra staðfesti það við mig seinnipartinn í dag að landbúnaðarvörur hækkuðu ekki um mánaðamótin," sagði Ásmundur Stefánsson í samtali við Morgunblaðið í gær. "Ríkisstjórninni er það auðvitað jafnljóst og öðrum að það yrði algjör sprengja inn á hvert samningaborð ef þessar vörur hækkuðu."

Ásmundur sagði að ekki hefði verið rætt hversu lengi óbreyttar niðurgreiðslur stæðu. "Í okkar samtölum við ríkisstjórnina hefur alltaf verið gert ráð fyrir að vöruverði yrði haldið niðri. Við höfum farið fram á að verð á landbúnaðarvörum verði fryst út árið." Ásmundur sagði erfitt að segja hvort það markmið náist, það skýrist betur þegar ljóst verður hvernig samningar ganga.

Niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum áttu að skerðast um næstu mánaðamót, miðað við niðurstöðutölur fjárlaga, og áttu vörurnar að hækka um 5% til 15%. Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra sagðist í gær búast við að málið yrði tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun, föstudag, og þá yrði ákveðið hvort haldið verði óbreyttum niðurgreiðslum eða þær skertar. Morgunblaðið reyndi árangurslaust að ná sambandi við hann í gærkvöldi til að spyrja hann um þessa yfirlýsingu forsætisráðherra.