Innsýn í mannlega tilveru Fjölvaútgáfan gefur út Innsýn í mannlega tilveru sem út kemur um þessar mundir hjá Fjölvaútgáfunni.

Innsýn í mannlega tilveru Fjölvaútgáfan gefur út Innsýn í mannlega tilveru sem út kemur um þessar mundir hjá Fjölvaútgáfunni. Þar fjallar Einar Þorsteinn Ásgeirsson um samskonar málefni og hann hefur skrifað um í sunnudagsblað Morgunblaðsins undanfarin þrjú ár. Hér birtist kafli úr bókinni.

ISSKILDAR þróunarhugmyndir eru umfjöllunarefnið hér. Saga mannkynsins er einnig í endurskoðun. Geimtilvera jarðarinnar, þróunarhrynjandinn, almennt samband við reikistjörnur og líf á þeim og kaflaskil upplýsingastefnunnar frá síðustu öld fylgir svo í kjölfarið. Spádómar eru nefndir til sögunnar, hamfarir og hreinsun jarðarinnar af lágri siðgæðismeðvitund, en einnig alheimsjafnvægið og ógn mannkynsins frá utanaðkomandi öflum.

Upp/niður

Hér á undan höfum við fjallað um ýmsar viðmiðanir í tilveru okkar, en nú er spurt: Hver er sú þróunarviðmiðun, sem er notuð í menningu okkar? Alveg frá kauphallarhruninu í Bandaríkjunum 1929 hefur einstefnukenning í þróun einkennt hinn vestræna heim. Hún tekur ekki mið af því, að í öllum hrynjanda skiptist á tímabil uppsveiflu og niðursveiflu. Innan stærri hrynjanda getur einnig verið minni hrynjandi, en allir hafa þeir sama form uppsveiflna og niðursveiflna. Þetta á einnig við út frá sjónarmiði þróunar. Þó að við virðumst nú um stundir á efnislegri þróunarbraut, sem hefur varað í alls rúm sextíu ár á uppleið, getur hvenær sem er komið sá tími, að við verðum í stórri sveiflu á leið niður á ný. Þennan möguleika þarf að taka með af skynsemi inn í hugsun mannkynsins í heild. Þannig getur fólk betur lagað sig að þeim raunverulegu aðstæðum, sem eru ríkjandi hér í efnisheimi og hugsanlegum aðsteðjandi hættum. Sú saga jarðarinnar, sem við höfum getað safnað saman, gefur ef til vill ekki rétta mynd af heildarþróunarferli mannkynsins á jörðinni. Það skulum við skoða nánar. Við þekkjum nú um 5000 ár aftur í tímann. En sífellt lengist þó sá tími, sem maðurinn er talinn hafa lifað hér. Nú er talað um eina til tvær milljónir ára. Fimm þúsund ár eru aðeins hálft prósent af milljón árum. Hvað með hin 99,5% eða bara síðustu 5%, sem eru 50 þúsund ár. Hvað var þá að gerast meðal manna á jörðinni?

Hve lengi?

Spurningunni um það hversu lengi mannkynið er búið að vera hér á jörðinni verður seint fullsvarað. Í nýútkominni bók segja Michael Cremo og Richard L. Thompson frá rannsókn sinni á fornleifafræðinni. Hún er að þeirra sögn enn ein vísindagreinin, sem er altekin lögmálum tilvistarkreppu jarðlífsins. Við gefum Cremo orðið: "Ég hóf rannsókn mína á þessu máli árið 1984 eftir að hafa heyrt á skotspónum fullyrðingar um óeðlilega fornleifafundi miðað við viðtekna söguskoðun. Magnið af upplýsingunum kom mér mjög á óvart. Í fræðibókum okkar stendur, að mannskepnan ­ Homo Sapiens ­ hafi komið fram fyrir um 100 þúsund til milljón árum og þróast frá öpum eða apalíkum verum. Mínar rannsóknir sýna þvert á móti, að mannfræðingar síðustu 150 ára hafa endurgrafið helminginn af þeim upplýsingum, sem þeir hafa fundið! Þær sem ekki hentuðu þeim. Það sem liggur fyrir, bendir til þess, að maðurinn hafi verið á jörðinni í einni eða annarri mynd í hundruð milljóna ára. Ég vil nefna dæmi: Það fannst mjög fínlega unninn málmvasi í steinmyndunum í Dorchester í Massachusetts. Vasinn losnaði við sprengingu í steinmyndunum, sem eru yfir 600 milljón ára gamlar."

