15. nóvember 1996 | Minningargreinar | 595 orð

Guðmundur Arnlaugsson

Guðmundur Arnlaugsson

Guðmundur Arnlaugsson fæddist í Reykjavík 1. september 1913. Hann lést í Landspítalanum 9. nóvember síðastliðinn. Guðmundur var elsta barn hjónanna Arnlaugs Ólafssonar, bónda og verkamanns, f. 8.8. 1888, d. 2.9. 1971, og Guðrúnar Guðmundsdóttur húsfreyju, f. 6.9. 1884, d. 6.8. 1943. Systkini Guðmundar voru Skúli, f. 30.9. 1916, d. 8.6. 1917, Sigríður, f. 18.1. 1918, Ólafur, f. 2.3. 1920, d. 28.11. 1984, María, f. 19.6. 1921, Helgi, f. 17.3. 1923, Elías, f. 8.11. 1925, og Hanna, f. 29.7. 1928, d. 13.1.1984. Kona Guðmundar var Halldóra Ólafsdóttir, hjúkrunarkona, f. 20.7. 1915, d. 12.10. 1978. Þau bjuggu framan af í Kaupmannahöfn en síðan í Reykjavík, fyrst á Öldugötu 25 og síðar í Drápuhlíð 45. Börn þeirra eru: 1) Ólafur, stýrimaður, f. 15.3. 1943, eiginkona Nancy Knudsen Guðmundsson, þau skildu. Dætur þeirra eru Elfrida Johanna, háskólanemi, f. 5.11. 1973, og Erica Jean grunnskólanemi, f. 30.5. 1983. Síðari kona Ólafs er Liz Guðmundsson, f. 26.10. 1941. 2) Arnlaugur, tæknifræðingur, f. 21.7. 1945, eiginkona Anna Kristjánsdóttir, prófessor, f. 14.10. 1941. Börn þeirra eru Hlíf sem er BA í mannfræði, f. 1.2. 1972, gift Hilmari Thors, stjórnmálafræðingi, f. 3.12. 1965, Guðmundur, menntaskólanemi, f. 15.10. 1976, og Skúli menntaskólanemi, f. 2.5. 1980. 3) Guðrún, tónlistarkennari, f. 19.3. 1947, eiginmaður Björgvin Víglundsson, verkfræðingur, f. 4.5. 1946. Dætur þeirra eru Lára, læknir, f. 16.9. 1968, og á hún dóttur, Halldóru, f. 31.1. 1994, og Halla, háskólanemi, f. 16.6. 1975. Guðmundur stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild 1933. Sama haust hóf hann nám við Kaupmannahafnarháskóla og var aðalgrein hans stærðfræði en auk hennar eðlisfræði, efnafræði og stjörnufræði. Fyrri hluta prófi lauk hann vorið 1936, gerði þá hlé á námi og kenndi við Menntaskólann á Akureyri til 1939. Cand.mag. prófi lauk Guðmundur síðan 1942 og kenndi við menntaskóla í Kaupmannahöfn uns heimsstyrjöldinni lauk. Er heim kom kenndi Guðmundur við Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann í Reykjavík. Hann kenndi stærðfræði við verkfræðideild Háskóla Íslands og eðlisfræði í heimspekideild HÍ. Þá var hann stundakennari við Verzlunarskóla Íslands og síðar við Kennaraháskóla Íslands. Árið 1965 var Guðmundur skipaður fyrsti rektor Menntaskólans við Hamrahlíð og kenndi þar einnig lengst af nokkra stærðfræði. Þar var hann frumkvöðull og farsæll stjórnandi við gerð öldungadeildar og áfangakerfis en hvort tveggja leit fyrst dagsins ljós 1972. Hann lét af störfum rektors við MH árið 1980. Um langt skeið gegndi Guðmundur margvíslegum trúnaðarstörfum, var ritari raunvísindadeildar Vísindasjóðs í 22 ár, sat í landsprófnefnd um áratuga skeið, var námsstjóri í stærðfræði og eðlisfræði við menntamálaráðuneytið og fulltrúi ráðuneytisins í norrænum nefndum um skólamál. Hann skrifaði og þýddi fjölda kennslubóka, einkum í stærðfræði og eðlisfræði. Guðmundur var kunnur fyrir afskipti sín af skák, lengi landsliðsmaður og ólympíumótsfari 1939, Íslandsmeistari 1949 og alþjóðlegur skákdómari fyrstur Íslendinga árið 1972. Hann var gerður heiðursfélagi Skáksambands Bandaríkjanna 1972 og Skáksambands Íslands 1975. Guðmundur skrifaði fjölda bóka og greina um skák og studdi á margvíslegan hátt eflingu skáklistarinnar og unga skákmenn. Hann flutti þætti um skák bæði í útvarp og sjónvarp. Síðustu ár var hann dómari í nokkrum aðþjóðlegum áskorendamótum vegna heimsmeistaraeinvígis. Árið 1979 var Guðmundur sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar og árið 1995 nafnbót heiðursdoktors við Háskóla Íslands. Eftir að hann lét af störfum sem rektor Menntaskólans við Hamrahlíð var hann m.a. virkur við dómarastörf á skákmótum fram á síðustu ár. Einnig stundaði hann skriftir og fræðistörf fram á síðustu vikur og eru nokkur þeirra verka, sem hann vann að, að koma út á næstu mánuðum. Síðustu æviár sín átti Guðmundur samvistir við Öldu Snæhólm og trygga og einlæga vináttu. Útför Guðmundar Arnlaugssonar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.