Emil E. Emilsson ­ kveðjuorð Fæddur 1. maí 1932 Dáinn 17. mars 1989 Í hvert sinn þegar ég stend niður við Grímsstaðavör, koma í hugann myndir og minningar frá löngu liðnum dögum. Einnig um þá æskufélaga mína sem farnir eru yfir móðuna miklu. Einn úr þeim hópi hefur nú kvatt sinn jarðneska ævidag, Emil Emilsson, Fálkagötu 32 á Grímsstaðaholti. Þær æskustöðvar yfirgaf ég rétt rúmlega tvítugur. Ekki varð það þó til þess að breytingar urðu á kunningsskap okkar Emils heitins eða annarra af mínum tryggustu æskufélögum. Lífsferill Emils var á hinn rétta veg. Hann tók snemma að taka lífið ákveðnum tökum. Bílstjórastarfið mun vera það starf sem hann stundaði mest, eftir því sem ég best veit. Hann var fjölskyldumaður og áttu þau tvö börn: Dóttur sem þau misstu í blóma lífsins og son sem býr á Fálkagötunni. Systur á Emil á lífi sem búsett er suður í Grindavík. Foreldrum þeirra þeirra var ég vel kunnugur. Ég kom oft í þeirra húsog var mér jafnan vel tekið þar. Bæði eru þessi heiðurshjón nú látin. Emil Emilsson var mjög hreinskiptinn maður, laus við alla yfirborðsmennsku, ákveðinn í öllu fasi og framkomu, jákvæður maður. Hannhefur nú á góðum aldri verið hrifinn skyndilega burt. Minning þess liðna geymist um hina björtu áhyggjulausu lífdaga.

Eftirlifandi konu hans, syni og sonarsyni, systur hans og öðrum nánum ástvinum hans votta ég samúð og hluttekningu. Blessuð sé minning Emils Emilssonar.

Þorgeir Kr. Magnússon