Feluleikur

"Þetta þýðir að maðurinn, eins og við þekkjum hann í dag, hefur verið til á jörðinni samhliða öðrum frumstæðum mannverum. Skoðum fleira: Árið 1979 fann Mary Leakey, sem er eiginkona Louis Leakey eins af frægustu mannfræðingum tuttugustu aldarinnar, 3,6 milljón ára gömul fótspor í Latoli í Tanzaníu. Margir sérfræðingar skoðuðu þessi spor og allir voru þeir sammála um að þarna hefðu verið á ferðinni mannverur nákvæmlega eins og maðurinn er í dag. Þrátt fyrir það gat þetta fólk ekki dregið einu rökréttu niðurstöðuna af þessu, sem er að þarna voru á ferðinni menn eins og við erum í dag! Hér er hrein sjálfsblekking í gangi. Annað dæmi er mannvistarleifafundur þjóðverjans Dr. Hans Reck árið 1913 í Afríku. Hann fann fullkomna beinagrind af nútímamanni í steinmyndunum, sem voru nær tveggja milljón ára gamlar. Á þessum tíma var allt miðað við Javamanninn, sem fannst 1894. Þar á undan varð umbylting, er bók Darwins um uppruna tegundanna kom út 1859. Í nútímabókum er ekkert sagt frá fornsögulegum beinafundi á þessu fjörutíu ára tímabili. En skoði maður vísindarit frá þessum tíma segja þau frá beinagrindarfundum, sem samsvara algerlega nútímamanninum, ekki apamanni, ekki týnda hlekknum, sem er tíu milljón, 20 milljón, 30 milljón, 50 milljón ára og svo framvegis."

2,8 milljarðar

"Þessu lýsum við öllu á 1.000 blaðsíðum í bókinni okkar. Elstu hlutir gerðir af mönnum, sem fundist hafa, eru málmkúlur, sem fundust í Afríku, sumar með þrjár línur umhverfis miðlínuna. Aldur þeirra er eftir berglögunum, sem þær fundust í 2800 milljón ár (2,8 milljarðar ára)! Það er allnokkuð miðað við það, að jörðin sjálf er talin 5,3 milljarða ára. Elstu merki um mannverur eru fótspor sem fundust í Antelope Springs í Utah. Þau eru 600 milljón ára gömul. Elsta beinagrind af manneskju eins og nú gengur hér um götur er um 300 milljón ára gömul. Hún fannst í kolanámu í Illinois árið 1862. Vísindaniðurstöðum sem þessum er haldið leyndum. Árið 1970 fann Virginia Steen-McIntyre 300 þúsund ára steinverkfæri í Mexíkó. Það passaði ekki við þá gefnu heimsmynd, sem segir, að menn hafi í fyrsta lagi komið til Ameríku fyrir 25 til 30 þúsund árum en í síðasta lagi fyrir 12 þúsund árum. Hún fékk ekki birtingu neinstaðar á þessum niðurstöðum sínum, sem þó voru vísindalega vel grundaðar. Við fengum leyfi til að birta myndir af þessum fundi í bók okkar, en aðeins ef við segðum steinverkfærin vera 25 þúsund ára. Því miður er þetta vísindamennska nútímans."

Darwin

Ef saga jarðarinnar er skoðuð með sanngirni, en ekki útfrá fyrirfram gefinni leiðsögn gömlu hugmyndafræðinnar, verður öllum ljóst að tilvera mannsins á jörðinni hefur gengið í gegnum mörg löng tímabil, sem lágu til skiptis upp og jafnmörg sem lágu niður á við. Þekking fannst og þekking glataðist til skiptis. Hámenning kom og fór. Dýrategundir "urðu til" og glötuðust síðan á ný. Og í því sambandi er rétt að minna hér á allra nýjustu túlkanir prófessors Stephens Jays Gould á þeim steingerfingaleifum, sem fundist hafa á jörðinni. Þróunarkenning Darwins er að því leyti röng, segir hann nú, að úrval tegundanna fer ekki fram hægt og hægt við sömu jöfnu aðstæðurnar. Miklu fremur er úrvalið eins og rússnesk rúlletta. Á mjög stuttum tíma, til dæmis nokkrum milljónum ára, "koma fram" margar milljónir tegunda, sem síðan deyja skyndilega nær allar eða um 90% þeirra. Það eru ekki fáir einstaklingar margra tegunda, heldur margir einstaklingar fárra tegund, sem lifa síðan áfram í hundrað milljón ár svo dæmi sé tekið. Þá kemur aftur stutt tímabil til dæmis nokkrar milljónir ára, þar sem ótrúlega margar nýjar tegundir koma fram, en síðan útrýmast um það bil 90% þeirra tegunda á ný og svo áfram. Jafnframt þessu er jafnvægistímabil ekki undirstaða þróunar tegundanna eins og Darwin hélt fram heldur hamfaratímabil milli jafnvægistímabila. Með öðrum orðum: Náttúran er að því er virðist hrein eyðslukló og fer ekki stystu leið að markinu. Hefur þróunarkenning Darwins komið misskilningi af stað um eðli líffræðilega lífsins?

