Sigurlaugur Jónsson ­ Minning Fæddur 2. maí 1907 Dáinn 19. mars 1989 Nú er ei annað eftir en inna þakkar-mál og hinstri kveðju kveðja þig, kæra, hreina sál. Þín ástarorðin góðu og ástarverkin þín í hlýjum hjörtum geymast þótt hverfir vorri sýn.

(E.H.K.)

Í dag fer fram útför Sigurlaugs Jónssonar, en hann var til heimilis í Efstasundi 34 í Reykjavík.

Ég vil með fáum orðum minnast hans en ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast honum þegar móðir mín Ingibjörg Aðalsteinsdóttir giftist einkasyni hans, Ingólfi Helga, f. 16. mars 1942, sem Sigurlaugur átti frá fyrra hjónabandi. En hann var kvæntur Jónínu Eiríksdóttur, sem andaðist 5. janúar 1951, árið 1956 kvæntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Aðalheiði Halldórsdóttur.

Sigurlaugur var einn sá hæfileika ríkasti maður sem ég hef kynnst. Hann málaði myndir af mikilli snilld og einnig smíðaði hann hluti sem mikla nákvæmni þurfti til, t.d. rokk, en einnig lék allt í höndum hans sem hægt var að nefna, viðgerðir allt frá hinum örsmáu úrum nútímans uppí bílvélar, en listir áttu hug hans allan og átti það eftir að stytta honum stundirnar mjög eftir að hann lét af störfum sem bílstjóri. Þegar hann var kominn hátt á áttræðisaldur keypti hann sér skemmtara og lék á hann sér til mikillar ánægju.

Eins og áður var sagt kynntist ég Sigurlaugi 10 ára gömul, er ég varð stjúpdóttir sonar hans, en eitt er al veg áreiðanlegt að enginn hefur tekið á móti unglingi jafn vinsamlega og glaðlega eins og Sigurlaugur. Alltaf var góða skapið og brosið tilstaðar, og mun það ylja mér um hjartarætur um komandi ár.

En augasteinninn í lífi Sigurlaugs var afabarn hans Sigurlaugur og er hann eina barnið sem syni Sigurlaugs auðnaðist að eiga með móður minni, var hann hans eina barnabarn sem nú er 7 ára. Þegar þeir léku sér saman var enginn sjáanlegur aldursmunur þó að á milli þeirra væru 75 ár.

Ófáar eru þær stundir sem allur tími gleymdist í ærslagangi leiksins og aldrei þreyttist gamli maðurinn á að taka þátt í leikjum barnsins.

Hér í dag kveð ég mann sem bar höfuðið hátt þó á móti blési, en sorg hans var mikil þegar einkasonur hans andaðist aðeins 44 ára að aldri þann 16. september 1986.

Ég votta eftirlifandi eiginkonu hans, Aðalheiði Halldórsdóttur, og ættingjum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Far þú í friði,

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V.B.)

Guðrún Aldís Jóhannsdóttir