Japan Söluskattur lagður á í fyrsta sinn JAPANSKIR neytendur verða frá og með næstkomandi laugardegi að sætta sig við að greiða 3% söluskatt af flestöllum vörum sem þeir kaupa.

Japan Söluskattur lagður á í fyrsta sinn

JAPANSKIR neytendur verða frá og með næstkomandi laugardegi að sætta sig við að greiða 3% söluskatt af flestöllum vörum sem þeir kaupa. Ýmsir aðilar eru hræddir um sinn hag vegna þessara breytinga en gert er ráð fyrir að þær muni hækka vöruverð um 1,2% að meðaltali.

Það tók flokk Takeshita forsætisráðherra áratug að fá japanska þingið til að samþykkja skattinn. Nú virðist Takeshita óttast að álagning skattsins muni draga úr vinsældum hans sem hafa verið með minnsta móti undanfarið.

Japanski seðlabankinn hefur látið í ljósi áhyggjur af því að skatturinn muni hrinda af stað skriðu verðhækkana og bandarískir stjórnarerindrekar óttast að skatturinn verði notaðar til að gera erlendum aðilum enn erfiðara fyrir að selja vörur sínar á Japansmarkaði.

Ríkisstjórnin segir að nauðsynlegt hafi verið að leggja skattinn á til að einfalda japanska skattakerfið og vegna þess að sífellt stærri hluti Japana er nú að komast á eftirlaunaaldur og það kallar á aukin ríkisútgjöld auk þess sem innheimta annarra skatta minnkar.

Til að vinna skattinum fylgi hafa tekjuskattar jafnt fyrirtækja sem einstaklinga verið lækkaðir auk þess sem fyrirtækjum hefur verið leyft að mynda með sér samtök til að auðvelda þeim að leggja skattinn á.