Aðventukvöld á Grenivík AÐVENTUKVÖLD verður í Grenivíkurkirkju næstkomandi sunnudag og hefst kl. 20.30. Kór kirkjunnar mun syngja aðventu- og jólalög og nemendur úr Tónlistarskóla Eyjafjarðar leika á hljóðfæri.

Aðventukvöld á Grenivík

AÐVENTUKVÖLD verður í Grenivíkurkirkju næstkomandi sunnudag og hefst kl. 20.30.

Kór kirkjunnar mun syngja aðventu- og jólalög og nemendur úr Tónlistarskóla Eyjafjarðar leika á hljóðfæri. Lesin verður jólasaga og Jóna Lísa Þorsteinsdóttir, fræðslufulltrúi kirkjunnar, flytur hugvekju. Börn úr kirkjuskólanum syngja og nokkrir unglingar flytja helgileik. Samverunni lýkur með því að börnin fá ljós í hendur og lesnir verða spádómar um fæðingu frelsarans.

Kvöldstund við kertaljós

Kvöldstund við kertaljós nefnist samvera sem verður í Laufáskirkju næstkomandi þriðjudagskvöld en hún hefst kl. 21.

Kór kirkjunnar syngur og tónlistarfólk úr Tónlistarskóla Eyjafjarðar flytur jóladagskrá. Börnin taka lagið, lesin verður jólasaga og sr. Birgir Snæbjörnsson prófastur flytur hugleiðingu.

Kvöldstundinni lýkur með ljósahelgileik.