Náttúran

En hvar byrjar svo og endar náttúran sem er grundvöllur þessarar þróunarkenningar? Þetta hugtak, sem svo oft er vitnað til? Er hún bara þægilegt nafn á einhverju samansafni óskyldra ferla innan lífhjúpsins? Höfum við fundið það heillaráð að nefna þetta samansafn ferla náttúruna, til þess að spara okkur hugsun? Setjum hugann um stund út fyrir jörðina: Þarna sjáum við þetta stórkostlega fyrirbæri fyrir neðan okkur, sumir segja jafnvel að hún hafi eigið líf. Þessi sýn niður á jörðina virðist ekki benda til annars en að allt sé rólegt í kringum hana: Friður og spekt. Jörðin virðist standa kyrr, þó að við vitum að hún líður þarna tignarlega um geiminn. En er allt sem sýnist? Gerum við okkur grein fyrir því að hún snýst um sjálfa sig á 1.666 kílómetra hraða á klukkustund við miðbaug. Hún snýst um sólu á 108.000 kílómetra hraða á klst. Sólkerfið allt fer síðan með 1.000.000 kílómetra hraða á klukkustund á snúningi sínum umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar og Vetrarbrautin fer með enn meiri ofsahraða út frá miðju alheimsins að því er talið er. Hver er þá endanlegur hraði jarðarinnar? Það hefur mér vitanlega enginn reiknað nákvæmlega út. En ferill hennar er einhvers konar spíralhreyfing um miðlínu mikið stærri spírals, sem vindur sig umhverfis miðlínu miklu mun stærri spírals og svo framvegis.

Lífhjúpur

Þetta ætti að geta bent okkur á þá staðreynd, að á vegi okkar um óravíddir geimsins getur ýmislegt smávegis komið uppá, sem gjörbreytir skyndilega öllu jafnvægi efnistilverunnar á jörðinni. Jafnvægi, sem er í eðli sínu mjög viðkvæmt. Það sem þannig var áður eðlilegt ástand hverfur þá vegna nýrra aðstæðna, sem skella á í einu vetfangi. Niðurstaðan verður uppstokkun í lífhjúpi jarðarinnar með tilheyrandi breytingum á dýralífi, landslagi og lífsskilyrðum mannsins. Í rannsóknum manna á steingerfingum og dýrahræjum, sem geymst hafa í ískulda norðurskauts jarðar, hafa einmitt fundist ummerki, sem styðja þessa kenningu. En þau merki eru á skjön við okkar fallegu þróunarkenningar og því er þeim úthýst úr hugmyndafræði menningarinnar. Samt er komin fram, og viðtekin, skynsamleg kenning um óreiðu "chaos", sem náttúrulegan feril í efnistilverunni. Hún byggist á því að óreiða leiði um síðir af sér nýtt jafnvægi. Enn hefur enginn yfirfært þá kenningu yfir á þróun jarðarinnar í þessu samhengi.

Hraðbyr

Til viðbótar hraðbyr jarðarinnar um geiminn, er alþekkt að mjög mörg flökkuhnattarbrot og halastjörnur eru viðloðandi sjálft sólkerfi okkar. Þau ganga á brautum, sem ná svo langt út frá sólinni, að við gleymum tilveru þeirra jafnóðum eftir að þeir fara framhjá jörðinni. Margir vísindamenn telja, að ferðalag þeirra í sólkerfinu sé líklegasta skýringin á margs konar hamförum á jörðinni og öðrum reikistjörnum og fylgihnöttum sólkerfisins. Þannig er til dæmis farið með hörmungarnar, sem eyddu risaeðlunum fyrir um 64 milljónum ára. Þó að það sé algeng og af flestum viðurkennd vitneskja, þá er það ekki tekið með inn í þróunarkenningar nútímans. Það er flokkað, sem einstakt slys, eins konar undantekning sem sannar regluna. Ef stórslys af þessu tagi væru felld inn í þróunarkenninguna yrði hins vegar að endurhanna hana frá grunni. Þar að auki hefur mannkynið tilhneigingu til að útiloka fremur óhugnanlegar uppákomur eins og þessa úr meðvitund sinni. En hvers vegna býr mannkynið við svona mikið stjarnfræðilegt óöryggi? Fram hefur komið sú hugmynd að óreiðuskeið sólkerfisins séu í raun lykillinn að þróun eða breytingum á fyrirbærinu jörð. Tilvera riseðlanna er gott dæmi: Þær ríktu á jörðinni í 350 milljónir ára og hafa sjálfsagt gert tilveru mannsins á sama svæði óbærilega. Geimslys breytti því öllu og lagði þar með grundvöllin undir líf mannsins á jarðsviðinu.

Bókarheiti er Innsýn í mannlega tilveru, 240 bls. Höfundur er Einar Þorsteinn Ásgeirsson. Útgefandi er Fjölvi. Leiðb. verð 2980 kr.

TEGUNDIR koma og fara á Jörðinni ­ en ekki eins og Darwin kenndi, heldur er þróunin líkari rússneskri rúllettu, segir höfundurinn. Málverkið heitir Guð að skapa og er eftir Blake.